Skip to content

Ofmat félags atvinnurekenda á virði óleystra gengislána

Samkvæmt upplýsingum frá aðildarfélögum Samtaka fjármálafyrirtækja nam kröfuvirði gengislána sem enn er ágreiningur um 96 milljörðum króna í árslok 2014. Þetta er umtalsvert lægri fjárhæð en þeir 547 milljarðar króna sem Félag atvinnurekenda (FA) hefur haldið á lofti að undanförnu.

Nýlega efndi FA til fundar þar sem fjallað var um stöðu gengislána íslenskra fyrirtækja. Á fundinum var kynnt greining sem unnin hafði verið fyrir FA um hversu mikið af gengislánum fyrirtækja væri enn í ágreiningi milli lánastofnana og viðskiptavina. Niðurstaða greinarinnar er að ágreiningur ríki enn um þriðjung gengislána eða um 547 ma.kr. að kröfuvirði eða sem nemur þriðjungi af landsframleiðslu. Með kröfuvirði er átt við skuld sem snýr að lánþegum. Bókfært virði lánanna kann að vera lægra, meðal annars vegna niðurfærslu við kaup á þeim frá þrotabúum banka eða seinni virðisrýrnunar. Þessari tölu var eingöngu ætlað að ná til lána stóru viðskiptabankanna þriggja til fyrirtækja.

Í ljósi þeirrar staðreyndar að búið er að leysa að langstærstum hluta úr ágreiningi um gengislán viðskiptabankanna kom niðurstaða greiningar FA verulega á óvart og kallar á að málið sé skoðað ofan í kjölinn.

Við þá skoðun kom í ljós að greining FA byggir á eftirfarandi flokkun Fjármálaeftirlitsins á gengislánum frá vormánuðum 2012 (sem var byggð á tölum frá árslokum 2011). Þar voru lán flokkuð eftir líkindum á því hvort gengisbinding þeirra væri lögleg með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem Hæstiréttur virtist leggja til grundvallar. Flokkarnir voru sex. Í A-flokk voru flokkuð erlend lán sem nánast var ótvírætt að væru lögleg, alls um 178 milljarðar króna að bókfærðu virði, en í aðra flokka (B til F) eftir vaxandi líkindum um ólögmæti önnur gengislán um 551 milljarður króna að bókfærðu virði.

Í áætlun þeirri sem unnin var fyrir FA er gengið út frá að eingöngu lán í flokki A hafi reynst lögleg. Þessi fjárhæð er dregin frá stöðu gengislána fyrirtækja í árslok 2014 og slegið föstu að mismunur þessara talna sé bókfært virði lána sem eru í ágreiningi nú, alls 257 milljarðar króna. Til að áætla kröfuvirðið er þessi tala blásin út og miðað við 57% meðalniðurfærslu lána við kaup þeirra til nýju bankanna, sem gefur 547 milljarða króna.

Þessi aðferð til að áætla ágreiningslán felur í raun í sér að gefa sér sem forsendu það sem í upphafi á að áætla. Fjárhæð fyrirtækjalána í A-flokki í árslok 2011 segir ekkert um lögleg eða óumdeild gengislán í árslok 2014. Með því er slegið föstu að lögleg gengislán hafi ekki aukist undanfarin þrjú ár. Hvort tveggja er að lán kunna að hafa verið leiðrétt sem áður voru ólögmæt og að dómstólar hafa nú dæmt lán í flokkum B og C lögleg lán, auk þess sem lán í flokki D hafa reynst að stórum hluta lögleg.

Samtök fjármálafyrirtækja kölluðu eftir gögnum frá aðildarfyrirtækjum sínum um umdeild gengislán til fyrirtækja í framhaldi af málflutningi FA. Samkvæmt þeim gögnum eru umdeild gengislán fyrirtækja í árslok 2014 að kröfuvirði um 96 milljarðar króna en ekki 547 milljarðar króna eins og FA heldur fram. Það þýðir að umdeild gengislán eru ekki þriðjungur gengislána heldur um 5%.

Greinin birtist í Markaðnum, fylgiblaði Fréttablaðsins 15. apríl 2015.

Deila