Skip to content

Borið í bakkafullan lækinn

Í kjölfar fjármálakreppunnar 2008 hefur verið gripið til margvíslegra aðgerða á alþjóðavettvangi til þess að auka viðnámsþrótt fjármálafyrirtækja og auka varfærni í rekstri þeirra. Tilgangur þessa er að draga úr líkum á því að áfall af þeirri stærðargráðu sem þá varð endurtaki sig.

Hluti þeirra aðgerða sem falla undir aukinn viðbúnað eru svokallaðir eiginfjáraukar sem eru viðbót við grunneiginfjárkröfuna sem gerð er til lánastofnana. Eiginfjáraukarnir eru fjórir og tengjast mismunandi áhættuþáttum. Einn þeirra, sveiflujöfnunaraukinn, tengist hagsveiflunni. Almennt er talið að gæði eigna fjármálafyrirtækja geti farið versnandi í uppsveiflum í hagkerfum sem birtist svo í rýrnun eigna í niðursveiflum eða þegar verulega dregur úr hagvexti.

Hugsunin er sú að mæta þessum sveiflum með því að krefjast aukins eigin fjár í uppsveiflum, sveiflujöfnunarauka, en lækka hann þegar harðnar á dalnum. Hækkun sveiflujöfnunaraukans í uppsveiflu gerir dýrara að auka eignir þar sem eiginfjárbinding verður meiri og heftir þannig aukningu eigna svo sem útlánavöxt. Þá myndi aukið eigið fé búa til forða til að mæta rýrnun eigna í niðursveiflu eða þegar dregur úr hagvexti. Lækkun sveiflujöfnunaraukans í niðursveiflunni myndi svo auðvelda lánastofnunum að uppfylla eiginfjárkröfur þrátt fyrir rýrnun eigna í niðursveiflunni. Í tilskipun ESB um eiginfjárkröfur (CRD IV) er þessu til dæmis lýst með eftirgreindum hætti í grein 80 í aðfararorðum eða skýringum með tilskipuninni:

„Sveiflujöfnunaraukann ætti að byggja upp þegar heildarvöxtur útlána og annarra eignaflokka sem hefur veruleg áhrif á áhættusnið þeirra lánastofnana og verðbréfafyrirtækja er talin valda vaxandi kerfisáhættu og losa hann þegar álagið kemur (e. during stressed periods).“

Reglur um eiginfjáraukana hafa verið lögfestar hér á landi sem hluti af regluverki EES um eiginfjárkröfur, svokallað CRD IV eða fjórða tilskipunin um eiginfjárkröfur. Reglurnar eru jafnframt hluti af alþjóðlegum viðmiðunum (Basel IV) Baselnefndarinnar sem starfar undir regnhlíf Alþjóðagreiðslubankans í Basel í Sviss.

Hámark sveiflujöfnunaraukans samkvæmt lögum er 2,5% og honum því ætlað að sveiflast frá núlli að þeim mörkum yfir hagsveifluna. Beiting eiginfjáraukanna er formlega á verksviði FME en Fjármálastöðugleikaráð er tillöguaðili um beitingu þeirra. Fjármálastöðugleikaráð er samstarfsvettvangur fjármálaráðuneytis, Seðlabanka og FME og starfar á grundvelli sérstakra laga frá árinu 2014. Fjármálaráðherra er formaður ráðsins.

Mikilvægur liður þess að þetta skynsamlega fyrirkomulag virki er að sveiflujöfnunaraukinn sé nýttur með sveigjanlegum hætti. Ef lítill sveigjanleiki er við beitingu sveiflujöfnunaraukans nær hann ekki tilgangi sínum. Þá verður sveiflujöfnunaraukinn aðeins enn einn varanlegur kostnaðarliður í rekstri fjármálafyrirtækja en virkar ekki til þess að hemja eignavöxt eða búa til forða svo að mæta megi áföllum í niðursveiflu í efnahagslífinu.

Aðeins tólf af 31 ríki á EES nýta heimildir til þess að leggja á sveiflujöfnunarauka og er hann að meðaltali 1,2% hjá þeim EES-ríkjum sem nýta heimildina. Hæstur er sveiflujöfnunaraukinn í Noregi (2%) og Svíþjóð (2,5%) en bæði löndin sluppu að miklu leyti við fjármálakreppuna 2008. Áhyggjur hafa verið í báðum löndum af ósprungnum útlána- og eignabólum. Sveiflujöfnunaraukinn hér á landi var hækkaður í 1,75% í maí 2018. Síðan hefur verið boðuð frekari hækkun um 0,25% í febrúar næstkomandi.

Ljóst er að frá því ákvörðun var mótuð á fundi Fjármálastöðugleikaráðs í vetur sem leið hafa skipast veður í lofti í efnahagsmálum hér á landi. Almennt er nú reiknað með lakari efnahagshorfum en gert var á vetrarmánuðum. Í spá Hagstofunnar í febrúar var reiknað með 1,7% hagvexti á þessu ári en 2,8% hagvexti 2020. Nú er gert ráð fyrir 0,2% samdrætti á þessu ári en 2,6% hagvexti á næsta ári. Ýmislegt bendir til, ekki síst þróun á vinnumarkaði, að hætta sé á að samdrátturinn verði dýpri og standi lengur og hagvöxtur næsta árs verði minni en Hagstofan spáir. Þá hefur verulega hægt á vexti útlána frá vormánuðum. Tólfmánaða aukning heildarútlána innlánsstofnana var tæplega 13% til loka janúar á þessu ári en er nú tæp 4% miðað við lok september.

Full ástæða virðist því til þess að endurskoða fyrri ákvörðun. Jafnvel gætu verið að skapast skilyrði sem réttlættu lækkun sveiflujöfnunaraukans.

Deila