Skip to content

Katrín kveður SFF

Katrín Júlíusdóttir hefur sagt starfi sínu, sem framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, lausu eftir tæplega sex ára starf fyrir samtökin. Hún upplýsti stjórn samtakanna um þetta fyrr í mánuðinum og tekur uppsögn hennar gildi þann 1.september n.k. Katrín mun starfa áfram þar til ráðning nýs framkvæmdastjóra liggur fyrir. Stjórn SFF mun auglýsa starfið fljótlega.

Katrín Júlíusdóttir:
,,Árin mín hjá samtökunum hafa verið ótrúlega gefandi, krefjandi og skemmtileg. Er það ekki síst vegna þess að í fjármála- og vátryggingageiranum starfar mikið af góðu fólki sem ég hef átt afar gott samstarf við. Eru mér þar minnistæðust snör viðbrögð þeirra þegar heimsfaraldurinn skall á. Viljanum til að ganga eins langt og framast var unnt, til að verja heimili og störf, í miðri óvissunni, gleymi ég seint. Fjármálafyrirtæki gegna vaxandi og mikilvægu hlutverki í okkar samfélagi og það skiptir okkur öll máli að þau hafi styrk til að styðja við fólk og fyrirtæki við ólíkar aðstæður. Ég kveð samtökin með söknuði og þakklæti en einnig tilhlökkun yfir því sem fram undan er.“

Lilja Björk Einarsdóttir, stjórnarformaður SFF:
„Stjórn Samtaka fjármálafyrirtækja þakkar Katrínu kærlega fyrir vel unnin störf og við óskum henni velfarnaðar. Það eru 25 aðildarfélög innan samtakanna og Katrín hefur haldið vel utan um starfsemina undanfarin ár og jafnframt átt gott samstarf við ýmsa hagsmunaaðila og stjórnvöld.“

Deila færslu