Skip to content

Tekist á við stóru málin

Inngangur Höskuldar H. Ólafssonar, formanns stjórnar SFF, að ársriti samtakanna 2012.

Mörg stór mál hafa komið til kasta Samtaka fjármálafyrirtækja á liðnu starfsári. Samtökin hafa lagt sig fram um að vera virk í því starfi sem unnið hefur verið að mótun framtíðarskipunar fjármálakerfisins. Jafnframt hafa samtökin lagt mikla vinnu í að móta raunhæfar tillögur að afnámi gjaldeyrishafta og staðið fyrir viðamikilli úttekt á umfangi verðtryggingar í íslensku hagkerfi ásamt leit að umbótum á núverandi kerfi. Þannig hafa samtökin leitast við að koma með uppbyggilegum hætti að umræðu og vinnu við endurskoðun á starfsumhverfinu.

Framtíðarskipan fjármálakerfisins hefur verið í brennidepli allt frá því að efnahags-og viðskiptaráðherra gaf út skýrslu undir þeirri fyrirsögn síðastliðinn mars. Í framhaldinu tók til starfa sérfræðinganefnd sem fékk það hlutverk að kalla eftir umsögnum um efni skýrslunnar og vinna að tillögum að umbótum íslensks fjármálamarkaðar. SFF tóku virkan þátt í þessu ferli og sendu viðamikla umsögn um skýrslu ráðherra eftir að hafa staðið fyrir röð málstofa til að kalla eftir sjónarmiðum aðildarfélaganna um helstu álitaefni. Eitt af því sem sameinar sjónarmið ólíkra aðildarfélaga SFF í þessu er krafan um að stjórnvöld tryggi að íslenski fjármálamarkaðurinn búi við sambærilegar leikreglur og gilda á hinu Evrópska efnahagssvæði. Í raun eigum við engan annan kost í þeim efnum sé markmiðið að tryggja að hér sé samkeppnishæft fjármálakerfi sem er í stakk búið til að veita öflugum útflutnings- og þjónustufyrirtækjum jafnt sem heimilum nauðsynlega þjónustu á sama tíma og hlúð er að nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum. Enn frekar á það þó við þegar hafðar eru í huga hinar alþjóðlegu skuldbindingar Íslands gagnvart Evrópska efnahagssvæðinu.

Mikilvægt er að hafa í huga að sú þjónusta sem fjármálageirinn veitir er ein af grunnstoðum efnahaglífsins. Fjármálafyrirtækin á mismunandi sviðum hafa mikilvægu hlutverki að gegna í uppbyggingu og velferð íslensks atvinnulífs og samfélags. Án öflugrar greiðslumiðlunar, skilvirkrar miðlunar fjármagns, umbreytingar sparnaðar í fjárfestingu og dreifingar áhættu getur nútímalegt hagkerfi ekki þrifist og þar með ekki skapað þau lífskjör sem Íslendingar stefna að. Huga verður vel að jafnvægi milli skilvirkni og öryggis en eðlilega eru ríkar kröfur til beggja þessara þátta. Ofhlaðið regluverk eykur kostnað fjármálastarfsemi og sá kostnaður lendir á endanum á viðskiptavinum fjármálafyrirtækja. Hið sama á við skattheimtu og álögur. Þrátt fyrir að fjármálageirinn sé margfalt minni en hann var fyrir fjármálakreppuna skilar hann meiri tekjum í ríkissjóð í dag en hann gerði fyrir fimm árum. Ekkert lát virðist vera á þeim einbeitta vilja stjórnvalda að hækka álögur á fjármálageirann og lítið horft til þess að kostnaður heimila og fyrirtækja af fjármálaþjónustu eykst vegna þessa.

Gengið verður til þingkosninga næsta vor og teikn eru á lofti um að skuldamál heimila og það lánaumhverfi sem þau búa við verði eitt af hitamálum stjórnmálanna. SFF hafa undanfarin ár haldið utan um tölfræði um niðurfærslur skulda heimila. Frá stofnun nýju bankanna hafa skuldir heimilanna verið færðar niður um 200 milljarða vegna sértækra úrræða og endurreiknings gengistryggðra lána. Fjármálaeftirlitið telur að dómar Hæstaréttar á árinu vegna gengistryggðra lána muni kosta bankana um 120 milljarða. Gera má ráð fyrir því að í hita átaka á vettvangi stjórnmála á þessum vetri muni einstaka stjórnmálamenn og jafnvel stjórnmálaleg öfl telja það sér til framdráttar að hnýta í fjármálafyrirtækin af misjöfnu tilefni. Við getum ekki annað en vonað að umræddir gangi fram af sanngirni og ábyrgð. Fjármálafyrirtækin hafa ekki færst undan eða verið dragbítur en úrlausnarefnið er flókið og þurfa álitamál að fara í gegnum skilgreind ferli til að fram komi nauðsynleg niðurstaða.

Verðtrygging er umdeild og verður fyrirsjáanlega meira í umræðu næstu misserin. Í viðamikilli skýrslu um verðtryggingu í íslensku hagkerfi sem SFF gáfu út í september kemur meðal annars fram að stærsti eigandi verðtryggðra lána er Íbúðalánasjóður og stærstu kaupendur verðtryggðra skuldabréfa eru lífeyrissjóðirnir. Það er mikilvægt að halda þessu til haga, enda er sá misskilningur algengur að íslenskt bankakerfi hafi einhvern sérstakan hag af því að verðtryggingu sé beitt í jafn ríkum mæli og raun ber vitni. Eins og skýrt kemur fram í skýrslunni hafa bankar og sparisjóðir engan hag af því að veita verðtryggð útlán umfram breytileg nafnvaxtalán. Hagsmunir bankakerfisins felast fyrst og fremst í því að koma til móts við óskir og þarfir lántaka og veita honum hagstæð lán, sem hann getur greitt af. Bankakerfið hefur einmitt gert það á undanförnum árum með því að mæta þeirri aukningu sem hefur orðið á eftirspurn eftir óverðtryggðum húsnæðislánum.

Stærsta hagsmunamál íslensks efnahagslífs er vafalítið afnám gjaldeyrishafta. Sérfræðihópur á vegum SFF hefur starfað síðan í vor við að kortlegga aflandskrónuvandann og þróa lausnir á þeim vandamálum sem af honum hljótast svo hægt verði að afnema höftin. Hópurinn hefur ásamt stjórn SFF kynnt niðurstöður sínar ásamt tillögum að lausnum fyrir Seðlabanka Íslands, stjórnvöldum og atvinnulífinu. Þetta starf hefur meðal annars skilað þeim árangri að komin er meiri hreyfing á haftamálin og skilningur á nauðsyn þess að afnema höftin hið fyrsta hefur aukist.

Hér eru aðeins nefnd nokkur af þeim málum sem SFF hafa unnið að á þessu starfsári. Þessi mál eiga það sammerkt með þeim fjölda annarra mála sem samtökin hafa unnið að, að varða hagsmuni fjármálafyrirtækja og samfélagsins miklu.

Á þeim fjórum árum sem eru liðin frá því að fjármálakreppan skall á hefur miklu verið áorkað við endurreisn íslenska fjármálakerfisins. Þeirri endurreisn er að miklu leyti lokið og eftir stendur traust fjármálakerfi, sem er vel í stakk búið til að stuðla að og fjármagna uppbyggingu samfélagsins.

Það er ákaflega mikilvægt að stjórnvöld tryggi að fjármálafyrirtæki geti sinnt þessu mikilvæga hlutverki með því að skapa þeim sanngjarnt starfsumhverfi, sem grefur ekki undan heldur styður við þjónustu þeirra við heimilin og fyrirtækin í landinu.

Deila