Skip to content

Eru tölvur að tortíma bönkunum?

Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði og meðlimur peningastefnunefndar Seðlabankans, fjallaði um fjármálageirann  á morgunverðarfundi sem Fjármálaeftirlitið stóð fyrir í gærmorgun. Í frásögn Ríkisútvarpsins af fundinum er að finna fullyrðingar sem orka tvímælis og þörf er á að skýra frekar.

Eins og segir í umfjöllun RÚV þá gagnrýndi Gylfi tæknivæðingu bankanna harðlega. Haft er eftir Gylfa:

Mannshugurinn er farinn. Í tölvunni er engin dómgreind en í viðskiptalífinu og fjármálakerfinu skiptir dómgreind ofboðslega miklu máli. Tökum dæmi. Einstaklingur á lágmarkslaunum með mikil útgjöld getur hækkað yfirdráttinn sinn sjálfur í heimabankanum upp í tvær milljónir króna. Viðkomandi á ekki að geta gert það. Fjölskylda sem hefur verið að borga meira en 200 þúsund í leigu sækir rafrænt um greiðslumat fyrir íbúðakaupum en því er hafnað vegna þess að tölvan segir nei. Þarna vantar dómgreind.“

Sú bylting sem er að eiga sér stað og kennd er við fjártækni er ekki frábrugðin öðrum tæknibyltingum. Hún byggir á tækni – í þessu tilfelli stafrænni tækni – og er nýtt til þess að auka skilvirkni og bæta þjónustu. Fjártæknin hefur hvorki úthýst dómgreind starfsmanna fjármálafyrirtækja né gert að verkum að viðskiptavinir þeirra geti sótt sér lánsfé að vild. Lausnir sem snúa að hækkun og lækkun yfirdráttar byggja á áralangri þróun reikni- og lánshæfislíkana. Þetta er því ágætt dæmi um hvernig hugvit og stafræn tækni nýtist til að bæta þjónustu fjármálafyrirtækja. Viðtökurnar hér á landi sýna að viðskiptavinir kunna að meta slíkt.

Tækniþróunin í fjármálageiranum hefur aukið hagræði og dregið úr kostnaði. Framþróun fjártækninnar er alþjóðleg og sér ekki endann fyrir á þeirri þróun. Flestir sérfræðingar eru sammála um að hún muni auka samkeppni á fjármálamarkaði enn frekar og verða neytendum til hagsbóta. Óskir um að íslensk fjármálafyrirtæki taki ekki þátt í þessari þróun eru marks um skammsýni.

Tölvur og menn

Gylfi tekur dæmi af fjölskyldu sem borgar ríflega 200 þúsund krónur í leigu en stenst ekki greiðslumat vegna fasteignakaupa eftir að hafa sótt um það með rafrænum hætti. Rétt er að vekja athygli Gylfa á því að það er bundið í lög að meta greiðslugetu fasteignakaupenda. Fasteignalánveitendum er beinlínis óheimilt að veita fasteignalán ef greiðslugeta er lægri en fyrirhuguð greiðslubyrði nema neytandi geti sýnt fram á með sérstökum rökum að hann geti ráðið við greiðslubyrðina. Rétt er að taka það fram að þetta er sá lagarammi sem gildir á hinu sameiginlega evrópska efnahagssvæði. Samanburðurinn á afborgun af fasteignaláni og mánaðarlegri leigu er jafnframt órökréttur í þessu samhengi. Það er allt önnur fjárhagsleg skuldbinding að greiða af íbúðarláni til áratuga en að standa í skilum á leigu mánaðarlega. Eðli málsins samkvæmt er farið með þessar skuldbindingar með ólíkum hætti innan fjármálakerfisins, burt séð frá því hvort tölvur eða menn koma að málum.

Einnig verður að hafa í huga að fjármálafyrirtæki leggja sig fram við að koma til móts við viðskiptavini sína. Ef að viðkomandi stenst ekki rafrænt greiðslumat getur hann leitað til einstaklingsráðgjafa hjá viðkomandi fjármálafyrirtæki í leit að farsælli lausn á sínum málum. Langstærstur hluti þeirra sem starfa við einstaklingsráðgjöf á viðskiptabönkunum hafa lokið námi til vottunar fjármálaráðgjafa og er það marks um viðleitni til að veita faglega og persónulega ráðgjöf þegar kemur að fjármálum einstaklinga.

Að leggja verðskrár á minnið

Þá gerði Gylfi verðskrár fjármálafyrirtækja að umtalsefni á fundinum. Kvartaði hann meðal annars yfir því að ógjörningur væri að leggja þær á minnið og meintur óskýrleiki þeirra væri til þess fallinn að villa um fyrir neytendum. Verðskrár fjármálafyrirtækja endurspegla einfaldlega þjónustuframboð þeirra. Flestir verktakar geta sinnt rekstri sínum sómasamlega án þess að vera með verðskrár byggingavöruverslana á hraðbergi. Dags daglega eru viðskiptavinir banka að nýta sér lítinn hluta af þjónustuframboði fjármálafyrirtækja, þ.e. þjónustu sem snýr að launareikningi og notkun greiðslukorta. Það er ekki yfirgripsmikið verkefni að hafa yfirsýn yfir verðlagningu þeirra þátta.

Þá má geta þess að á undanförnum árum hafa litið dagsins ljós vefsíður sem gera viðskiptavinum fjármálafyrirtækja auðvelt að bera saman kjör á lánum og annarri þjónustu. Sú þróun helst í hendur við sterkari stöðu neytenda á fjármálamarkaði. Veigamikill hluti af þeim umbótum sem gerðar hafa verið á fjármálamörkuðum á undanförnum árum snýr að eflingu neytendaverndar og aðgerðum sem styrkt hafa samkeppnisumhverfið. Þannig er nú mun einfaldara fyrir neytendur að beina viðskiptum sínum frá einu fjármálafyrirtæki til annars en nokkurn tíma áður.

Með setningu laga um neytendalán og fasteignalán til neytenda voru settar takmarkanir á uppgreiðslugjöld og fjármálafyrirtækjum gert óheimilt að fara fram á kaup á annarri þjónustu þegar fasteignalán eru tekin eins og algengt var á árum áður. Þá leiddi afnám stimpilgjalda á almennum lánaskjölum til þess að mun ódýrara varð endurfjármagna óhagstæð lán.

Þetta þýðir með öðrum orðum að kostnaður viðskiptavina fjármálafyrirtækja við að færa sig frá einu fyrirtæki til annars í leit sinni að sem hagstæðustu kjörum og þeirri þjónustu sem hentar þeim hefur hingað til ekki verði lægri.

Þetta hefur stutt við hina miklu samkeppni sem hefur verið á markaðnum með fasteignalán á undanförnum árum. Þar hafa lífeyrissjóðirnir eflt markaðshlutdeild sína til muna í krafti þeirra staðreyndar að þeir greiða ekki bankaskatt ólíkt viðskiptabönkunum.

Að efla traust á fjármálamarkaðnum

Mikið hefur verið rætt um að almenningur beri lítið trausts fjármálageirans. Það er mikilvægt, og í allra þágu, að byggja upp það traust sem hefur glatast. Vönduð og fagleg umræða um fjármálageirann er líkleg til að stuðla að umbótum og leggja grundvöll að trausti.

Deila