Skip to content

Sameiginlegri slitameðferð komið á fót í ESB

Þann 20. mars var tilkynnt um að Evrópuþingið og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefðu náð samkomulagi um innleiðingu kerfis sameiginlegrar slitameðferðar fjármálafyrirtækja (Single Resolution Mechanism – SRM).Sameiginlegt slitameðferðarkerfi fjármálafyrirtækja kemur til með að vera ein af þremur meginstoðum Bankabandalags Evrópu (Banking Union). Hinar stoðirnar tvær snúa að sameiginlegu fjármálaeftirliti (Single Supervisory Mechanism – SSM) og sameiginlegu innstæðutryggingarkerfi í Evrópu.

Sameiginlegt fjármálaeftirlit (SSM) mun að fullu taka gildi í nóvember á þessu ári og felur í sér að Evrópski seðlabankinn fer með eftirlit með stærstu bönkum Evrópu. Þar að auki kemur hann til með að vinna  með fjármálaeftirlitum viðkomandi landa að eftirliti þeirra banka sem ekki falla undir skilgreiningu reglna á því hvað kerfislega mikilvægur banki er. Allir bankar á evrusvæðinu falla sjálfkrafa undir hið sameiginlega eftirlitskerfi. Aðildarríki ESB sem hafa ekki tekið upp hinn sameiginlega gjaldmiðil geta hinsvegar sótt um aðild að SSM.

Allir bankar sem falla undir hið sameiginlega fjármálaeftirlit falla undir fyrirkomulag sameiginlegrar slitameðferðar. Það felur í sér að sameiginlegt stjórnvald fer með slitamálefnin og fær meðal annars það hlutverk að gera áætlanir um hvernig eigi að standa að slitum  fjármálafyrirtækja  sem sæta beinu eftirliti ECB. Sambærilegt stjórnvald í hverju aðildarríki fyrr sig færi svo með slíka áætlunargerð fyrir banka sem starfa eingöngu innan viðkomandi landamæra.

Hið nýja fyrirkomulag felur einnig í sér stofnun sameiginlegs slitasjóðs sem allir bankar sem heyra undir kerfið munu fjármagna. Gert er ráð fyrir að stærð sjóðsins verði 55 milljarðar evra og að hann verði byggður upp á átta árum. Áætlanir gera ráð fyrir að sjóðurinn muni taka við hlutverki sambærilegra sjóða í ríkjum sem eiga aðild að SSM.

Ákvörðunartaka í hinni nýju skipan verður í höndum sameiginlegrar stjórnar slitamála – sem verður skipuð fulltrúum þeirra ríkja sem eiga aðild að SSM, framkvæmdastjórninni, ráðherraráðinu og Evrópska seðlabankanum (Single Resolution Board). Gert er ráð fyrir að ECB tilkynni stjórninni þegar hætta er á að banki kunni að rata í þrot að óbreyttu. Stjórnin tekur síðan ákvörðun um hvort að fall bankans hafi kerfislæga áhættu í för með sér og hvort að mögulegt sé að leysa vandann án aðkomu stjórnvalda. Ef ekki þá getur stjórnin nýtt þau tæki sem kerfi sameiginlegrar slitameðferðar býður upp á, þar með talið notað fjármuni úr hinum sameiginlega slitasjóði.

Gert er ráð fyrir að Evrópuþingið samþykki lögin nú í apríl og að ráðherraráð ESB staðfesti þau í framhaldinu. Að öllu óbreyttu mun SRM taka gildi við upphaf næsta árs en þeir þættir sem snúa að björgun og slitum við ársbyrjun 2016.

Af þeim Norðurlöndum sem eiga aðild að ESB er Finnland það eina sem tilheyrir sjálfkrafa hinu sameiginlega eftirlitskerfi gegnum aðild að evrusvæðinu. Ekki liggur fyrir hvort að Danmörk og Svíþjóð muni sækja um beina aðild en Pentti Hakkarainen, aðstoðarseðlabankastjóri Finnlands, hefur hvatt til þess þar sem að það myndi styrkja hina norrænu vídd í Bankabandalaginu.

Deila