Verkefni í gangi
Yfirlit yfir nokkur tímabundin verkefni á borði SFF er lúta að innleiðingu ESB-gerða, vinnu að löggjöf og regluverki sem og öðru því er varðar fjármála- og vátryggingastarfsemi

Nefnd um innleiðingu á MIFID II og MiFIR
SFF á fulltrúa í nefnd sem vinnur að drögum að frumvarpi og reglugerðum til innleiðingar á nýrri tilskipun Evrópusambandsins um markaði fyrir fjármálagerninga (2014/65/ESB) ásamt meðfylgjandi reglugerðum, sér í lagi reglugerð um markaði fyrir fjármálagerninga (600/2014/ESB).
Nefnd um greiðsluþjónustu á innri markaðnum – PSD2
SFF á fulltrúa í nefnd sem vinnur að drögum að frumvarpi til innleiðingar á tilskipun Evrópusambandsins um greiðsluþjónustu á innri markaðnum, betur þekkt sem PSD2 (Payment Services Directive).
Hátternisreglur á sviði persónuverndar – GDPR
Á vettvangi SFF stendur nú yfir vinna við gerð hátternisreglna á sviði persónuverndar fyrir fjármálafyrirtæki annars vegar og vátryggingafélög hins vegar. Hvatt er til þess að fyrirtækjahópar í sambærilegri starfsemi setji sér hátternisreglur í 40 gr. reglugerðar ESB um persónuvernd (GDPR). Þá er kveðið á um samþykki Persónuverndar á slíkum reglum í 9.tl. 4.mgr. 39.gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Nefnd um breytingar á lögum um verðbréfasjóði – UCITS V og Omnibus I
SFF á fulltrúa í nefnd sem vinnur að breytingum á lögum nr. 128/2011 um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði.
Nefnd um innleiðingu BRRD – skilameðferð fjármálafyrirtækis
SFF hefur átt fulltrúa í nefnd um innleiðingu BRRD. Um er að ræða löggjöf um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Innleiðing á tilskipun 2014/59/EU sem tók gildi í ESB í ársbyrjun 2015. Tilskipunin var tekin upp í EES rétt á árinu 2019. Hluti tilskipunarinnar var innleiddur með breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki árið 2018, lög nr. 54/2018. Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til innleiðingar á meginefni tilskipunarinnar, mál 361, 150 löggjafarþing 2019 – 2020. Frumvarpið var unnið að nefnd á vegum fjármálaráðuneytis.
Nefnd um innleiðingu DGS – Innstæðutryggingar
SFF á fulltrúa í nefnd um innleiðingu nýrrar tilskipunar ESB um innstæðutryggingar. Nýja tilskipunin tók gildi í ESB í ársbyrjun 2015. Meginatriði hennar eru:
- Skýrar er kveðið á um hvaða innstæður skulu njóta tryggingarverndar
- Lögfest hámark á bótagreiðslum við 100.000 evrur
- Aðildarríkjum er gert skylt að byggja upp tryggingasjóði að tilteknu lágmarki.
Tilskipunin var tekin upp í EES rétt árinu 2019. Þrátt fyrir að efnisatriði tilskipunarinnar hafi ekki verið innleidd að fullu eða ný heildstæð lög samþykkt hafa verið gerðar ýmsar breytingar á núverandi löggjöf um innstæðutryggingar og tryggingarkerfi fyrir fjárfesta til samræmis við hina nýju tilskipun. Þannig var ákvæðum gildandi laga um hvaða innstæður eru tryggðar og með hvaða hætti iðgjöld eru greidd til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta breytt á árinu 2011. Með frumvarpi sem liggur fyrir Alþingi um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, mál 361, er áformað að breyta hámarki bótagreiðslna.
Sérfræðingahópur SFF um innleiðingu Evrópugerða um sjálfbæra fjármögnun
SFF hefur sett á fót hóp sérfræðinga úr aðildarfélögunum með það hlutverk að skoða helstu þætti er snúa að innleiðingu flokkunarreglugerðar ESB (Taxonomy – 2020/852) og reglugerðar ESB um upplýsingagjöf tengda sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu(SFDR – 2019/2088) sem innleiddar verða í lög hér á landi 1. Janúar 2023, þá sér í lagi áhrif þeirra á fjármálafyrirtæki.
Hlutverk SFF í þessu samhengi er að vera sameiginlegur vettvangur aðildarfélaganna fyrir upplýsingar um gang mála á innleiðingu flokkunarreglugerðarinnar t.d. með reglulegum upplýsingafundum sérfræðingahópsins með fjármálaráðuneytinu, með norrænum kollegum, og á vettvangi EBF. Þessu tengt á sér stað samtal við Seðlabankann sem eftirlitsaðila.