Skip to content

Fyrsta rafræna þinglýsing veðskuldabréfs

Fyrsta veðskuldabréfinu hefur verið þinglýst rafrænt á Íslandi. Bréfið sem þinglýst var með þessum hætti var veðskuldabréf vegna bifreiðakaupa. Nú geta fjármálastofnanir þinglýst veðskuldabréfum rafrænt ef um er að ræða bifreiðakaup eða ný fasteignalán með beinlínutengingu frá eigin kerfum og yfir í vefþjónustu rafrænna þinglýsinga. Fyrr á árinu fór fyrsta rafræna aflýsingin í gegn og hefur þeim fjölgað mikið á árinu. Í dag er rúmlega helmingur allra aflýsinga með rafrænum hætti. Rafrænar þinglýsingar munu einfalda störf allra sem koma að meðferð skjala, hafa jákvæð umhverfisáhrif og skapa mikið hagræði.

Undir merkjum verkefnisins Stafræn þjónusta sýslumanna hafa sýslumenn, dómsmálaráðuneytið, Þjóðskrá, Stafrænt Ísland og fleiri unnið að stafrænum lausnum á tímafrekum og algengum viðvikum almennings hjá sýslumönnum. Mikilvægt er að halda áfram að þróa löggjöfina að stafrænum lausnum. Mikill ávinningur verður af rafrænum þinglýsingum fyrir banka og viðskiptavini þeirra en fullur ávinningur næst ekki fyrr en unnt er að gefa út rafrænar skuldaviðurkenningar (rafræn skuldabréf). Til þess að fullt hagræði náist af rafrænum þinglýsingum leggja SFF áherslu á að stjórnvöld móti nýja löggöf um rafrænar skuldaviðurkenningar þannig að skuldaskjalið sjálft geti verið á rafrænu formi. Skuldaviðurkenningar á rafrænu formi geta aukið öryggi, skilvirkni og hagkvæmni í útlánastarfsemi og verið til þæginda og hagræðis fyrir neytendur og fyrirtæki.

Í janúar síðastliðinn stóðu Samtök fjármálafyrirtækja, Island.is, Dómsmálaráðuneytið, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Þjóðskrá Íslands, Sýslumenn og Fjártækniklasinn fyrir rafrænum fundi um rafrænar þinglýsingar. Efni af fundinum má nálgast hér.

Nánar á vef Stjórnarráðsins

Deila færslu