MMR hefur gert könnun um viðhorf til vátryggingasvika fyrir Samtök fjármálafyrirtækja. Er könnunin byggð á sambærilegum könnunum sem framkvæmdar voru fyrir samtökin á árunum 2009 – 2011. Spurt var um viðhorf til ýmissa flokka fjársvika og var fjöldi svarenda 915.
Þó svarendur líti fjársvik almennt alvarlegum augum þá er mælanlegur munur á viðhorfum til vátryggingasvika samanborið við skattsvik, greiðslukortasvik, peningaþvætti, fjárdrátt og almannatryggingasvik.
Þannig eru ívið fleiri sem telja vátryggingasvik ekki eins alvarleg og önnur fjársvik.
Fleiri svarendur eru líklegir til að tilkynna um vátryggingasvik í dag en fyrir áratug síðan ef hægt væri að gera það nafnlaust. Þá er áhugavert að yngstu aldurshóparnir telja alvarleika vátryggingasvika minni en eldri hópum en eru á sama tíma viljugri til að tilkynna um svik.
Erlendar rannsóknir sýna að á bilinu 5-15% útgreiddra tjónabóta megi rekja til vátryggingasvika. Ljóst er að umfang vátryggingasvika hér á landi er vanrannsakað en ef miðað er við hin erlendu hlutföll þá næmu svikin hér á landi 3 – 7 milljörðum árlega. Vátryggingafélögin hafa á síðustu árum verið að efla varnir gegn svikum og þétt samstarfið við lögreglu í þeim tilgangi.