Skip to content

FJÖLSÓTT RÁÐSTEFNA UM BREYTINGAR Á FJÁRMÁLAMARKAÐI

Hátt í þrjú hundruð manns sóttu ráðstefnu Samtaka fjármálafyrirtækja um breytingar á regluverki fjármálamarkaða á undanförnum árum. Ráðstefnan var haldin í tilefni útgáfu skýrslunnar Hvað hefur breyst? Í henni er að finna viðamikla umfjöllun um þá umbreytingu sem hefur verið á þeim reglum sem gilda á fjármálamörkuðum.

Birna Einarsdóttir, formaður stjórnar SFF, setti ráðstefnuna Í ræðu sinni rakti hún meðal annars ástæðu þess að samtökin réðust í gerð úttektarinnar. Hún sagði eitt af grundvallarhlutverkum SFF að stuðla að upplýstri umræðu um fjármálakerfið og mikilvægi þess fyrir gangverk efnahagslífsins. Birna sagði umræðu um nauðsyn breytinga á skipulagi fjármálamarkaða hafi verið áberandi á Íslandi og ýmsar róttækar hugmyndir verið settar fram. Aftur á móti benti hún á að slíkar hugmyndir væru oftar en ekki settar fram á þeirri forsendu að ekkert hafi breyst varðandi regluverk fjármálamarkaða. Staðreynd málsins væri hins vegar að grundvallarbreytingar hafi verið gerðar á regluverki fjármálamarkaða og þar af leiðandi þyrftu umræður um skipan fjármálakerfisins að byggja á þeirri staðreynd. SFF hafi ráðist í gerð úttektarinnar til þess að styðja við þá umræðu.

Ásgeir Jónsson, forseti hag­fræðideildar Háskóla Íslands, kynnti efni skýrslunnar en hann ritstýrði gerð hennar ásamt þeim Jónasi Fr. Jónssyni, lögmanni, og Yngva Erni Kristinssyni, hagfræðingi SFF. Í erindi sínu fór Ásgeir yfir viðbrögð stjórnvalda beggja vegna Atlantsála við fjármálakreppunni 2008 og hvernig lærdómurinn af orsökum hennar hefur mótað þróun regluverks fjármálamarkaða á Íslandi og í Evrópu. Glærurnar með erindi Ásgeirs má nálgast hér.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, ávarpaði ráðstefnuna. Hann sagði skýrsluna  þarft innlegg í umræðuna um þær miklu breytingar sem hafa orðið á löggjöfinni og einnig þær breytingar sem fram undan eru og koma til vegna aðildar Íslands að EES samningnum. Í ávarpinu rakti ráðherra helstu breytingar og fór jafnframt yfir þær sértæku aðgerðir sem ráðist hefur verið í hér á landi. Í því samhengi nefndi hann að þrátt fyrir að ekki sé verið að afnema sérstaka skatta á fjármálafyrirtæki eins hratt og áður var að stefnt, þá hefur þó verið dregin lína í sandinn og stefnt að afnámi þeirra.

Þá sagðist hann vera sammála því að ekki eigi að vera með sérstaklega íþyngjandi reglur á fjármálafyrirtæki enda lendi þær á endanum á almenningi í landinu og ekki væri hægt að komast að annarri niðurstöðu en að viðbótar skattlagning eins og tíðkist hér á landi hafi líka á endanum áhrif á vaxtakjörin.

Að loknum erindunum tóku við pallborðsumræður. Auk Ásgeirs og Bjarna tóku Ásta Þórarinsdóttir, stjórnarformaður FME, og Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, þátt í pallborðinu. Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, stjórnaði umræðunum.Umræðurnar snérust meðal annars um hvort að íþyngjandi regluverk muni á endanum skaða neytendur og fyrirtæki vegna áhrif þess á kostnað fjármálaþjónustu. Þá var rætt um eignarhald á fjármálafyrirtækjum og áform ríkisins í þeim efnum og einnig bar samkeppnisstaða fjárnálafyrirtækja við lífeyrissjóði á fasteignalánamarkaði svo fátt eitt sé nefnt.

Deila færslu