Skip to content

Þaulskipulögð tryggingasvik hluti af skipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi

Allt bendir til þess að skipulögð glæpastarfsemi hafi færst í vöxt á Íslandi og hefur m.a. einn hópur svikið út á þriðja hundrað milljónir af íslensku trygginafélagi. Í nýjum Kompás þætti, sem hægt er að horfa á hér að neðan, er rætt við lögreglumenn og Katrínu Júlíusdóttur framkvæmdastjóra SFF sem hafa miklar áhyggjur af þróuninni.

„Þetta er auðvitað eitthvað sem við lítum öll mjög alvarlegum augum,“ segir Katrín Júlíusdóttir, um þann skaða sem glæpahópar hafa valdið tryggingafélögum.

Tvö íslensk tryggingafélög hafa brugðist við með því að ráða til starfa fyrrverandi rannsóknarlögreglumenn.

„Þeir eru fengnir til starfa til að reyna verja félögin fyrir því að vera misnotuð,“ segir Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja.

„Það þarf ákveðna rannsóknarfærni til að skima málin og til þess að lesa úr ákveðin mynstur og það er það sem þeir kunna og þetta er eitthvað sem við munum sjá aukningu í hér,” segir Katrín.

Grunaðir um að aka á ljósastaura af ásetningi

Lögreglan rannsakar nú tvö mál er varða umfangsmikil tryggingasvik tveggja glæpahópa sem hafa fengið greiddar út háar upphæðir frá tryggingafélögum.

„Það er fyrir líkamlegt tjón sem þeir eru að fá bætur og svo líka á eignum. Þetta bitnar á tryggingafélögunum og okkar iðgjöldum,“ segir Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Fyrra málið snýr að sviðsettum slysum glæpahóps frá Austur-Evrópu sem reyndi að fá greiddar út tugi milljónir í bætur frá einu tryggingafélaganna. Bætur höfðu aðeins verði greiddar út að hluta áður en upp komst um svikin.

Seinna málið er nokkuð umfangsmeira og snýr að stærri hópi sem grunaður er um að hafa ekið bílum sínum ítrekað á ljósastaura af ásetningi. Fólk í hópnum hefur fengið greiddar bætur fyrir líkamstjón, frá öðru íslensku tryggingafélagi, fyrir rúmlega tvo hundruð milljónir króna. Stundum hafði fólkið hópað sig saman í bíl og ekið á ljósastaur en eftir að tryggingafélagið fór að átta sig á ákveðnu mynstri fékk lögreglan málið til rannsóknar.

Tryggingafélögin í auknu samstarfi við lögreglu

Samtök fjármálafyrirtækja áætla að þrír til sjö milljarðar tapist árlega vegna tryggingasvika hér á landi en það er aðeins að hluta vegna skipulagðra glæpahópa og er þá tekið mið af tölum frá Norðurlöndunum. Katrín telur að þetta sé vanrannsakað hér á landi, auk þess sem oft sé erfitt fyrir tryggingafélögin að aðhafast vegna ríkrar sönnunarbyrði.

„Það hafa fallið dómar hér á landi sem vekja mann til umhugsunar: ef tveir af fimm sakborningum í málum um peningaþvætti eða fíkniefnamisferli skýra tekjur sínar með slysabótum og frekar háum slysabótum. Þetta fær mann til að hugsa hversu algengt þetta er í raun og veru. Þetta er miklu algengara en við höfum náð utan um,“ segir Katrín og bætir við að tryggingafélögin fagni auknu samstarfi við lögreglu.

Þá hafi tjónagagnagrunnur sem tekinn var í gagnið árið 2019, að norskri fyrirmynd, hjálpað félögunum í baráttunni.

„Þetta er gert með mjög skýrum tilgangi sem er að reyna verja iðgjaldagreiðendur, viðskiptavini vátryggingafélaganna, fyrir því að verið sé að misnota félögin í glæpsamlegum tilgangi. Þetta er auðvitað eitthvað sem við lítum öll mjög alvarlegum augum þar sem þetta bitnar á almennum borgunum með beinum og óbeinum hætti,“ segir Katrín.

Deila færslu