Skip to content

ÓJÖFN SAMKEPPNISSKILYRÐI BITNA Á NEYTENDUM

Ósanngjörn samkeppnisstaða á fjármálamarkaði  bitnar  á neytendum. Þetta kom fram í ræðu Birnu Einarsdóttir, formanns stjórnar Samtaka fjármálafyrirtækja, á SFF-deginum í dag. Birna vísaði til þess að einungis hluti lánveitenda á Íslandi greiða svokallaðann bankaskatt meðan að aðrir gera það ekki. Bankaskatturinn er dreginn af skuldum fjármálafyrirtækja og getur því haft áhrif á þau lánakjör sem hægt er að bjóða neytendum og fyrirtækjum.

Fram kom í ræðu Birnu að ein af megináherslum samtakanna sé að vinna að jöfnum skilyrðum fyrir öll fjármálafyrirtæki sem keppa á sama markaði, án tillits til stærðar og eignarhalds.

Eins og fram kemur í ársriti SFF, sem einnig kom út í dag, þá munu aðildarfélög SFF greiða tæpa níu milljarða í bankaskatt á þessu ári. Hefur skatturinn nífaldast frá því að hann var fyrst lagður á árið 2010.

Alls greiddu aðildarfélög SFF meira en 38 milljarða í skatta og gjöld í fyrra. Þar af námu ótekjutengd gjöld ríflega 19 milljörðum króna. Þetta er á bilinu fjórðungur til fimmtungur af heildarvaxtamun bankakefisins. Eins og fram kom í ræðu Birnu þekkist slík skattlagning ekki í Evrópu og sagði hún hana vera til þess fallna að grafa verulega undan samkeppnishæfni íslenska fjármálageirans. Þannig eru sérstakir skattar á íslensk fjármálafyrirtæki tíu sinnum hærri sem hlutfall af landsframleiðslu en í þeim fáu Evrópulöndum sem hafa á annað borð tekið upp slíka skatta.

Deila færslu