Skip to content

Ný heildarlög um verðbréfasjóði

SFF fagna því að frumvarp um ný heildarlög um verðbréfasjóði,  sem ætlað er að innleiða í íslenskan rétt tilskipun 2014/91/ESB um verðbréfasjóði (UCITS) og tilskipun 2010/78/ESB að því er varðar verðbréfasjóði (Omnibus I), hafi verið lagt fram á Alþingi.  Mikilvægt er að innlendur verðbréfamarkaður starfi eftir alþjóðlega viðurkenndri umgjörð sem er sem líkust því sem gerist í Evrópu. Það gerir íslensk fjármálafyrirtæki samkeppnisfærari, getur opnað fyrir aðgang þeirra að stærri mörkuðum í öðrum löndum og einnig greitt fyrir aðgengi erlendra þátttakenda á íslenskum markaði. Því er mikilvægt að löggjafinn tryggi að ekki verði lögfest séríslensk ákvæði, hvort sem þau ganga lengra eða skemur en EES-reglur, nema ríkar ástæður séu til þess.

Í umsögn um frumvarpið benda SFF á að vegna smæðar íslenska fjármálamarkaðarins háttar svo til hér á landi að bankar með víðtæk starfsleyfi, sem oftast eru móðurfélög rekstraraðila verðbréfasjóða, starfa líka sem vörsluaðilar. Framangreind ESB-reglugerð virðist ekki taka tillit til þeirra sérstöku aðstæðna sem uppi eru hér á landi.  Verði ákvæði 2. mgr. 15. gr. frumvarpsins óbreytt að lögum mun það leiða til þess að móðurfélag getur ekki falið neinum starfsmanni sínum að sitja í stjórn rekstrarfélags. Það mun leiða til uppstokkunar í stjórnum og stjórnarháttum margra rekstrarfélaga. Um leið kann það að gera móðurfélagi í samstæðu erfiðara að uppfylla skyldur sínar samkvæmt framangreindum viðmiðunarreglum EBA.  Telja verður sú skipan sem er í dag að meirihluti stjórnar skuli vera óháður nái fyllilega því markmiði sem að er stefnt.

Umsögnina í heild sinni má lesa hér

Deila