Skip to content

Sjóvá er umhverfisframtak ársins 2022

Sjóvá hlýtur verðlaunin umhverfisframtak ársins 2022 fyrir að huga vel að umhverfisáhrifum í starfsemi fyrirtækisins. Verðlaunin fær Sjóvá fyrir fjarskoðunarlausnina Innsýn og að vekja athygli viðskiptavina á umhverfislegum ávinningi sem fæst með framrúðuviðgerð í stað framrúðuskipta.

Í röksemd dómnefndar kemur fram að Sjóvá leiti stöðugt leiða til að minnka umhverfisáhrif af tjónavinnslu með hag viðskiptavina og samfélagsins alls að leiðarljósi. Innsýn og framrúðuplásturs-verkefnið endurspegli þessar áherslur vel og styðji við hringrásarhagkerfið.

Fjarskoðunarlausnin Innsýn gerir tjónamatsmönnum Sjóvá kleift að skoða tjón í gegnum síma viðskiptavinar, og sparar þannig umtalsverðan akstur. Ef miðað er við meðaltal sparnaðar síðustu mánuði má áætla að sparast hafi yfir 100.000 km í akstri frá því lausnin var tekin í notkun í ársbyrjun 2021. Þannig hafi verið komið í veg fyrir umtalsverða losun C02.

Útskipti framrúðu hefur í för með sér um 24.000 sinnum meiri losun en viðgerð á framrúðu

Framrúðuverkefni Sjóvá snýr að því að hvetja viðskiptavini og verkstæði til að láta gera við framrúður í stað þess að skipta þeim út, sé þess kostur. Sjóvá hefur í samstarfi við fagaðila reiknað út kolefnisspor framrúðuskipta í samanburði við viðgerð á framrúðu og var niðurstaðan sú að útskipti framrúðu hefur í för með sér um 24.000 sinnum meiri losun en viðgerð á framrúðu. Átak í að auka hlutfall framrúðuviðgerða hefur staðið yfir frá árinu 2020 og skilaði það samdrætti í áætlaðri losun sem nemur um 15 tonnum kolefnisígilda á árunum 2020 og 2021.

„Það skiptir Sjóvá miklu máli að leggja sitt að mörkum þegar kemur að umhverfismálum. Helstu tækifæri okkar á þessu sviði liggja eðli málsins samkvæmt í tjónavinnslu og forvörnum. Við viljum nýta þau tækifæri sem við höfum í nýsköpun og vöruþróun til að bæta þjónustu okkar við viðskiptavini um leið og við hugum að umhverfinu og hagsmunum samfélagsins alls.  Þetta fer nefnilega yfirleitt vel saman, líkt og framrúðuplástursverkefnið og fjarskoðunarlausnin Innsýn sýna.  Við lítum á þessa viðurkenningu sem hvatningu til að halda áfram af krafti á þessari braut og það ætlum við okkur sannarlega að gera.” segir Elín Þórunn Eiríksdóttir, framkvæmdastjóri tjónasviðs Sjóvá.

Í dómnefnd Umhverfisverðlauna atvinnulífsins sátu Gréta María Grétarsdóttir, formaður, Brynjólfur Bjarnason og Sandra Rán Ásgrímsdóttir.

Mynd: Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands veitir forsvarsfólki Sjóvá verðlaunin. F.v. Elín Þórunn Eiríksdóttir, framkvæmdastjóri tjónasviðs, Ólafur Þór Ólafsson, forstöðumaður eignatjóna, Hjalti Þór Guðmundsson, forstöðumaður ökutækjatjóna, Friðrik Helgi Árnason, hópstjóri eignatjóna og Pálín Dögg Helgadóttir, verkefnastjóri á skrifstofu forstjóra.

Deila færslu