Skip to content

FJÁRMÁLAVIT OG ALÞJÓÐLEG FJÁRMÁLALÆSISVIKA

Dagarnir 27. mars til 2. apríl verða helgaðir fjár­málalæsi ungs fólks um heim allan.  Að því tilefni munu Stofnun um fjármálalæsi og Samtök fjármálafyrirtækja vekja athygli á málefninu með ýmsu móti til að efla vitund landans um mikilvægi þekkingar á fjármálum og sparnaði.

Stofnun um fjármálalæsi hefur undanfarin ár haldið upp á alþjóðlegu fjármálalæsisvikuna ásamt hópi stofnana og fyrirtækja og staðið fyrir ýmsum viðburðum. Tilgangurinn er að vekja athygli á mikilvægi fjármálalæsismenntunar, stuðla að viðhorfsbreytingu í fjármálum og vinna að eflingu fjármálalæsis og aðgengi ungmenna að öruggri og barnvænni fjármála­þjónustu um heim allan.

Sam­tök fjármálafyrirtækja eiga aðild að Evrópsku bankasamtökunum sem nýta þessa viku í að hvetja bankasamtök í Evrópu til að láta gott af sér leiða í þessum efnum með einum eða öðrum hætti. Tilgangurinn er að vekja athygli á þörfinni fyrir aukið fjár­málalæsi með sérstaka áherslu á ungt fólk og skapa umræðu þar um. Samtök fjármála­fyrirtækja á Íslandi taka nú þátt í fjármálalæsisvikunni í þriðja sinn með kynningu á fjármálalæsisverkefninu Fjármálaviti.

Fjár­mála­læsisvik­an á að tengja börn, ung­menni, for­eldra, stofn­an­ir, fyr­ir­tæki og sam­fé­lagið allt.

Fjöl­breytt dag­skrá verður hér á landi:

  • Hringt inn – Stofnun um fjármálalæsi byrjar vikuna með látum í Kauphöllinni kl. 9 mánudaginn 27. mars þegar Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra hringir vikuna inn og opnar markaðinn ásamt nemendum úr Háteigsskóla.
  • Ráðstefna – Samtök fjármálafyrirtækja og Stofnun um fjármálalæsi standa fyrir ráðstefnu um fjármálalæsi ungs fólks miðvikudaginn 29. mars milli kl. 8.30 – 10.30 í Háskólabíói. Á ráðstefnunni munu kennarar og stofnanir sem vinna að eflingu fjármálafræðslu ungmenna leiða saman hesta sína og fjalla um stöðu mála. Nánar um dagskrána og skráningu.
  • Skólaheimsóknir – Samtök fjármálafyrirtækja hafa kynnt námsefni Fjármálavits fyrir nemendum í 10. bekk í allflestum grunnskólum landsins í vetur. Í tilefni þess að heimsókn í Áslandsskóla  þriðjudaginn 28. mars verður númer 100 í vetur, munu Arnór Björnsson og Óli Gunnar Gunnarsson, höfundar og leikarar verksins Unglingurinn slást í för með leiðbeinendum Fjármálavits og slá á létta strengi. Strákarnir hafa unnið nokkur myndbönd fyrir Fjármálavit sem verður dreift á samfélagsmiðlum og er heimsóknin í Áslandsskóla hluti af því verkefni.Aðrir skólar sem fá heimsókn í fjármálalæsisvikunni eru Grunnskólinn í Bolungarvík, Þingeyjarskóli í Aðaldal, Áslandsskóli í Hafnarfirði, Brekkubæjarskóli á Akranesi og Hólabrekkuskóli í Reykjavík.
  • Krakkarúv – á meðan á vikunni stendur sýnir Krakkarúv Tíkallinn sem eru tíu stutt myndbönd um fjármál sem snúast um að auka fjármálalæsi barna á aðgengilegan og skemmtilegan hátt. Tíkallinn er jafnframt aðgengilegur á krakkaruv.is/tikallinn.Myndböndin eru unnin af RUV og Stofnun um fjármálalæsi.
  • Keppni í fjármálalæsi – undir lok fjármálalæsisvikunnar fara Samtök fjármálafyrirtækja af stað spurningkaeppni Fjármálavits milli 10. bekkja í grunnskólum. Um er að ræða gagnvirkan netleik sem reynir á þekkingu, úrræðasemi og ráðdeild unglinga í fjármálum. Leikurinn stendur yfir nokkra daga og fær skólinn sem sigrar vegleg verðlaun.
  • Ný kennslubók – bókin „Lífið er rétt að byrja“ eftir Gunnar Baldvinsson er viðbót í námsefnisframboð á vegum Fjármálavits. Í tilefni af því munu Samtök fjármálafyrirtækja færa öllum grunnskólum landsins eintak af bókinni fyrir kennara að gjöf auk þess sem útbúið hefur verið kennsluefni úr bókinni sérhannað fyrir nemendur í efstu bekkjum grunnskóla.

Deila færslu