Skip to content

MIKIL VERÐMÆTI Í SAMSTARFI UM REKSTUR INNVIÐA

Aðgreining á milli reksturs innviða og sölu á þjónustu gæti verið forsenda aukinnar hagræðingar í íslensku hagkerfi. Þetta kom fram í ávarpi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs sem fram fór 12. febrúar. „Ein leið til aukinnar hagræðingar, án þess að fórna samkeppni, gæti falist í því að greina skýrar á milli innviða og þjónustu; heimila keppinautum samstarf við rekstur dýrra innviða sem hafa takmörkuð áhrif á val neytenda og njóta stærðarhagkvæmninnar en slaka í engu á kröfum um samkeppni í þjónustu þar sem stærðarhagkvæmni er lítil. Með þessu væri hægt að skapa verðmæti,“ sagði Sigmundur í ávarpinu. Þessar hugmyndir falla vel að áherslum Samtaka fjármálafyrirtækja um að skoða verði möguleikann á því að heimila samstarf um rekstur sameiginlegra innviða á fjármálamarkaði til þess að auka hagræði og efla þar með samkeppni um veitingu fjármálaþjónustu.

Í fyrra fengu SFF ráðgjafarfyrirtækið Oliver Wyman til þess að gera úttekt á því hvernig staðið er að sameiginlegum rekstri grunnkerfa fjármálamarkaða í nágrannalöndunum og hvaða  tækifæri séu til hagræðingar í þeim efnum á Íslandi. Niðurstaða úttektarinnar sýna fram á að hægt er að ná umtalsverði hagræðingu með samstarfi um rekstri slíkra grunnkerfa hér á landi.

Í úttektinni er tekið dæmi um að minni bankar í Danmörku og Svíþjóð hafi heimild til samstarfs á þessu sviði og hefur það leitt til lægri kostnaðar og eflt samkeppnisstöðu þeirra gagnvart alþjóðlegum bönkum. Þá er bent á að í Svíþjóð eiga stærstu bankarnir sameiginlegt hraðbankakerfi – Bankomat – og rauntímagreiðslukerfi – Swish – sem aðrir bankar hafa greiðan aðgang að. Samkvæmt Oliver Wyman þá hefur samstarfið um hraðbankanetsins minnkað kostaðinn við rekstur þess um fjórðung.  Þá eiga norsk tryggingafélög í samstarfi um rekstur sameiginlegs tjónagagnagrunns. Samstarfið hefur skilað miklum árangri í að koma í veg fyrir vátryggingasvik sem svo hefur leitt til lægri iðgjalda. Samkvæmt Oliver Wyman hefur þetta leitt til sparnaðar sem nemur um 3-5% af heildariðgjöldum norskra vátryggingafélaga. Mikilvægt er að stjórnvöld og fjármálafyrirtæki vinni saman að þessum málum áfram á þeim grunni sem er að finna í skýrslu Oliver Wyman.

Viðskiptaþing fjallaði meðal annars um stöðu þjónustugeirans í hagkerfinu en eins og fram kemur í riti Viðskiptaráðs, Leiðin á heimsleikana, er hann sá sem veikast stendur gagnvart grannríkjunum þegar kemur að framleiðni.

Deila færslu