Skip to content

Tjónagrunnur vátryggingafélaga

Í ársbyrjun 2019 var svokallaður tjónagrunnur tekinn í notkun hér á landi en hann mun reynast áhrifaríkt tól í baráttunni gegn skipulögðum vátryggingasvikum

Vátryggingasvik
Umfang vátryggingasvika á Norðurlöndunum er talin vera allt að 10% allra tjóna.  Með vátryggingasvikum er átt við skipulagða brotastarfsemi en einnig t.d. þegar tjón er ýkt eða bætur eru sóttar til fleiri en eins tryggingafélags vegna sama tjóns. Sé miðað við umfang tryggingasvika á Norðurlöndunum má ætla að umfangið hér á landi hlaupi á nokkrum milljörðum króna. 

Ekki liggja fyrir upplýsingar um nákvæmt umfang þessara svika hér landi og leggja SFF mikla áherslu á að bæta úr því ásamt því að leita leiða til að draga úr vátryggingasvikum. Er það ekki einungis mikilvægt fyrir vátryggingafélögin heldur hafa neytendur hagsmuni af því að dregið verði úr umfangi slíkra svika. 

Tjónagrunnur
Heimildir vátryggingafélaganna til að rannsaka og koma upp um vátryggingasvik eru takmarkaðar. Af þeim sökum var settur á stofn tjónagrunnur, að norrænni fyrirmynd. Grunnurinn er mikilvægt verkfæri til að greina óvenjulegar tjónstilkynningar s.s. hvort sama tjón hafi fengist greitt út hjá fleiru en einu tryggingafélagi, en slíkt flokkast sem fjársvik ef ekki er um réttmætar ástæður að ræða. Í grunninn eru skráð þau tjón sem tilkynnt eru til tryggingafélaganna að undanskildum tjónum sem falla undir líf- og sjúkdómatryggingar. 

Samtök fjármálafyrirtækja eru rekstraraðili tjónagrunnsins en Creditinfo er vinnsluaðili hans. Þær upplýsingar sem eru skráðar í grunninn eru kennitala tjónþola, númer máls, tegund tryggingar, tegund tjóns, dagsetning tjóns, dagsetning skráningar í grunninn, nafn viðkomandi vátryggingarfélags, staðsetning tjóns og númer hins tryggða, svo sem ef um er að ræða ökutæki. Vel er hugað að réttindi aðila sem skráðir eru í grunninn og getur aðilar fengið aðgang að yfirliti yfir uppflettingar um sig í grunninum í gegnum þjónustuvef Creditinfo. Hægt er að gera athugasemdir við uppflettingar, krefjast leiðréttingar á upplýsingum séu þær ekki réttar eða jafnvel farið fram á að upplýsingum sé eytt ef málefnalegar ástæður liggja að baki.