Skip to content

Af meintu okri á iðgjöldum ökutækjatrygginga

FÍB birti pistil á vef sínum í síðustu viku sem er áhugaverður fyrir margra hluta sakir. Er því m.a. haldið fram að tryggingafélögin íslensku ´okri´ á viðskiptavinum sínum þegar kemur að iðgjöldum ökutækjatrygginga. Þessi málflutningur hefur verið tekinn upp í fjölmiðlum þar sem því hefur verið haldið fram að iðgjöld hafi hækkað umtalsvert á meðan slysum fækkar. Er þetta ekki í fyrsta sinn sem slíkar fullyrðingar koma fram frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda og því rétt að staldra aðeins við og rýna í staðreyndirnar sem finna má í opinberum upplýsingum úr ársreikningum vátryggingafélaganna.

Iðgjöld duga ekki fyrir kostnaði
Tjónakostnaður hefur verið á bilinu 87-91% af iðgjöldum lögbundinna ökutækjatrygginga frá árinu 2017. Því til viðbótar fellur til rekstrarkostnaður af þessum hluta tryggingareksturs. Sá hluti hefur verið á bilinu 19-22% yfir sama tímabil. Samanlagt eru þessir kostnaðarliðir því á bilinu 107-110% af iðgjöldum. Dæmið er því einfalt; lögbundnar ökutækjatryggingar hafa skilað vátryggingafélögunum tapi.


Þá má sjá í ársreikningum vátryggingafélaganna að vöxtur í útgreiddum tjónum vegna lögbundinna ökutækjatrygginga var meiri en hækkun iðgjalda á þessu sama tímabili. Fullyrðingar um ´okur´ eiga því ekki við rök að styðjast.

Hvernig má þá lækka iðgjöld?
Þetta er hinsvegar spurning sem við eigum að takast á við sameiginlega og án upphrópana. Það er rétt að iðgjöld eru hærri hér á landi en t.d. á Norðurlöndum. Sá samanburður er þó snúinn þar sem löggjöf og starfsumhverfi er ólíkt milli landa. Hér á landi er t.d. gengið mun lengra í greiðslu bóta vegna minniháttar líkamstjóna en í nágrannaríkjum okkar. Sá þáttur vegur einna þyngst í þeim muni sem er á iðgjöldum vegna ökutækjatrygginga. Í Danmörku eru almennt ekki greiddar bætur fyrir líkamstjón ef varanleg örorka er metin 15% eða lægri. Hér á landi eru ekkert slíkt gólf að finna og eru 75% allra greiddra bóta, vegna líkamstjóna, sem metin eru 15% eða lægri. Það segir sig því sjálft að þessi eini þáttur hlýtur að vega þungt í samanburði á iðgjöldum í Danmörku og Íslandi. Það verður að horfa á heildarmyndina í þessum samanburði.

Innihaldslausar upphrópanir festa óbreytt ástand í sessi
SFF hafa um langt skeið lagt áherslu á mikilvægi þess að ræða breytingar á laga- og starfsumhverfi ökutækjatrygginga hér á landi. Þar liggja gríðarlegir hagsmunir fyrir bifreiðaeigendur. Vilja samtökin gjarnan eiga samtal við FÍB um vænlegar leiðir í þeim efnum. Upphrópanir um okur, sem ekkert er, skila okkur engu öðru en að drepa málinu á dreif. Á meðan gerist ekkert.

Deila færslu

Share on facebook
Share on twitter