Dagarnir 27. mars til 2. apríl eru helgaðir fjármálalæsi ungs fólks um heim allan. Þá standa bæði yfir Evrópska peningavikan og Alþjóðalega fjármálalæsisvikan. Af þessu tilefni munu Samtök fjármálafyrirtækja og Stofnun um fjármálalæsi standa fyrir ráðstefnu um fjármálalæsi ungs fólks.
Á ráðstefnunni munu kennarar og stofnanir sem vinna að eflingu fjármálafræðslu ungmenna leiða saman hesta sína og fjalla um stöðu mála. Ráðstefnan fer fram í Háskólabíó þann 29. mars og hefst klukkan 8:30. Dagskrána má nálgast hér en skráning fer fram í hér.
Evrópsku bankasamtökin, sem Samtök fjármálafyrirtækja eiga aðild að, standa að Evrópsku peningavikunni. Tilgangur hennar er að vekja athygli á þörfinni fyrir aukið fjármálalæsi hjá ungu fólki og skapa umræðu þar um. Markmiðið er jafnframt að virkja samtök fjármálafyrirtækja í Evrópu í því að láta gott af sér leiða í þessum efnum. Samtök fjármálafyrirtækja á Íslandi taka nú þátt í Evrópsku peningavikunni í þriðja sinn með kynningu á námsefninu Fjármálaviti.
Alþjóðleg fjármálalæsisvika á Íslandi er hluti af alþjóðlegri vitundarvakningu sem ætlað er að vekja athygli á mikilvægi fjármálalæsismenntunar, stuðla að viðhorfsbreytingu í fjármálum og vinna að eflingu fjármálalæsis og aðgengi ungmenna að öruggri og barnvænni fjármálaþjónustu um heim allan. Hreyfingin nýtur stuðnings margra framámanna og stofnana á heimsvísu, þar á meðal OECD og Sameinuðu þjóðanna.