Kristján Oddur Kristjánsson og Dagur Thors nemendur í Austurbæjarskóla náðu góðum árangri sem fulltrúar Íslands í Evrópukeppninni í fjármálalæsi í Brussel sem haldin var á vegum Evrópsku bankasamtakanna (EBF) í síðustu viku. Strákarnir höfnuðu í öðru sæti af Norðurlöndunum á eftir Finnlandi og 14. sæti í allri keppninni.
Kristján og Dagur voru í skemmtilegu viðtali í Morgunblaðinu í gær um keppnina. „Þetta var alveg geggjuð ferð,“ segir Dagur við Morgunblaðið. „Við vorum tveir saman í liði og kepptum á móti öllum Evrópuþjóðunum í svona „kahoot“-spurningakeppni. Við kynntumst fullt af krökkum og hittumst, borðuðum góðan mat, gistum á hóteli og fórum og skoðuðum borgina. Þetta var rosalega skemmtilegt,“ bætti Dagur við og bendir á mikilvægi fjármálalæsis fyrir alla.
„Það er mikilvægt að vera fjármálalæs upp á framtíðina þegar þú ferð að reka heimili, fjölskyldu, hús og jafnvel stofna fyrirtæki,“ segir Dagur í Morgunblaðinu.
Til Brussel voru samankomnir fulltrúar 28 Evrópulanda sem unnið höfðu undankeppnir í sínu heimalandi þar sem yfir 45.000 nemendur á aldrinum 13-15 ára tóku þátt og þar af 1.500 nemendur í 10. bekk í 42 skólum hér á landi þar sem Austurbæjarskóli sigraði.
Sigrún Lilja Jónasdóttir, kennari drengjanna í Austurbæjarskóla, segist vera stolt af sínum strákunum. „Krökkunum finnst þetta mjög skemmtilegt. Þetta er gott fyrir okkur kennara að fá svona tækifæri til að vinna öðruvísi með börnum. Ég tek til dæmis alltaf fjármálafræðslu tvisvar á vetri, kenni hana í sex vikur í 10. bekk,“ segir Sigrún Lilja í viðtalinu. Hún bendir á að það sé mikilvægt að ungt fólk skilji fyrstu launaseðlana sína og hvernig hægt sé að byggja upp sparnað á einfaldan máta.
Samtök fjármálafyrirtækja standa að undankeppninni hér á landi með Fjármálaleikunum í gegnum Fjármálavit sem er fræðsluvettvangur um fjármálalæsi. Kristín Lúðvíksdóttir, verkefnisstjóri Fjármálavits, bendir á að markmiðið með keppninni sé að vekja athygli á mikilvægi fjármálalæsis fyrir ungt fólk og vonast til að það stuðli að því að námskrá grunnskóla endurspegli það mikilvægi. Kristín segir að Kristján og Dagur hafi verið sérstaklega glæsilegir fulltrúar Íslands í keppninni í Brussel.