Skip to content

EFTA DÓMSTÓLLINN VÍSAR FRÁ MÁLI SFF

Í dag vísaði EFTA dómstóllinn frá máli sem Samtök fjármálafyrirtækja höfðuðu til ógildingar á ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA frá árinu 2014 um að starfsemi Íbúðalánasjóðs falli undir þjónustu í almannaþágu skv. 2. mgr. 59. gr. EES samningsins að teknu tilliti til þeirra takmarkana sem íslensk stjórnvöld hafa sett starfsemi sjóðsins.Þessar takmarkanir fela í sér að Íbúðalánasjóður er ekki heimilt að veita lán til íbúðarhúsnæðis þegar  fasteignamat er hærra  en 40 m.kr.  SFF hafa bent á að þessi takmörkun sé óveruleg enda eru hátt í 90% allra fasteigna á Íslandi með lægra fasteignamat en 40 m.kr. Hlutfallið er hátt í 100%  þegar horft er til eigna utan höfuðborgarsvæðisins.

SFF geta ekki fallist á að hægt sé að skilgreina  almenna fasteignalánastarfsemi Íbúðalánasjóðs sem nauðsynlega í þágu almannahagsmuna. Bankar og sparisjóðir hafa um áratuga skeið verið virkir þátttakendur í fjármögnun almennra lána til kaupa og fjárfestinga í íbúðarhúsnæði og á undanförnum árum hafa þessir aðilar veitt rúmlega 80% þeirra nýju lána sem runnið hafa til íbúðarkaupa.  Það sem helst hefur takmarkað lánastarfsemi banka og sparisjóða á sviði íbúðalána undanfarna áratugi eru undirboð Íbúðalánasjóðs og fyrirrennara hans í krafti ríkisstuðnings.

Ástæðan fyrir að EFTA dómstóllinn vísar málinu frá er meðal annars sú að rétturinn telur að SFF hafi ekki sýnt fram á markaðsstaða aðildarfélaga sinna á fasteignalánamarkaði hafi orðið fyrir verulegum áhrifum vegna takmarkana ríkisins á útlánaheimildum Íbúðalánasjóðs á síðustu árum.

Að sögn Guðjóns Rúnarssonar, framkvæmdastjóra SFF, eru það mikil vonbrigði að dómstóllinn taki ekki efnislega afstöðu til málsins og líti fram hjá meginspurningunni um ríkisstyrkta samkeppni á almennum lánamarkaði. „Þá vekur sérstaka athygli að dómstóllinn tekur það fram að aðildarfélög SFF hafi ekki orðið fyrir skaða af því að keppa við opinbera stofnun sem nýtur ríkisábyrgðar og hefur þurft á miklum stuðning frá skattgreiðendum að halda á undanförnum árum.“

Guðjón segir enn fremur að reynslan sýni að þátttaka hins opinbera á markaðnum með almenn fasteignalán hafi reynst skattgreiðendum kostnaðarsöm á sama tíma og aðildarfélög SFF hafi sýnt fram á að þau veiti íbúðalán um allt land á samkeppnishæfum kjörum.

Deila færslu