Fréttabréf SFF: Stuðningur við Grindvíkinga

Nýtt fréttabréf SFF er komið út. Í því er farið yfir það sem efst hefur verið á baugi í innra starfi félagsins og nýlegar umsagnir SFF, til viðbótar við ýmis önnur mál, þar með talið samkomulag um stuðning við Grindvíkinga, góð ráð tengd netsvikum, mikilvægi fjármálalæsis, breytingar á regluverki á fjármálamarkaði, fróðlegan umræðuþátt SFF um græn fjármál og erindi Margeirs Péturssonar á málstofu SFF um bankarekstur á stríðstímum í Úkraínu til viðbótar við umfjöllun um arðsemi íslenskra og evrópskra banka.

Fréttabréfið má lesa hér.

Á rauðu ljósi? – Umhverfisdagur atvinnulífsins 29. nóvember

Umhverfisdagur atvinnulífsins 2023 verður haldinn miðvikudaginn 29. nóvember í Hörpu kl. 13:00-15:00 undir yfirskriftinni Á rauðu ljósi? Dagurinn er haldinn sameiginlega af sameiginlegt verkefni SA, SFF, SFS, SI, SAF, SVÞ og Samorku.

Hægt er að skrá sig á viðburðinn hér.

Dagurinn í ár er tileinkaður Loftslagsvegvísum atvinnulífsins sem afhentir voru Guðlaugi Þór Þórðarsyni umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra á vormánuðum. Þar komu fram 332 tillögur að aðgerðum sem eiga að stuðla að auknum samdrætti í losun atvinnugreinanna. Í vegvísinum er sérstakur kafli um fjármálafyrirtæki sem unnin var af SFF og aðildarfyrirtækjum okkar.

Dagskrá lýkur með hinum árlegu Umhverfisverðlaunum atvinnulífsins sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhendir. Á síðasta ári fékk Sjóvá verðlaun fyrir umhverfisframtak ársins.

Dagskrá Umhverfsdags atvinnulífsins 29. nóvember 2023

Setning
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins

Orkuframleiðsla og aðgengi að orku

 • Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku, stýrir umræðum
 • Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra
 • Auður Daníelsdóttir, forstjóri Orkunnar IS
 • Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur
 • Auður Nanna Baldvinsdóttir, framkvæmdastjóri Iðunnar H2

Einföldun regluverks

 • Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, stýrir umræðum
 • Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra
 • Bogi Nils, forstjóri Icelandair
 • Álfheiður Ágústdóttir, forstjóri Elkem Ísland og leiðtogi vegvísis um kísiliðnað
 • Aðalheiður Snæbjarnardóttir, forstöðumaður Sjálfbærni hjá Landsbankanum

Fjárhagslegir hvatar til fjárfestinga

 • Heiðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri SFF, stýrir umræðum
 • Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármálaráðherra
 • Björn Ingi Viktorsson, forstjóri Steypustöðvarinnar
 • Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka
 • Guðmundur Kristjánsson, forstjóri BRIM

Innviðauppbygging

 • Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, stýrir umræðum
 • Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra
 • Agla Huld Þórarinsdóttir, yfirmaður sjálfbærnimála Eimskips
 • Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborg og leiðtogi vegvísis um vegasamgöngur
 • Svandís Hlín Karlsdóttir, framkvæmdastjóri viðskipta- og kerfisþróunar hjá Landseti

Lokaerindi

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins 2023

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson afhendir verðlaun fyrir Umhverfisfyrirtæki ársins og Umhverfisframtak ársins 2023.

Skráning hér.

Mikilvægi náms í fjármálæsi – viðtal við Heiðrúnu á Rás 2

Heiðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri SFF, var í viðtali í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 fyrr í vikunni.

Í viðtali ræddi Heiðrún mikilvægi fræðslu í fjármálalæsi fyrir ungt fólk. Heiðrún benti á að þekking á fjármálum sé mikilvæg undirstaða þegar ungt fólk fer út í lífið og til þátttöku í samfélagi sem verður sífellt flóknara. Því ætti fjármálafræðsla að vera hluti skyldunám í grunnskóla en aðalnámskrá grunnskólanna er nú til endurskoðunar.

SFF hefur undanfarin ár rekið fræðsluvettvangingurinn Fjármálavit, með stuðningi frá Landssamtökum lífeyrissjóða. Fjármálavit hefur það að markmiði að efla fræðslu tengda fjármálalæsi. Það hefur meðal annars falist í að aðstoða áhugasama kennara með því að leggja til námsbækur, kennsluefni og bjóða upp á námskeið tengd fjármálalæsi.
Hlusta má á viðtalið í heild sinni hér.

Upptaka: Bankarekstur á stríðstímum í Úkraínu með Margeiri Péturssyni

Margeir Pétursson

Margeir Pétursson, stofnandi MP Banka og hluthafi í Bank Lviv í Úkraínu, hélt fróðlegt erindi á málstofu SFF 10. nóvember um þær áskoranir sem stríðið í Úkraínu hefur haft í för með sér fyrir fjármálakerfið þar í landi. Margeir þekkir vel til þróunar efnahagsmála og fjármálamarkaða í Úkraínu undanfarin ár.

Við þökkum Margeiri kærlega fyrir afar fræðandi og áhugaverða kynningu.

Horfa má á erindi Margeirs í spilaranum hér fyrir neðan:

Greiða 27% tekjuskatts lögaðila með 4% starfsmanna

Rætt var við Heiðrúnu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja, í Morgunblaðinu í gær um skattgreiðslur fjármálafyrirtækja. Í greininni kemur fram að íslensk fjármála- og vátryggingafyrirtæki hafi við síðustu álagningu greitt um 27% af tekjuskatti allra lögaðila í gegnum almennan tekjuskatt og sértækan tekjuskatt sem einungis er lagður á fjármálafyrirtæki. Til samanburðar starfa um 4% starfsfólks á almennum vinnumarkaði innan fjármálageirans.

Því til viðbótar greiða fjármálafyrirtæki tvo aðra sértæka skatta sem einungis eru lagðir á fjármálafyrirtæki. „Íslenskir bankar greiða nú þegar þrjá skatta um fram önnur fyrirtæki hér á landi. Mesta skattlagningin er á íslensk fjármálafyrirtæki, í samanburði við nágrannalönd Íslands,“ segir Heiðrún í viðtalinu.

„Það væri nær að horfa til þess að lækka sérstaka skatta á íslensk fjármálafyrirtæki til jafns við það sem þekkist t.d. annars staðar á Norðurlöndunum til að gera íslenskum fjármálafyrirtækjum kleift að þjónusta íslenskt samfélag enn betur,“ segir Heiðrún við Morgunblaðið.

Í greininni nefnir Heiðrún að sértækum sköttum á fjármálafyrirtæki hafi verið komið á fyrir rúmum áratug m.a. til að greiða fyrir kostnað sem ríkissjóður varð fyrir vegna fjármálahrunsins. Heiðrún bendir á skýrslu sem Ásgeir Jónsson, nú seðlabankastjóri, og Hersir Sigurgeirsson prófessor unnu árið 2016 fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið, þar sem fram kemur að beinn kostnaður ríkisins af fjármálahruninu hafi þegar verið endurheimtur árið 2016, meðal annars í gegn um sérstaka skatta á fjármálafyrirtæki, stöðugleikaframlög slitabúa og eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

Heiðrún vísar einnig til nýlegrar fréttar í Morgunblaðinu þar sem fram kemur að arðsemi íslenskra banka sé und­ir meðaltali á evr­ópska efna­hags­svæðinu.

Greiða þrjá sérstaka skatta

Þá var rætt við Yngva Örn Kristinsson, hagfræðing Samtaka fjármálafyrirtækja, í morgunútvarpi Rásar 2 á föstudaginn. Þar benti Yngvi á að íslensk fjármálafyrirtæki greiði árlega um tólf milljarða króna í þrjá viðbótarskattana sem ekki eru lagðar á aðrar atvinnugreinar hér á landi og almennt ekki á fjármálafyrirtæki í nágrannalöndum Íslands. „Það er þegar sérstakt kerfi til að fanga arðsemi bankanna og skila tekjum inn í ríkissjóð,“ bendir Yngvi á.

Skattarnir þrír eru lagðir á skuldir bankanna, launagreiðslur auk 6% viðbótar tekjuskatts á hagnað umfram milljarð króna á ári. „Þannig að það er ekki sanngjarnt að lýsa þessu þannig eins og þeir borgi ekkert sérstaklega til samfélagsins. Þeir borga miklu meira heldur en evrópskir bankar,“ segir Yngvi í viðtalinu.

Yngvi bendir á að þó hagnaðartölurnar bankanna séu háar fjárhæðir sé hlutfallslegur hagnaður ekki sérlega hár, hvorki í samanburði við aðrar atvinnugreinar á Íslandi né evrópskar bankastofnanir.

Lesa má viðtalið við Heiðrúnu hér.

Lesa má viðtalið við Yngva hér.

Vörumst svik í sumarfríinu

netsvik

Mörg dæmi er nú um netsvikatilraunir og því biðjum við fólk um að vera á varðbergi. Fólk og fyrirtæki geta verið sérstaklega berskjölduð gagnvart netsvikum þegar slakað er á í sumarfríinu.

Dæmi um nýlegar netsvikatilraunir eru að neytendur fá smáskilaboð um að von sé á pakka frá flutningafyrirtæki sem greiða þurfi fyrir líkt og sjá má hér að neðan:

Mikilvægt er að veita ekki upplýsingar um kortanúmer eða aðgangsupplýsingar tengdum heimabanka í slíkum tilfellum. Hafi fólk veitt slíkar upplýsingar er brýnt að grípa strax til aðgerða til að láta loka greiðslukortum og breyta aðgangsorðum tengdum heimabanka eftir því sem við á.

Á vefnum Taktu tvær má finna frekari upplýsingar hvernig verjast má netsvikum. Á vefnum segir meðal annars:

„Helsta vörnin er að treysta ekki í blindni og bregðast ekki strax við fyrirmælum sem við fáum send. Sama hver aðgerðin er þá borgar sig alltaf að staldra við, taka tvær og fara í gegnum nokkur skref áður en ákvarðanir eru teknar varðandi háar fjárhæðir og viðkvæmar upplýsingar:

 • Skoðaðu vefslóðina í hlekk eða þegar á vefsíðuna er komið. Er slóðin traust? Eru nöfn eða fyrirmæli rétt skrifuð?
 • Sannreyndu greiðsluupplýsingar. Er upphæðin rétt? Er hún í réttum gjaldmiðli? Er hún að fara á réttan stað?
 • Hafðu samband við fyrirtæki eða stofnanir ef að vafi kviknar. Eitt símtal getur sparað þér háar fjárhæðir.
 • Er líklegt að einstaklingurinn, fyrirtækið eða stofnunin hafi samband við þig með þeim aðferðum sem um ræðir?
 • Taktu tvær mínútur og veltu fyrir þér: Er tilboðið of gott til að vera satt?“

Kynna má sér varnir gegn netsvikum á vefnum Taktu tvær.

Vel heppnaður fundur Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnhagsráðherra með aðildarfélögum SFF

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra mætti á fund aðildarfélaga SFF í kjölfarið á aðalfundi SFF í gær.

Vel var mætt af hálfu aðildarfélaga því ljóst að málefni þeirra ráðuneyta sem Bjarni stýrir er aðildarfélögum hugleikin. Bjarni kom víða við í ræðu sinni og var m.a. rætt um áframhaldandi sölu ríkiseigna þ.m.t. Íslandsbanka, bankaskatta, aukið regluverk, fortíðarvanda Íbúðalánasjóðs og samningaviðræður við eigendur svokallaðra HFF bréfa. Rætt var um lánshæfismat Íslands sem aðilar voru almennt sammála um að mætti bæta. Nokkur umræða var um verðbólgu og vexti sem og þann vanda sem vinnumarkaðurinn stendur frammi fyrir en afar mikilvægt er að ná samkomulagi um að verja þann kaupmátt sem náðst hefur. Þá var farið yfir horfur í efnahagsmálum, aukinn kostnað í ríkisreksti og erfiðleika við að hemja hann og loks rætt um velþekktan og illa þokkaðan verðbólgudraug og þau vandræði sem honum fylgja.  Ljóst er að verkefnin framundan eru margvísleg og krefjandi en vert er að halda því til haga að það eru mörg jákvæð teikn í þjóðarbúskapnum.

Við færum Bjarna þakkir fyrir komuna.