Fjármálavit og Opni háskólinn í Háskólanum í Reykjavík hafa unnið saman að gerð stafrænna námskeiða um fjármálalæsi.
Námskeiðunum, sem eru fjögur talsins, er ætlað að veita grunnskilning á þeim fjárhagslegu ákvörðunum sem hver og einn getur þurft að taka í lífinu. Farið er yfir fjármál heimilisins frá mörgum sjónarhornum. Til dæmis eru persónuleg fjármál skoðuð út frá reglulegum tekjum og útgjöldum, fjallað er um sparnaðar -og fjárfestingaleiðir til lengri og skemmri tíma og hlutverk lífeyrissparnaðar, og skoðaðir eiginleikar lána.
Námskeiðunum er ætlað að leggja grunn að skilningi á fjármálum heimilis, lántökum og fjárfestingum fyrir alla almenna þátttakendur. Námskeiðin eru jafnframt framleidd til að búa kennara út með staðgott veganesti til kennslu grunn – og framhaldsskólanema um fjármál, en stuðningur við kennslu í fjármálalæsi er eitt af meginverkefnum Fjármálavits..
Fjármálavit er fræðsluvettvangur rekinn af Samtökum fjármálafyrirtækja með stuðningi Landssamtaka lífeyrissjóða og hefur þann tilgang að bæta fjármálalæsi ungs fólks og stuðla að upplýstri ákvarðanatöku í fjármálum með áherslu á sparnað og fyrirhyggju.
Að gerð námskeiðanna komu sérfræðingar m.a. úr fjármálafyrirtækjum, lífeyrissjóðum, frá Umboðsmanni skuldara, Creditinfo og VR. Myndin er tekin í Opna háskólanum í Háskólanum í Reykjavík þegar námskeiðin voru kynnt á dögunum.