Skip to content

Nýtum tækifærin og treystum samkeppnisumhverfið

Í fljótu bragði virðist ekki um auðugan garð að gresja þegar kemur að leit að samlíkingum milli íslensks fjármálamarkaðar og heims norrænnar goðafræði. Samt sem áður kemur gölturinn Sæhrímnir upp í kollinn við slíka hugarleikfimi. Æsir og einherjar hafa hann sér til matar í Valhöll. Sæhrímni er slátrað á hverjum degi en er alltaf heill að kvöldi og aldrei er svo mikill mannfjöldi í Valhöll að þeim endist ekki flesk galtarins. Stundum hvarflar það að manni að stjórnmálamenn og álitsgjafar gangi út frá því sem vísu að íslensk fjármálafyrirtæki búi yfir sömu eiginleikum og hinn goðsagnakenndi göltur; að hægt sé að leggja allar byrðar sem á þau eru lagðar án þess að það hafi nein áhrif á getu þeirra til að sinna grundvallarhlutverki sínu í hagkerfinu.

Það er fjarri lagi. Skattbyrði aðildarfélaga Samtaka fjármálafyrirtækja er gríðarleg. Samanlagt hafa félögin verið að greiða á bilinu 35–40 milljarða í opinber gjöld á ári hverju. Fjármálageirinn ber langmestu byrðarnar þegar kemur að innheimtu opinberra gjalda, en þau borga tæplega þriðjung allra opinberra gjalda hér á landi.

Fjármálageirinn gegnir grundvallarhlutverki í samfélaginu. Hann er nauðsynlegur til þess að umbreyta sparnaði í fjárfestingu, dreifa áhættu og sinna skilvirkri miðlun fjármagns. Það skiptir sköpum fyrir framgang efnahagslífsins að þetta hlutverk sé leyst með vönduðum hætti. Þegar svo miklar skattbyrðar eru lagðar á geirann er hætt við því að grafið sé undan getu fjármálageirans til þess að sinna þessu hlutverki og þær eru til þess fallnar að gera fjármálaþjónustu kostnaðarsamari en efni standa til.

Umræðan um fjármálageirann hefur tilhneigingu til þess að snúast eingöngu um örfá fyrirtæki. Það vill oft gleymast að mun fleiri þátttakendur eru til staðar á fjármálamarkaðnum. Auk banka eru lífeyrissjóðir umsvifamiklir á fasteignalánamarkaði og erlendir bankar keppa við þá íslensku þegar kemur að lánveitingum til stærri fyrirtækja. Þá hafa fjártæknifyrirtæki og önnur fyrirtæki verið að færa sig í vaxandi mæli inn á markaðinn með neytendalán og ekki sér fyrir endann á þeirri þróun. Fjártæknin, ásamt breytingum á regluverki fjármálamarkaða, eykur jafnframt líkurnar á því að erlend lánafyrirtæki fari að bjóða íslenskum neytendum fjármálaþjónustu, eins og til að mynda sést á áformum þýska netbankans N26 um að hefja starfsemi hér á landi.

SFF fagna þessari þróun en leggja áherslu á mikilvægi þess að jafna samkeppnisskilyrði milli íslenskra fjármálafyrirtækja og annarra innlendra lánveitenda á borð við lífeyrissjóði annars vegar og hins vegar erlendra fjármálafyrirtækja sem ekki búa við eins íþyngjandi skattaumhverfi og íslensku bankarnir. Það sem gerir málið sérlega aðkallandi er að þátttakendum er að fjölga hratt á fjármálamarkaði með tilkomu fjártæknibyltingarinnar. Til þess að íslenskir neytendur njóti þess ábata sem hin mikla framþróun sem nú á sér stað í fjármálageiranum mun skila er ákaflega brýnt að allir þeir sem veita fjármálaþjónustu sitji við sama borð þegar kemur að samkeppnisumhverfinu.

Staðan á íslenskum fjármálamarkaði er spennandi en hún felur í sér mikilvægar áskoranir. Allar líkur eru á því að fjártæknin og framþróun stafrænnar tækni muni leiða til grundvallarbreytinga á því með hvaða hætti fjármálaþjónusta verður veitt þegar fram í sækir. Við sjáum þess merki nú þegar, en viðskiptavinir fjármálafyrirtækja geta rekið flest sín erindi með stafrænum hætti. Þessi þróun mun án efa gera það að verkum að fjármálaþjónusta verði ekki jafn staðbundin og áður, og viðskiptavinir munu eiga auðveldara með að sækja sér fjármálaþjónustu þvert á landamæri.

Þessi mikla deigla kallar á kreddulausa umræðu um stöðu fjármálageirans. Sú umræða ætti að byggja á spurningunni um hvernig við ætlum að gera íslenskum fjármálatækjum kleift að taka þátt í þeirri hörðu samkeppni sem ríkir á fjármálamarkaði – hvernig við getum hagað umhverfi fjármálamarkaðarins með þeim hætti að hann þjóni neytendum með bestum hætti. Til þess að tryggja að svo verði er nauðsynlegt að endurmeta útfærslu regluverks fjármálamarkaða, draga úr séríslenskum ákvæðum í lögum og móta skattaumhverfið með þeim hætti að það þjóni hagsmunum viðskiptavinanna.

Deila