Skip to content

NEYTENDAMÁLIN Í BRENNIDEPLI Á SFF-DEGINUM

Hátt í 200 manns sóttu SFF -daginn sem fram fór í Arion banka miðvikudaginn 23. nóvember. Dagurinn var helgaður þeim miklu breytingum sem hafa orðið á neytendavernd á fjármálamarkaði á undanförnum árum.

Jóna Björk Guðnadóttir, lögfræðingur SFF, gerði í erindi sínu grein fyrir öllum þeim viðamiklu breytingum sem hafa verið gerðar á laga- og regluverki neytendamála á fjármálamarkaði. Meðal þess sem kom fram í erindi Jónu Bjarkar var að staða viðskiptavina gagnvart fjármálafyrirtækjum hafi styrkst mikið en að sama skapi þurfi fjármálafyrirtæki að kalla eftir mun meiri upplýsingum frá viðskiptavinum sínum en áður og ferlið að því leyti þyngst.

Inn í erindi Jónu Bjarkar voru fléttuð viðtöl við fólk sem starfar í framlínunni í fjármálafyrirtækjum. Þau voru spurð um sína upplifun af breytingum sem er ætlað að styrkja stöðu neytenda á fjármálamarkaði. Rauði þráðurinn í þeirra svörum var að almennt séu viðskiptavinir ánægðir með viðleitni til þess að auka neytendavernd en undri sig oft á því mikla pappírsflóði sem því fylgir. Horfa má að viðtölin hér.

MÁLUM TIL ÚRSKURÐANEFNDA FÆKKAR Á NÝ

Haukur Guðmundsson, formaður úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki, fjallaði um áhrif fjármálakreppunnar á starfsvið nefndarinnar og hvað hefur breyst frá þeim tíma. Meðal þess sem kom fram í erindi hans var að þeim málum sem komu á borð nefndarinnar fjölgaði mikið í kjölfar fjármálakreppunnar. Ástæðan fyrir því var að sögn Hauks fyrst og fremst fjölgun vanskilamála og skortur á skýrum verkferlum í einstaka  fjármálastofnunum og útibúum á framkvæmd þeirra reglna sem fjármálafyrirtækin höfðu undirgengist, sérstaklega um greiðslumat vegna ábyrgðaskuldbindinga. Af þessu stafaði mikill fjöldi mála þar sem vafi lék á um að reglunum hefði verið fylgt og um þýðingu þess fyrir réttarstöðu viðsemjenda fjármálafyrirtækja. Einnig benti Haukur á að lagaákvæði um úrskurðarnefndina væru óljós og útfæra þyrfti breytingar á samþykktum hennar.

Haukur lauk svo máli sínu með því að fara yfir hversu málum nefndarinnar hefur fækkað á ný á undanförnum árum og að gjörbreyting hafi orðið á viðbrögðum fjármálafyrirtækja við úrskurðum nefndarinnar síðastliðin ár. Í dag una þau fjármálafyrirtæki sem tapa málum fyrir nefndinni, úrskurðinum í langflestum tilvika.

Að loknu máli Hauks tók Þóra Hallgrímsdóttir, formaður úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, við keflinu. Þóra sagði að fjöldi mála sem er skotið til nefndarinnar hafi aukist mikið frá því að hún tók til starfa.  Þannig hafi meðalfjöldi mála á ári verið 264 á árunum 1995-2007 en aukist í 421 mál á árunum 2008-2015. Ein af ástæðunum er að árið 2006 var starfsvið nefndarinnar víkkað út en áður höfðu árekstrarmál verið helsta viðfangsefni hennar.

VINNA SÉR INN TRAUST MEÐ VERKUM SÍNUM

Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna, ávarpaði fundinn. Hann sagði að fjármálafyrirtæki ættu enn fyrir höndum mikið verk þegar kemur að því að endurbyggja traust og að það komi ekki af sjálfu sér: Fjármálafyrirtæki verði að vinna sér inn þetta traust og það geri þau með verkum sínum. Í ræðu sinni sagði Ólafur að þrátt fyrir að ýmislegt hafi breyst til hins betra í tengslum við lántöku á undanförnum þá sé enn víða pottur brotinn.  Hann nefndi í því sambandi að lántökugjöld eigi að endurspegla raunkostnað við lántöku og að uppgreiðslugjöld eigi ekki að koma til. Einnig nefndi Ólafur að það væri sjálfsagður réttur neytenda að hafa aðgang að samanburðarvefsjá.

Deila færslu