Skip to content

ÞINGI FRESTAÐ

Alþingi var frestað fyrr í dag en boðað hefur verið til kosninga 29. október. Á endaspretti þingsins voru nokkur mál er varða hagsmuni aðildarfélaga SFF samþykkt.

Í dag, fimmtudag, var frumvarp um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum samþykkt. SFF sendu tvær umsagnir um málið. Þær má nálgast hér og hér. Í þeim kom meðal annars fram röksemdafærsla fyrir því að fella ætti niður 7. grein frumvarpsins en hún hefði haft í för með sér mikla aukningu á upplýsingaskyldu fjármálafyrirtækja. Fallist var á þau rök í meðförum þingsins. Þann dag varð frumvarp um fasteignalán til neytenda einnig að lögum. Umsögn SFF má nálgast hér.

Á miðvikudag varð frumvarp um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð að lögum. SFF studdu markmið frumvarpsins en bentu á í umsögn sinni að sumar greinar þess þörfnuðust nánari skýringar og vandaðri útfærslu. Meðal þess bent var á að taka þyrfti af allan vafa að með afborgun væri átt við bæði niðurgreiðslu höfuðstóls og vaxta og fallist var á það í meðförum þingsins. Frumvarpið var lagt fram ásamt frumvarpi um vexti og verðtryggingu í tengslum við markmið ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum. Það frumvarp, sem hefði sett takmarkanir á veitingu verðtryggðra lána til 40 ára, var ekki samþykkt.

Á þriðjudaginn varð frumvarp um skyldutryggingu lífeyrisréttinda að lögum. Lögin fela í sér rýmkun á fjárfestingaheimildum lífeyrissjóða. Í meðferð þingsins var meðal annars komið móts við tillögur SFF um rýmka þyrfti heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga í sértryggðum skuldabréfum að einhverju leyti. SFF sendu tvær umsagnir um málið og þær má nálgast hér og hér. Þá sendu samtökin eina athugasemd til efnahags- og viðskiptanefndar og eitt minnisblað til sömu nefndar vegna málsins.

Sama dag samþykkti Alþingi frumvarp um losun fjármagnshafta. Meðal þess sem SFF náðu fram í meðferð þingsins var að fá inn sérstaka heimild fyrir einstaklinga og lögaðila vegna kaupa á lífeyrissparnaði og lífeyristryggingum í erlendum gjaldeyri og vegna fjárfestinga í verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum í erlendum gjaldeyri. Umsögn SFF má nálgast hér.

Deila færslu