Skip to content

FJÁRMÁLARÁÐGJAFAR VOTTAÐIR Í SJÖTTA SINN

Í gær útskrifuðust 33 starfsmenn aðildarfélaga SFF úr námi til vottunar fjármálaráðgjafa. Þetta er í sjötta sinn sem starfsmenn banka og sparisjóða eru útskrifaðir úr náminu og hafa nú ríflega 200 hlotið vottun sem fjármálaráðgjafar.

Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri SFF, ávarpaði útskriftarnemana. Hún sagði meðal annars að ráðgjöf um fjármál til einstaklinga væri mikilvægur þáttur í rekstri fjármálafyrirtækja og að vottunarnámið hefði skilað veigamiklum árangri í tryggja gæði slíkrar ráðgjafar. Tæplega helmingur þeirra sem starfa við einstaklingsráðgjöf í viðskiptabönkum eru nú vottaðir fjármálaráðgjafar.

Markmið vottunarinnar er að samræma þær kröfur sem eru gerðar til fjármálaráðgjafa og tryggja að þeir búi yfir nauðsynlegri þekkingu og færni í starfi. Verkefnið á sér norska fyrirmynd en slíkt vottunarferli hefur verið að ryðja sér til rúms í nágrannalöndunum á undanförnum árum. Að vottunarnáminu standa Samtök fjármálafyrirtækja, fjármála- og efnahagsráðuneytið, Háskólinn á Bifröst, viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík og Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja.

Myndir frá athöfninni eru aðgengilegar á Facebook-síðu SFF hér.

Deila færslu