Skip to content

Peningaþvættisvarnir og skattaeftirlit

Íslensk fjármálafyrirtæki leggja mikla áherslu á öflugar varnir í sinni starfsemi gegn því að þau séu misnotuð í ólöglegum tilgangi

Peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka (AML)
Öflugar varnir gegn peningaþvætti eru mikilvægar í starfsemi allra fjármálafyrirtækja. Aðilarfélög SFF leggja metnað sinn í að uppfylla skyldur sínar sem finna má í lögum og regluverki um varnir gegn peningaþvætti sem gilda hér á landi sem og á innri markaði Evrópu. Fjármálafyrirtæki eru tilkynningaskyld og eru þau sú atvinnugrein sem hefur hvað öflugastar peningaþvættisvarnir og á því stærsta hlutdeild allra tilkynninga um grun um peningaþvætti sem sendar eru til lögreglu hér á landi. Þá er rétt að benda á að fjármálafyrirtæki gera jafnframt ríkar kröfur hvert til annars og eru varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka hluti allra viðskipta þeirra í milli þvert á landamæri. 

SFF hafa tekið saman upplýsingablöð þar sem áhrif laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka eru útlistuð. 

SFF eiga jafnframt fulltrúa í vinnuhópi evrópsku bankasamtakanna (EBF) um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. 

FATCA
Ísland er aðili að samningi við Bandaríkin um regluleg upplýsingaskipti vegna fjármálastofnana. Samningurinn er í samræmi við svokölluð FATCA lög (Foreign Account Tax Compliance Act) sem samþykkt voru í Bandaríkjunum á árinu 2010. Samkvæmt lögunum og samningnum ber íslenskum fjármálafyrirtækjum að standa árlega skil á upplýsingum um tekjur og eignir bandarískra skattaðila.  Upplýsingaskiptin fara fram með milligöngu ríkisskattstjóra.  Standi fjármálastofnanir ekki við upplýsingaskyldu sína eiga þær á hættu á að lagður verði 30% afdráttarskattur á greiðslur til þeirra sem eiga uppruna í Bandaríkjunum.

Common Reporting Standard (CRS)
CRS er samræmdur staðall um upplýsingaskipti á fjárhagsupplýsingum sem Ísland hefur verið aðili að frá 2016. Markmiðið með staðlinum er að koma í veg fyrir skattundanskot.  Íslensk fjármálafyrirtæki eru upplýsingaskyld samkvæmt staðlinum og þurfa að auðkenna og aðgreina reikningshafa og raunverulega eigendur sem skattskyldir eru í erlendum ríkjum fyrir utan Bandaríkin og afhenda þær upplýsingar Skattinum.