Skip to content

Hátt í 200 milljarða aukning húsnæðislána á síðasta ári

Húsnæðislán heimilanna jukust um 195 ma.kr. á síðastliðnu ári eða 11%. Má í raun segja að aukningin sé alfarið bundin við óverðtryggð húsnæðislán frá bönkunum en ásókn í slík lán hefur aldrei verið meiri.

 

300 milljarða aukning húsnæðislána hjá bönkunum

Óverðtryggð lán eru langvinsælasta lánaformið um þessar mundir og eru kjör banka og sparisjóða á slíkum lánum á meðal þeirra samkeppnishæfustu sem nú standa til boða. Þar er bæði greiðara aðgengi að húsnæðislánum, þar sem að lán lífeyrissjóða standa einungis sjóðsfélögum til boða, og einnig hærra veðhlutfall alla jafna. Hefur þetta leitt til sögulegrar aukningar húsnæðislána úr bankakerfinu. Aukningin nam 299 mö.kr. á síðastliðnu ári sem er hátt í sexföldun frá fyrra ári og meira en bankakerfið lánaði af húsnæðislánum á fjögurra ára tímabili frá 2016-2019.

 

Rúmlega 100 milljarða uppgreiðsla hjá öðrum lánveitendum

Húsnæðislán lífeyrissjóða lækkuðu um 11 ma.kr. á síðastliðnu ári. Áttu sér því stað nettó uppgreiðslur hjá lífeyrissjóðum eftir mikla útlánaaukningu á árunum 2016-2019 þar sem að sjóðirnir lánuðu að meðaltali um 90 ma.kr. ár hvert. Þá er ekkert lát á uppgreiðslum hjá Íbúðalánasjóði en uppgreiðslurnar námu 93 mö.kr. á síðastliðnum ári. Hluti af útlánum sjóðsins bera uppgreiðsluálag sem hefur að öllum líkindum spornað gegn enn hraðari uppgreiðslum.

 

Hátt í helmingur húsnæðislána heimilanna nú óverðtryggð

Aukning óverðtryggðra húsnæðislána á síðastliðnu ári nam 348 mö.kr. en það er rúmlega þrefalt meiri aukning en á árinu 2019. Á sama tíma lækkuðu verðtryggð húsnæðislán um 152 ma.kr. Óhætt er að fullyrða að hér sé um að ræða tilfærslu úr verðtryggðum skuldum í óverðtryggðar skuldir af sögulegri stærðargráðu hjá heimilum landsins.

 

Þessi tilfærsla olli því að hlutfall óverðtryggðra húsnæðislána hækkaði úr 27% í 42%. Haldi þessi þróun áfram verða óverðtryggð húsnæðislán að öllum líkindum orðin meira en helmingur af heildarhúsnæðislánum heimilanna á þessu ári.

 

Bankarnir nú með um tvo þriðju hluta allra húsnæðislána

Bankarnir eru nú lánveitendur 65% af húsnæðislánum heimilanna, talið í fjárhæðum. Árið 2013 var Íbúðalánasjóður stærsti lánveitandi húsnæðislána með um 46% hlutdeild. Bankarnir komu þar á eftir með um 42% og lífeyrissjóðir með um 13%. Gerbreytt staða er nú uppi. Bankarnir hafa aukið sína hlutdeild um rúmlega helming og lífeyrissjóðir hafa tvöfaldað sína hlutdeild. Líklegt verður að teljast að vinsældir óverðtryggðra húsnæðislána á breytilegum kjörum haldi áfram. Má því gera ráð fyrir að bankakerfið auki hlutdeild sína á húsnæðislánamarkaði enn frekar á næstu misserum.

Heimild: Seðlabanki Íslands

Deila