Skip to content

Kennsla í fjármálæsi nái til allra barna

Rætt var við Heiðrúnu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja, um mikilvægi kennslu í fjármálalæsi í Morgunblaðinu í vikunni.

„Þekking á fjármálum er mikilvæg undirstaða þegar ungt fólk fer út í lífið og til þátttöku í samfélagi sem verður sífellt flóknara. Öll viljum við að börnum séu sköpuð jöfn tækifæri í grunnskólum, sem í starfi sínu þurfa að taka mið af veruleika og þörfum samtímans með starfsháttum sínum og kennsluefni,“ segir Heiðrún í viðtalinu.

Í umfjöllun Morgunblaðsins er bent á könnun sem Maskína gerði fyrir SFF árið 2021 meðal fólks á aldrinum 18-30 ára þar sem 90% aðspurðra sögðust hefðu viljað fá meiri kennslu í fjármálalæsi á grunnskólaárum sínum. Þó virðist misjafnt hve hve ítarleg fræðsla á þessu sviði býðst nemendum. Fjármálæsi sé sum staðar hluti af stærðfræði, stundum í samfélagsfræði og einhverjum tilvikum sem valgrein, en þó eru dæmi þar um að færri nemendur hafi komist að en vilja.

Frá árinu 2015 hefur SFF haldið úti fræðsluvettvanginum Fjármálaviti sem einnig er styrkt af Landssamtökum lífeyrissjóða (LL). Þar hefur kennurum verið boðið upp á kennslubækur, námsefni og námskeið til að efla þá við kennslu á fjármálæsi. „Við eigum frábært samstarf við þau sem þess óska. Við höfum aftur á móti áhyggjur af nemendum í skólum þar sem þessi mikilvæga fræðsla er ekki á dagskrá,“ segir Heiðrún í viðtalinu.

Með því að fjármálafræðsla sé ekki í skyldunámi grunnskólans er hugsanlegt, segir Heiðrún við Morgunblaðið, að úr greipum gangi gullið tækifæri til að jafna tækifæri allra barna. Til þess að hamra á mikilvægi málsins hafi fulltrúar SFF og LL meðal annars fundað með Menntamálastofnun og Ásmundi Einari Daðasyni menntamálaráðherra í tengslum við vinnu sem nú stendur yfir við endurskoðun á aðalnámskrá grunnskólanna.

Lesa má viðtalið við Heiðrúnu í heild sinni hér.

Deila færslu