Skip to content

Horft yfir sviðið

Sterk staða íslensk fjármálamarkaðar er ein af grundvallarforsendum þess að stjórnvöld hafa nú tekið síðustu skrefin í átt að losun fjármagnshafta. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýjustu fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabanka Íslands. Skýrsla Seðlabankans um fjármálastöðugleika kemur út tvisvar á ári og í henni er að finna yfirgripsmikið stöðumat á fjármálakerfinu hverju sinni og greiningu á styrk þess og viðnámsþrótti við hugsanlegum efnahagslegum áföllum. Í stuttu máli má segja að niðurstaða skýrslunnar sé sú að íslenska fjármálakerfið standi traustum fótum og sé vel í stakk búið til þess að sinna grundvallarhluverki sínu sem snýst um að umbreyta sparnaði í fjárfestingu og styðja við efnahagslegan framgang þjóðarbúsins.

Ein af ástæðum þess að fjármálageirinn stendur styrkum stoðum er mikil umbreyting sem hefur orðið á regluverki fjármálamarkaða á liðnum árum. Hin alþjóðlega fjármálakreppa varð til þess að ráðist var í víðtæka endurskoðun á regluverki fjármálamarkaða á Vesturlöndum. Þessar breytingar miða að því að berja í þá bresti sem komu í ljós í fjármálakreppunni og þeim er ætlað að draga úr áhættumyndun á fjármálamörkuðum, treysta innstæðutryggingakerfi, auka gæði og magn eigin fjár fjármálafyrirtækja og tryggja skilvirk viðbrögð við fjármálaáföllum.

Þessar breytingar hafa verið innleiddar hér á landi þar sem um er að ræða lög og reglur sem gilda á hinum sameiginlega fjármálamarkaði Evrópu. Nýlega gáfu SFF út viðamikla skýrslu sem rekur allar þessar breytingar sem gerðar hafa verið og greinir tilgang þeirra. Skýrslan nefnist Hvað hefur breyst? Tilgangurinn með útgáfu skýrslunnar var að safna saman á einn stað upplýsingum um þær grundvallarbreytingar sem gerðar hafa verið á regluverki fjármálageirans á síðustu árum til þess að  stuðla að gagnlegri umræðu um þessi mál sem byggir á raunverulegri þekkingu á staðreyndum.

En þrátt fyrir að fjármálageirinn standi á traustum grunni er margt sem betur má fara hér á landi. Á sama tíma og stjórnvöld hafa innleitt áður nefndar breytingar hafa þau bætt við þær ýmsum séríslenskum ákvæðum sem hafa reynst íþyngjandi. Auk þess er sérstök skattlagning á fjármálafyrirtæki hér á landi mun meiri en þekkist í nágrannalöndunum. Í heild námu skattar og gjöld sem lögð eru á fjármálafyrirtæki röskum 38 milljörðum króna á árinu 2015 eða 6,3% af heildartekjum ríkissjóðs.  Vinnuafl greinarinnar er 2,4% af heildarfjölda á vinnumarkaði.  Sérstakir skattar hér á landi eru um 10 sinnum hærri sem hlutfall af landsframleiðslu en í þeim fáu löndum sem á annað borð hafa tekið upp slíka skatta.

Þegar skattlagning er jafn íþyngjandi og raun ber vitni þá grefur það verulega undan samkeppnisfærni fjármálafyrirtækja og eykur um leið kostnað fyrirtækja og heimila þegar þau nýta sér fjármálaþjónustu. Það gleymist stundum að halda því til haga að aðildarfélög SFF eiga ekki eingöngu í harðri samkeppni sín á milli heldur keppa þau einnig við erlend lánafyrirtæki sem búa ekki við jafn mikla skattheimtu. Þá keppa þau einnig við aðrar tegundir fjármálafyrirtækja sem starfa ekki við jafn íþyngjandi skattaumhverfi og ekki eftir jafn ströngu regluverki þegar kemur að útlánum. Má nefna lífeyrissjóði og sjóðsfélagalán þeirra í því samhengi. SFF fagna allri samkeppni en leggja ríka áherslu á að hún fari fram á jafnréttisgrundvelli og öll fyrirtæki sitji við sama borð þegar kemur að skattaumhverfi og regluverki.

Deila