Skip to content

Rafrænar þinglýsingar verða að veruleika á árinu

Samtök fjármálafyrirtækja, Island.is, Dómsmálaráðuneytið, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Þjóðskrá Íslands, Sýslumenn og Fjártækniklasinn stóðu í morgun fyrir rafrænum fundi um rafrænar þinglýsingar.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, ávarpaði fundinn og fluttu þau Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri Stafræns Íslands, Iða Brá Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Arion banka, og Friðrik Árni Friðriksson Hirst, framkvæmdastjóri Lagastofnunar Háskóla Íslands og ráðgjafi stýrihóps um rafrænar þinglýsingar, áhugaverð erindi um málefnið.

Jóna Björk Guðnadóttir, yfirlögfræðingur SFF, stýrði fundinum og tók við spurningum frá áhorfendum og bar undir framsögumenn.

Á fundinum kom fram í máli Andra Heiðars Kristinssonar að rafrænar aflýsingar séu nú tilbúnar til notkunar en hátt í helmingur þinglýsingarskjala sem berast til sýslumanna eru vegna aflýsinga og munu rafrænar aflýsingar því stytta afgreiðslutíma allra þinglýsinga.

Markmið Stafræns Íslands er að Ísland verði komið í hóp fimm efstu þjóða í stafrænni þjónustu samkvæmt alþjóðlegum mælikvörðum innan fimm ára.

Í máli Iðu Brár Benediktsdóttur kom fram að mikill ávinningur verði af rafrænum þinglýsingum fyrir banka og viðskiptavini þeirra og að fullur ávinningur náist ekki fyrr en unnt er að gefa út rafræn skuldabréf. Eins kom fram í hennar máli að 99% snertinga viðskiptavina bankans er með stafrænum hætti og þessi breyting muni gera viðskiptavini bankanna enn hreyfanlegri og þannig ýta undir frekari samkeppni.

 

Hér má nálgast upptöku af fundinum í heild sinni.

Deila færslu