Skip to content

Metaukning óverðtryggðra húsnæðislána

Heimilin hafa á fyrstu sjö mánuðum ársins aukið óverðtryggð húsnæðislán um 128 milljarða en það er 14 milljörðum meiri aukning en allt árið í fyrra. Aukning óverðtryggðra húsnæðislána á tímabilinu nemur rúmum fjórðungi eða 27%. Á sama tíma hafa verðtryggð húsnæðislán lækkað um 49 milljarða eða 4%. Heildarhúsnæðislán heimilanna hafa því vaxið um 79 milljarða á fyrstu sjö mánuðum ársins eða 4%. Aukningin er alfarið bundin við óverðtryggð húsnæðislán og hefur aðsókn í slík lán aldrei verið meiri en nú.

*tölur fyrir 2020 ná til og með júlí

Verðtrygging aldrei haft minna vægi í skuldum heimila

Auknar vinsældir óverðtryggðra húsnæðislána hefur leitt til þess að slík lán hafa aldrei verið veigameiri sem hlutfall af húsnæðislánum heimilanna í heild frá því að verðtrygging var almennt heimiluð. Af því leiðir að vægi verðtryggðra lána í heildarskuldum heimilanna hefur aldrei verið minna. Umtalsverð lækkun vaxta undanfarin misseri hefur gert fleirum kleift að taka óverðtryggð lán en greiðslubyrði slíkra lána er alla jafna hærri en á verðtryggðum lánum fyrst um sinn og því getur reynst erfiðara fyrir lánþega að standast greiðslumat vilji hann taka óverðtryggt lán.

Bankarnir bjóða bestu kjörin

Bankarnir bjóða uppá samkeppnishæfustu kjör óverðtryggðra lána sem nú standa til boða, miðað við upplýsingar á vefsíðunni www.aurbjorg.is. Þá bjóða þeir greiðara aðgengi að húsnæðislánum þar sem að lán lífeyrissjóða standa einungis sjóðsfélögum þeirra til boða. Bankarnir bjóða einnig hærra veðhlutfall en lífeyrissjóðir.

Gerbreytt staða á húsnæðislánamarkaði

Vinsældir óverðtryggðra lána og samkeppnishæf kjör bankanna á slíkum lánum hefur leitt til þess að bankarnir hafa aukið hlutdeild sína umtalsvert á húsnæðislánamarkaði undanfarin ár og lána nú rúmlega helming eða 58% allra húsnæðislána. Árið 2013 var Íbúðalánasjóður stærsti lánveitandi húsnæðislána með 48% hlutdeild. Bankarnir komu þar á eftir með 39% og lífeyrissjóðir með 13%.

Gerbreytt staða er nú uppi. Bankarnir hafa aukið sína hlutdeild um helming. Lífeyrissjóðir hafa rúmlega tvöfaldað sína hlutdeild úr 13% í 29% og hafa vaxið hraðast allra lánveitenda. Ekkert lát virðist vera á uppgreiðslum Íbúðalánasjóðs. Hlutdeild sjóðsins hefur lækkað um nærri þrjá fjórðu og stendur nú í 12%. Líklegt verður að teljast að vinsældir óverðtryggðra húsnæðislána á breytilegum kjörum haldi áfram. Má því gera ráð fyrir að bankakerfið auki hlutdeild sína á húsnæðislánamarkaði enn frekar á næstu misserum.

 

Heimild: SFF, Seðlabanki Íslands og aurbjorg.is

 

Grein birtist í Viðskiptamogganum 16.9.2020

Deila