Skip to content

Hver er tilgangur tjónagrunns?
Markmiðið með tjónagrunninum er að berjast gegn skipulögðum vátryggingasvikum hér á landi. Slík svik eru í auknum mæli stunduð með skipulögðum hætti. Sé miðað við áætlaða tíðni tryggingasvika í nágrannalöndum má gera ráð fyrir að svik hér á landi geti numið allt að nokkrum milljörðum króna á ári en erfitt er að fullyrða nákvæmlega um umfangið. Svik sem þessi leiða þó ótvírætt til hárra og óréttmætra útgjalda tryggingafélaga og ber almenningur þannig óbeint skaðann af tryggingasvikum. Vátryggingafélög og viðskiptavinir þeirra hafa því mikla hagsmuni af því að virkt eftirlit sé haft með réttmæti bótagreiðslna.

Vátryggingasvik eru alvarlegt vandamál og í leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins er gert ráð fyrir að vátryggingafélög setji sér verklag til að koma í veg fyrir slík svik. Reynslan af Norðulöndunum sýnir að tjónagrunnar séu eitt af mikilvægustu tækjunum í baráttu við vátryggingasvik en samskonar tjónagrunnur er í notkun í Noregi og Svíþjóð.

Hvaða tryggingafélög eiga aðild að tjónagrunninum?
Sjóvá-Almennar tryggingar, Tryggingamiðstöðin, Vátryggingafélag Íslands og Vörður tryggingar.

Er þetta leyfilegt samkvæmt persónuverndarlögum?
Tjónagrunnurinn er rekinn samkvæmt heimild Persónuverndar. Samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga má vinna með persónuupplýsingar sé það nauðsynlegt til að gæta lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi fólks, sem ber að vernda samkvæmt lögum, vegi þyngra. Að mati Persónuverndar er ljóst að þeir hagsmunir, sem tjónagrunninum er ætlað að þjóna, séu lögmætir.

Upplýsingum um hina skráðu í tjónagrunninum verður haldið í lágmarki. Óheimilt verður að skrá viðkvæmar upplýsingar í tjónagrunninn, s.s. um einstök heilsufarsleg atriði í tengslum við líkamstjón. Upplýsingum verður kerfisbundið eytt úr tjónagrunninum þegar þeirra gerist ekki lengur þörf, í síðasta lagi þegar 10 ár eru liðin frá skráningu upplýsinganna.

Réttindi þeirra sem skráðir eru í grunninn verða vel tryggð, meðal annars með því að veita fólki aðgang að yfirliti yfir uppflettingar um sig í grunninum í gegnum þjónustuvef Creditinfo. Hægt er að gera athugasemdir við uppflettingar, krefjast leiðréttingar á upplýsingum séu þær ekki réttar eða jafnvel eyðingar upplýsinganna ef málefnalegar ástæður liggja að baki.

Hinum skráða verður ávallt tilkynnt um skráningar og uppflettingar og þær verða sýnilegar á þar til gerðum yfirlitum sem sem hinn skráði getur nálgast á sérstöku, öruggu vefsvæði, fengið afhent á skrifstofu Creditinfo eða fengið sent í bréfpósti á lögheimili sitt.

Hverjir geta skoðað upplýsingarnar í tjónagrunninum?
Mjög strangar reglur gilda um grunninn. Allar uppflettingar verða skráðar og rekjanlegar. Tryggt er að einungis þeir starfsmenn sem skrá tjón og vinna að tjónauppgjöri muni hafa aðgang að honum þegar tjón eru skráð í grunninn, þegar afgreiðslu máls er lokið og komið að því að greiða út bætur og þegar uppfletting er nauðsynleg vegna lögmætra hagsmuna við vinnslu málsins. Þarna geta sérfræðingar sem eru að vinna við úrlausn tjóna fengið aðgang að  einföldum upplýsingum, s.s.  bílnúmerum, dagsetningum tjónatilkynninga, tegund tryggingar og tegund tjóns þegar kennitölu tjónþola er flett upp.

Hvernig tengjast Samtök fjármálafyrirtækja tjónagrunninum?
Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) koma fram fyrir hönd tryggingafélaganna sem sameiginlegur fulltrúi þeirra í tengslum við og vinnslu upplýsinganna og rekstur grunnsins. SFF eru samningsaðili við vinnsluaðila grunnsins sem er Creditinfo. Þá hafa SFF séð um samskipti við Persónuvernd fyrir hönd félaganna.

Hvaða upplýsingar verður að finna í tjónagrunninum?
Í grunninn verða skráð tjón sem tilkynnt eru til tryggingafélaganna sem taka þátt í verkefninu, að undanskildum tjónum sem falla undir líf- og sjúkdómatryggingar.

Upplýsingum um hina skráðu í tjónagrunninum verður haldið í lágmarki. Í grunninum verður að finna kennitölu tjónþola, númer máls hjá viðkomandi ábyrgðaraðila, tegund tryggingar, tegund tjóns, dagsetningu tjóns, dagsetningu skráningar í grunninn, nafn viðkomandi vátryggingarfélags, staðsetningu tjóns og númer hins tryggða, svo sem ef um er að ræða ökutæki.

Óheimilt er að skrá frekari upplýsingar í tjónagrunn, s.s. um einstök heilsufarsleg atriði í tengslum við líkamstjón.

Hvað ef rangar upplýsingar rata í tjónagrunninn?
Hægt er að gera athugasemdir við uppflettingar, krefjast leiðréttingar á upplýsingum séu þær ekki réttar eða jafnvel eyðingar upplýsinganna ef málefnalegar ástæður liggja að baki.

Hvað verða upplýsingar lengi í tjónagrunninum?
Upplýsingum verður eytt úr tjónagrunni þegar þeirra gerist ekki lengur þörf í þágu tilgangs vinnslunnar, í síðasta lagi þegar 10 ár eru liðin frá skráningu upplýsinganna. Farið verður yfir grunninn a.m.k. einu sinni á ári í því skyni að eyða upplýsingum úr honum.

Hvernig verða upplýsingarnar aðgengilegar tryggingafélögunum?
Félögin fá aðgang að upplýsingunum í tjónagrunninum í gegnum þar til gerðan þjónustuvef sem rekinn er af Creditinfo. Öll gögn eru vistuð hjá Creditinfo en ekki tryggingarfélögunum.

Getur hvaða starfsmaður tryggingafélags sem er flett upp fólki í tjónagrunninum?
Með sérstakri aðgangsstýringu verður tryggt að eingöngu þeir starfsmenn tryggingafélaganna sem starfa að tjónauppgjöri hafi aðgang að grunninum. Í hvert skipti sem starfsmennirnir fletta upp upplýsingum í grunninum þurfa þeir að gefa upp tilefni uppflettingarinnar. Hægt verður að rekja allar aðgerðir í grunninum til einstakra starfsmanna félaganna.

Hvað ef starfsmaður verður uppvís að misnotkun upplýsinga úr tjónagrunninum?
Kveðið er á um í samningi á milli SFF, fyrir hönd tryggingafélaganna, og Creditinfo til hvaða viðurlaga verður gripið. Sé brotið metið léttvægt verður lokað á aðgang starfsmannsins en teljist það alvarlegt kann samningi um aðgang vátryggingafélagsins í heild sinni að tjónagrunninum að vera rift.

Hvernig veit fólk hvað verður skráð um það í grunninn?
Vátryggingatakar verða upplýstir í vátryggingaskilmálum um vinnslu persónuupplýsinga í tjónagrunni, þ.e. hverjir bera ábyrgð á vinnslunni, hver tilgangur hennar er, hvaða upplýsingar eru færðar í grunninn, hverjir hafa aðgang að þeim og hversu lengi upplýsingarnar verða varðveittar.

Sjá tryggingafélögin um að reka tjónagrunninn?
SFF bera ábyrgð á rekstri grunnsins en Creditinfo rekur grunninn og vinnur með upplýsingarnar samkvæmt leyfi frá Persónuvernd. Öll gögn eru vistuð hjá Creditinfo en ekki tryggingarfélögunum. Grunnurinn verður aðskilinn frá öðrum rekstri Creditinfo og er fyrirtækinu óheimilt að nýta sér upplýsingar úr honum í öðrum tilgangi en að stemma stigu við tryggingasvikum.

Hvernig er öryggi upplýsinganna tryggt?
Tryggingafélögin munu gera viðeigandi öryggisráðstafanir í samræmi við reglur um öryggi persónuupplýsinga og niðurstöður áhættumats. Félögin munu halda skrár yfir áhættumat og öryggisráðstafanir sem fram hafa farið og hefur Persónuvernd aðgang að þeim.

Er þessum upplýsingum miðlað í aðra grunna?
Nei, upplýsingarnar eru eingöngu geymdar í tjónagrunninum og verður þeim eytt úr honum þegar þeirra er ekki lengur þörf, í síðasta lagi innan tíu ára.

Hvernig er farið með upplýsingarnar innan tryggingafélaganna eftir að þær hafa verið sóttar í tjónagrunninn?
Upplýsingarnar eru eitt af mörgu sem skoðað er þegar ákvörðun er tekin um hvort ástæða sé til að kanna réttmæti ákveðins tjóns nánar. Til dæmis með því að sjá hvort sama tjón hafi verið tilkynnt til annars tryggingafélags. Einungis grunnupplýsingar koma fram í grunninum, s.s. kennitala, tegund tryggingar, tegund og dagsetning tjóns og nafn viðkomandi vátryggingafélags. Óheimilt er að skrá einstök heilsufarsleg atriði í tengslum við líkamstjón. Samkvæmt lögum er tryggingafélögunum óheimilt að nota upplýsingarnar úr tjónagrunninum frekar í öðrum tilgangi. Komi í ljós að upplýsingar úr grunninum séu misnotaðar á viðkomandi starfsmaður eða tryggingafélagið í heild sinni á hættu að lokað verði fyrir aðgang að grunninum.

Geta tryggingafélög flett fólki upp í grunninum þegar fólk íhugar að koma með viðskipti sín yfir til þeirra?
Nei, það er óheimilt að nota grunninn í markaðslegum tilgangi. Aðeins starfsfólk á tjónasviði tryggingarfélaganna hefur aðgang að grunninum og er því aðeins heimilt að fletta fólki upp í tengslum við tilkynningar á tjóni