Skip to content

FJÁRMÁLAVIT Á MENNTADEGI ATVINNULÍFSINS

Á þriðja tug gesta sóttu menntastofu SFF um Fjármálavit  á menntadegi atvinnulífsins sem haldin var á Hilton Nordica fimmtudaginn 28. janúar. Fjármálavit er kennsluefni um fjármál sem SFF hafa þróað í samvinnu við kennara og kennaranema og hefur verið kynnt fyrir ríflega þrjú þúsund grunnskólanemum um land allt í vetur við góðar undirtektir. Halldóra Gyða Matthíasdóttir útibússtjóri Íslandsbanka í Garðabæ og einn af fjölmörgum leiðbeinendum Fjármálavits, stýrði menntastofunni og henni til halds og trausts voru þrír  nemendur í 10. bekk í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi.

Á menntastofunni fengu gestir að setja sig í spor 10. bekkinga og leysa sama verkefni Fjármálavits og þeir hafa gert í vetur.

Verkefnið var unnið í hópum þar sem hver þeirra átti að setja í spor ímyndaðra ungmenna sem eru í námi eða að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaðnum og stefna að því að láta drauma á borð við heimsreisu eða íbúðarkaup rætast, svo dæmi séu tekin. Verkefnið felst í því að taka fjárhagslegar ákvarðanir sem leiða til þess að markmiðið náist og þar með fæst þjálfun  í markmiðasetningu varðandi fjármál og þjálfun í ákvörðunartöku þegar kemur að sparnaði og neyslu.

Þeir sem sóttu menntastofuna voru á öllum aldri og enduspeglaðist það ágætlega þegar hóparnir voru að leysa úr verkefnunum. Þannig var tekist á um það í einum hópnum hvort að unglingurinn  ætti að selja hest sem var í hans eigu til að byggja upp sparnað fyrir útborgun í íbúð eða hvort ráðlegra væri styðjast við lausn þar sem taðreyking og umtalsvert magn af hrossabjúgum kemur við sögu. Sem betur fer voru unglingarnir úr Valhúsaskóla á staðnum og gátu því leiðbeint hinum eldri um hvaða raunhæfu kostir væru í stöðunni. Í þessu tilfelli varð úr að hesturinn var seldur og andvirðið lagt inn á sparnaðarreikning. Það stuðlaði að því að unglingurinn ætti fyrir útborgun í íbúð eftir þrjú ár. Niðurstöður hópanna voru af ýmsum toga og margar góðar hugmyndir komu fram.

Nánar má fræðast um Fjármálavit á heimasíðu verkefnisins.

Deila færslu