Við viljum vera viss

Peningaþvætti er ólöglegt. Til að koma í veg fyrir peningaþvætti þurfa fjármálafyrirtæki að treysta á samvinnu við viðskiptavini sína. Þetta er gert með reglulegum áreiðanleikakönnunum.
Í lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti eru kröfur lagðar á fjármálafyrirtæki til að koma í veg fyrir þetta alþjóðlega vandamál, sem er talið ein af undirstöðum skipulagðrar glæpastarfsemi. Þess vegna ber öllum fjármálafyrirtækjum skylda til að þekkja alla viðskiptavini sína. Til að framfylgja þessum kröfum framkvæma fjármálafyrirtæki áreiðanleikakönnun við upphaf viðskiptasambands og reglulega meðan á því stendur. Viðskiptavinir mega því alltaf búast við aðvera spurðir spurninga eða að kallað verði eftir gögnum.
Aukin áreiðanleikakönnun
Undir vissum kringumstæðum þarf að framkvæma aukna áreiðanleikakönnun. Þá er kallað eftir ítarlegri upplýsingum um einstakling, svo sem um uppruna fjármuna. Það er gert þegar:
- Einstaklingar eru staðsettir í áhættusömum eða ósamvinnuþýðum ríkjum skv. lista eftirlitsaðila.
- Áhættumat gefur til kynna aukna áhættu.
- Einstaklingar eru í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla.
Áreiðanleikakönnun
Með áreiðanleikakönnun vilja fjármálafyrirtæki tryggja að upplýsingar um viðskiptavini séu ávallt réttar. Þannig stuðla þau að öryggi viðskiptavina sinna.
Með áreiðanleikakönnun er m.a. átt við að einstaklingur sanni á sér deili, athugað sé hvort hann lúti viðskiptabanni eða -hömlum, hvort hann hafi stjórnmálaleg tengsl eða tengist starfsemi eða háttsemi sem ekki samræmist áhættustefnu fjármálafyrirtækisins. Samræmist niðurstöður ekki áhættustefnu er heimilt að hafna eða slíta viðskiptasambandi.
Frekari upplýsingar
Viðskiptavinir geta leitað til viðkomandi fjármálafyrirtækis til að fá frekari útskýringar eða ef þeir telja erfiðleikum bundið að verða við beiðni um upplýsingar.