SFF fagna því sérstaklega að stjórnvöld hyggist setja sér þá metnaðarfullu stefnu að efling stafrænnar þjónustu verði eitt af forgangsmálum stjórnvalda og með henni verði lagður grunnur að því að Ísland verði á meðal fremstu þjóða heims þegar kemur að stafrænni opinberri þjónustu. Þetta rímar mjög vel við markmið SFF að auka möguleika á stafrænni fjármálaþjónustu hvað varðar samskipti fjármálafyrirtækja við hið opinbera. Samhliða leggja SFF ríka áherslu á að stjórnvöld hefji sem fyrst endurskoðun á fyrirkomulagi gjaldtöku hins opinbera vegna afhendingar stafrænna gagna frá hinu opinbera til fjármálafyrirtækja að beiðni viðskiptavina þeirra. Eðlilegt er að gjaldtakan verði löguð að nýjum stafrænum veruleika í opinberri þjónustu og fjármálaþjónustu.
Stafrænni fjármálaþjónustu hefur fleygt fram á síðustu misserum og mun sú þróun halda áfram. Sem dæmi má nefna að einn íslensku viðskiptabankanna hefur birt tölur um að hann hafi um 45 milljónir snertinga við viðskiptavini sína á ársgrundvelli og 99% þeirra séu með stafrænum hætti. Heimsóknir í útibú og símtöl eru um 1% snertinga viðskiptavina við bankann. Þessar tölur sýna að Íslendingar eru mjög svo tilbúnir til að tileinka sér nýjar leiðir í stafrænni þjónustu, hvort sem það á við þjónustu fjármálafyrirtækja eða hins opinbera.