Skip to content

Afnemum stimpilgjöld til frambúðar

Í Viðskiptablaðinu þann 28. febrúar leiðir hinn gagnmerki greinarhöfundur Óðinn að því líkum að ástæðu þessa að stjórnvöld hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart ESA um afnám stimpilgjalda megi rekja til þess að Samtök fjármálafyrirtækja séu því mótfallin.  Þarna virðist Óðinn hafa sett kíkinn að blinda auganu enda hafa Samtök fjármálafyrirtækja um árabil barist gegn stimpilgjöldum á skuldabréfum og lánaskjölum.

Ástæðan fyrir að SFF hafa barist gegn stimpilgjöldum er að samtökin telja að afnám þeirra muni styrkja samkeppni á fjármálamarkaði og stöðu neytenda. Samtökin komu þessari áherslu fyrst á framfæri þegar þau leiddu starf skattahóps Samtaka atvinnulífsins sem gaf út skýrslu árið 2001 þar sem sett var fram krafa um afnám stimpilgjalda. Þessari baráttu hefur síðan verið fylgt eftir, m.a. í umsögnum um frumvörp sem lögð hafa verið fram á Alþingi og boðað afnám þessara gjalda og í samstarfi atvinnugreinasamtaka á vegum SA.

Þannig að hið rétta er að SFF hafa barist fyrir afnámi stimpilgjalda í áratug áður en að ESA gerði kröfu um slíkt sem forsendu þess að stofnunin myndi heimila ríkisaðstoð sem var veitt vegna endurreisnar bankakerfisins. ESA setti fram þá kröfu sumarið 2012.

SFF náðu áfangasigri á þessari vegferð á dögunum. Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem lagt var fram á síðasta haustþingi var að beiðni SFF gert ráð fyrir framlengingu bráðabirgðaákvæðis í stimpillögum sem heimilar niðurfellingu stimpilgjalds af skilmálabreytingum fasteignalána og bílalána einstaklinga um eitt ár. Í umsögn SFF um frumvarpið kom fram að best færi á því að festa í sessi stimpilfrelsi skjala sem til eru komin vegna endurfjármögnunar lána til að stuðla að aukinni samkeppni á fjármálamarkaði og auka þannig hag lánþega. Það er skemmst frá því að segja að Alþingi fór þá leið og lögfesti ótímabundin ákvæði þess efnis í desember síðastliðinn með lögum nr. 146/2012. Enn eru þó tekin stimpilgjöld af skuldabréfum vegna nýrra lána sem og af afsölum og kaupsamningum vegna fasteignakaupa.  Samtökunum er kunnugt um að verið sé að skoða þau mál á grunni ábendinga ESA.

Samtök fjármálafyrirtækja hafa lengi lagt áherslu á afnám stimpilgjalda og hvetja stjórnmálaflokka í aðdraganda kosninga til að taka málið upp.

Deila