Skip to content

Heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar fyrirtækja

Vísað er til frumvarps til laga um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar atvinnufyrirtækja, sem sent var Samtökum fjármálafyrirtækja (SFF) til umsagnar 19. maí. Markmiðið með frumvarpinu rímar við þau markmið sem aðildarfyrirtæki SFF hafa unnið að í viðbrögðum þeirra vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Í viðbrögðum aðildarfyrirtækja SFF hefur áhersla verið lögð á að fyrirtæki sem verða fyrir verulegum rekstrartruflunum vegna heimsfaraldursins komist í skjól með einföldum hætti á meðan óvissa ríkir um stöðu og framtíðarhorfur þeirra. Í því skyni áttu lánveitendur meðal annars frumkvæði að því að gera með sér samkomulag um tímabundna greiðslufresti á lánum fyrirtækja í mars síðastliðnum. Hátt á annað þúsund fyrirtækja hafa þegar fengið greiðslufresti á grundvelli þess samkomulags. Að mati SFF er mikilvægt að huga að samspili þeirra úrræða sem lögð eru til í frumvarpinu og annarra úrræða sem fyrirtækjum standa til boða í tengslum við faraldurinn. Áherslan ætti að mati SFF að beinast að því að veita fyrirtækjum tímabundið skjól þegar þess er þörf til að vinna úr þeim vanda sem faraldurinn hefur á rekstur þeirra og þar sem önnur úrræði duga ekki til. Með það í huga telur SFF m.a. óráðlegt að gera varanlegar breytingar á gjaldþrotaskiptalögum eins og lagt til með frumvarpinu.

Helstu athugasemdir SFF eru samandregnar sem hér segir:

A. Frumvarp til laga um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar

• Einfaldara og öruggara væri að greiðsluskjóli vegna kórónufaraldursins yrði komið á með bráðabirgðaákvæðum við lög um gjaldþrotaskipti.
• Tryggt þarf að vera aðstoðarmaður við fjárhagslega endurskipulagningu sé óháður, skipaður af og undir eftirliti héraðsdóms og sinni störfum sínum af hlutlægni.
• Skilyrði fyrir heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar þurfa að vera skýrari og afmarkaðri. Skýrt þarf að vera að fyrirtæki sem eiga að njóta úrræðanna hafi ekki verið í greiðsluerfiðleikum fyrir kórónufaraldurinn, séu í greiðsluerfiðleikum vegna faraldursins og að úrræðin séu líkleg til að leysa vanda þeirra. Hætt er við að fyrirtæki freistist til að nýta sér greiðsluskjól án þess að líkur séu á því að endurskipulagningin takist.
• Réttaráhrif greiðsluskjóls ættu að hefjast þegar héraðsdómur hefur samþykkt beiðni um heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar, en ekki frá og með móttöku héraðsóms á beiðninni. Girða þarf fyrir, eins og hægt er, að greiðsluskjól verði misnotað.
• Greiðsluskjól felur í sér hættu á fyrningu krafna. Kveða þarf á um breytingu á fyrningarlögum nr. 150/2007 þess efnis að fyrningarfrestur framlengist á meðan á greiðsluskjóli stendur.
• Huga þarf að samspili greiðsluskjóls og viðbótar- og stuðningslána með ríkisábyrgð vegna kórónuveirufaraldursins. Stöðvun innheimtu, frestun greiðslna og skilmálabreytingar skv. frumvarpinu mega ekki leiða til þess að ríkisábyrgð á þessum lánum falli niður eða að brotið verði gegn skilyrðum sem koma fram í lögum og samningum lánastofnana við Seðlabanka Íslands.
• Styrkja þarf rétt kröfuhafa varðandi ákvarðanir sem lagðar eru til í frumvarpinu. Feli ákvarðanir skv. 18. gr., 20. gr. og 21. gr. í sér að fallið sé frá dráttarvöxtum eða innheimtukostnaði eða frestað sé afborgunum af skuldum með samningsveði eiga kröfuhafar með samningsveð að hafa atkvæðisrétt um þær ákvarðanir.

B. Breytingar á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. (Réttaráhrif nauðasamninga)

• SFF eru eindregið þeirrar skoðunar að falla ætti frá tillögu um breytingar á lögum um gjaldþrotaskipti skv. 24. gr., þess efnis að lengja eða fresta greiðslum af skuldum með samningsveði um allt að þrjú ár.

Verulegar líkur eru á að veð muni rýrna og jafnvel ónýtast ef greiðslum verður frestað í samræmi við tillögur frumvarpsins. Ekki verður séð annað en að þar með væri brotið gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar.

Verður nú nánari grein gerð fyrir athugasemdum SFF í sérstökum undirköflum sem fylgja sömu röð og samandregnar athugasemdir hér að ofan.

1. Almennt um fyrirkomulag lagasetningar
Frumvarp það sem nú liggur fyrir Alþingi er um margt mjög yfirgripsmikið og tæknilegs eðlis. Mörg ákvæði þess kveða á um nýmæli sem sum hver fela í sér miklar breytingar á réttarstöðu skuldara og kröfuhafa. Í raun svo miklar að sérstaklega er rökstutt í athugsemdum frumvarpsins að tilteknar breytingar séu í samræmi við 72. gr. stjórnarskrárinnar og feli þar af leiðandi ekki í sér skerðingu óbeinna eignaréttinda veðkröfuhafa.

Augljóst má telja að reyna muni á þau úrræði og einstök ákvæði frumvarpsins verði það að lögum, bæði í framkvæmd og fyrir dómstólum. Það er að mati SFF umhugsunarefni að þeim úrræðum, sem ekki er gerður sérstakur ágreiningur um að séu mikilvægur liður í viðspyrnu íslensks efnahagslífs í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru, hafi ekki verið fundinn farvegur í núgildandi lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, s.s. með beinum lagabreytingum eða setningu bráðabirgðaákvæða. Ekki þarf að hafa mörg orð um að mjög hefur reynt á gjaldþrotaskiptalögin á undanförnum árum, bæði fyrir dómstólum og í framkvæmd.

Fjölmargir dómar hafa gengið um form og efni þeirra úrræða sem gjaldþrotaskiptalögin hafa að geyma og dýrmæt reynsla hefur myndast hjá þeim sem hafa starfað við skuldaskil íslenskra fyrirtækja undanfarin ár, hvort sem er hjá lögmannsstofum, endurskoðendum eða lánastofnunum. Í þessu samhengi athugast að í kjölfar efnahagshrunsins 2008 og þeirrar gjaldþrotahrinu sem því fylgdi var ekki ráðist í nýja lagasetningu vegna fyrirtækja, heldur var ákvæðum gjaldþrotaskiptalaga breytt til að mæta nýjum aðstæðum.

• Heppilegast væri að bæta tímabundinni heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar við ákvæði gjaldþrotaskiptalaga, enda liggur fyrir að úrræðið byggir í stórum dráttum á ákvæðum þeirra laga um greiðslustöðvun.

2. Um hlutverk og val á aðstoðarmanni í fjárhagslegri endurskipulagningu
Ljóst má vera að hlutverk aðstoðarmanns í fjárhagslegri endurskipulagningu verður viðurhlutamikið, verði frumvarpið að lögum. Þannig hefur aðstoðarmaður því hlutverki að gegna að boða lánardrottna á fund skuldara, taka saman sundurliðaða skrá um eignir og skuldir og leita eftir föngum afstöðu lánardrottna til ráðagerða skuldarans og tillagna þeirra, sbr. 8. gr. frumvarpsins. Þá hefur aðstoðarmaðurinn veigamiklu hlutverki að gegna við framlengingu á heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar, sbr. 9. og 10. gr. frumvarpsins og ber tilkynningarskyldu gagnvart lánardrottnum ef heimildin fellur niður, sbr. 11. og 12. gr. frumvarpsins.

Mikilvægasta hlutverk aðstoðarmannsins, að minnsta kosti frá sjónarhóli lánardrottna, er eftirlitshlutverk hans með skuldaranum. Þegar aðstoðarmaður tekur til starfa er það hans fyrsta verk að kanna hag skuldarans eftir föngum og sannreyna réttmæti þeirra upplýsinga sem hann hefur veitt við öflun heimildar til fjárhagslegrar endurskipulagningar. Í 13. gr. frumvarpsins felst að skuldara er almennt óheimilt að ráðstafa eignum sínum eða réttindum og stofna til skuldbindinga á hendur sér nema með samþykki aðstoðarmannsins, en frá því eru gerðar undantekningar í 14. og 15. gr. frumvarpsins, líkt og síðar verður vikið að. Þá fellur það í skaut aðstoðarmanns að hafa eftirlit með fjárreiðum skuldarans til að koma í veg fyrir hann brjóti gegn ráðstöfunarbanninu.

Af framangreindu er ljóst að það varðar lánardrottna miklu hver fæst til starfs aðstoðarmanns með fjárhagslegri endurskipulagningu. Rétt er að hafa í huga að þóknun aðstoðarmannsins er væntanlega að stórum hluta greidd með óbeinum hætti af lánardrottnum hans, enda kveður 3. tl. 2. mgr. 14. gr. frumvarpsins á um að greiðsla þóknunar umsjónarmanns (á væntanlega að vera aðstoðarmanns) teljist til nauðsynlegs þáttar í daglegum rekstri eða endurskipulagningu. Þar með ganga greiðslur til aðstoðarmanns framar greiðslum til lánardrottna almennt, sem á sama tíma er meinað að beita samningsákvæðum eða réttareglum um afleiðingar vanefnda, sbr. 16. gr. frumvarpsins.

• Sökum þessa er skipun aðstoðarmanns við fjárhagslega endurskipulagningu langt frá því að vera einkamál skuldara. Ef ætlun löggjafans er sú að lánardrottnar hafi enga aðkomu að skipun
aðstoðarmannsins er eðlilegt að gera þá kröfu að aðstoðarmaðurinn njóti algjörs óhæðis frá skuldaranum og sjálfstæði hans sé tryggt, s.s. með dómstólaskipun.
• Þá liggur í augum uppi að skýr ákvæði verða að gilda um þóknun aðstoðarmanns með vísan til framangreinds. Í frumvarpinu er til samanburðar fjallað nokkuð ítarlega um þóknun
umsjónarmanns með nauðasamningum, sem ákveðin skal sem tímagjald eftir reglum dómstólasýslunnar.
• Þá telja SFF eðlilegt að aðstoðarmenn við fjárhagslega endurskipulagningu í nauðasamningum eigi að teljist opinberir sýslunarmenn á meðan þeir gegna starfanum og að um ábyrgð þeirra gildi sömu reglur og um ábyrgð skiptastjóra, sbr. 3. og 4. mgr. 77. gr. laga um gjaldþrotaskipti.
• Er því lagt til að um skipun aðstoðarmanns, hæfi hans, þóknun og ábyrgð gildi sömu reglur og gilda nú þegar um skiptastjóra og kveðið er á um 19. gr. frumvarpsins að nái til umsjónarmanns með nauðasamningsumleitunum. Með þessu er tekið lágmarkstillit til þess að lánardrottnar bera stóran, ef ekki stærsta, hluta kostnaðar sem af störfum aðstoðarmanns við fjárhagslega endurskipulagningu hlýst.

Vakin er athygli á að minni kröfur eru gerðar til aðstoðarmanna skv. frumvarpinu en gert er í kafla gjaldþrotaskiptalaga um greiðslustöðvun þó verkefni aðstoðarmanna skv. frumvarpinu séu síst minni. Þannig er ekki gerð krafa um óhæði aðstoðarmanna, sbr. 3. mgr. 10. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Þá er ekki gerð krafa um að héraðsdómari leggi mat á hæfi aðstoðarmanns við mat á umsókn um fjárhagslega endurskipulagningu, sbr. 2. mgr. 11. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Loks er ekki fjallað um vanhæfi aðstoðarmanns sbr. 8. tl. 2. mgr. 12. gr. gjaldþrotaskiptalaga.

Almennt virðist ástæða til þess að skerpa á ákvæðum frumvarpsins til þess að stuðla að því að jafnræði sé milli kröfuhafa og skuldara, þannig að eðlilegt tillit sé tekið til hagsmuna beggja. Æskilegt væri að kveða á um að aðstoðarmaður, umsjónarmaður og dómstólar gæti að því að svo verði.

3. Skilyrði fyrir heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar skv. frumvarpinu.
Í 1. og 2. gr. frumvarpsins er ekki gert að skilyrði fyrir heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar og þar með greiðsluskjóli að skuldari hafi ekki verið í vanskilum á tilteknum tímapunkti áður en áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru fór að gæta hér á landi. Almennt hefur svo verið gert í þeim úrræðum sem stjórnvöld hafa gripið til vegna faraldursins. Ekki er heldur gert að skilyrði fyrir heimildinni að félag hafi verið rekstrarhæft fyrir heimsfaraldurinn eða að líkur séu á að það verði rekstrarhæft að honum loknum. Hætt er við að fyrirtæki nýti sér úrræðið og komist í greiðsluskjól án þess að líkur séu á því að endurskipulagningin muni þjóna tilgangi.

• SFF telja að skilyrði fyrir því að heimild verði veitt þurfi að vera skýrari. Taka þarf fram með meira afgerandi og skýrari hætti í 2. gr. að um fjárhagserfiðleika í kjölfar kórónufaraldursins sé að ræða til þess að skuldari eigi rétt á heimildinni og til þess að beiðni verði samþykkt.

Í 5. tl. 2. gr. frumvarpsins koma fram eftirfarandi skilyrði fyrir heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar:
„Samanlagður áætlaður rekstrarkostnaður og skuldir hans sem falla í gjalddaga á næstu tveimur árum séu meiri en heildarfjárhæð andvirðis peningaeignar hans, innstæðna, verðbréfa og krafna á hendur öðrum.“
Efnislega þýðir þetta að ef lausafé og kröfur skuldara (umsækjanda) eru minni en rekstrarkostnaður og afborganir næstu tveggja ára eigi hann að öðrum skilyrðum uppfylltum að fá heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar skv. frumvarpinu. Ef rétt er skilið er hér um mjög væga kröfu að ræða. Fá fyrirtæki eiga lausafé og kröfur að þessu marki. Þá kemur ekki fram á hvaða tímamarki eigi að uppfylla þetta skilyrði. Er það við umsókn heimildar eða síðustu áramót svo dæmi sé tekið? Staða lögaðila hefur breyst hratt undanfarna mánuði vegna hratt versnandi efnahagsástands.

Þá er að mati SFF nauðsynlegt að fram komi í 2. gr. frumvarpsins að lögaðili/umsækjandi sé kominn í greiðsluvanda sem m.a. birtist í vanskilum við lánadrottna og að þau vanskil séu til komin vegna lækkunar heildartekna sökum heimsfaraldursins.

4. Málsmeðferð umsókna og upphaf réttaráhrifa greiðsluskjóls
Búast má við að fyrirtæki muni nýta sér úrræði frumvarpsins (greiðsluskjól og einfalda nauðasamningsumleitan) í verulegum mæli sem muni skapa álag á dómstóla og þar af leiðandi tafir á
afgreiðslu, m.a. beiðni um heimild til að nýta úrræðið. Því þarf að vera tryggt að óafgreiddar beiðnir safnist ekki upp hjá dómstólum.

Samkvæmt 6. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að skuldari muni njóta greiðsluskjóls frá og með móttöku héraðsdóms á beiðni um heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar. Hætt er við að fyrirtæki nýti sér úrræðið til að komast í skjól án þess að líkur séu á því að endurskipulagningin takist.

• Æskilegra og eðlilegra er að réttaráhrifin hefjist þegar héraðsdómur hefur samþykkt beiðnina, eins og gildir um beiðnir um greiðslustöðvun skv. gjaldþrotaskiptalögunum. Í þessu samhengi ber að líta til þess að engin sérstök tímamörk eru sett í frumvarpinu á afgreiðslu héraðsdóms umsóknum fjárhagslega endurskipulagningu.
• Bæta ætti við í 4. tl. 1. mgr. 4. gr. að aðstoðarmaður staðfesti að skuldari sé hvorki á vanskilaskrá né í vanskilum vegna skulda sem féllu í gjalddaga fyrir áhrif kórónufaraldursins.
• Ástæða er til að bæta inn í 7. gr. að héraðsdómari synji um beiðni um heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar ef bersýnilega er ljóst að endurskipulagning mun ekki ná fram að ganga vegna alvarlegra greiðsluerfiðleika sem voru til staðar fyrir kórónufaraldurinn. Þá ætti að bæta við sambærilegum ákvæðum og koma fram í 4. og 5. tl. 1. mgr. 12. gr. 21/1991 vegna slíkra tilvika.

5. Greiðsluskjól felur í sér hættu á fyrningu krafna
Greiðsluskjól, sem lagt er til að skuldari njóti á meðan unnið er að fjárhagslegri endurskipulagningu, felur í sér stöðvun á innheimtu- og fullnustuaðgerðum. Á meðan greiðsluskjól varir geta kröfuhafar því ekki slitið fyrningu krafna skv. IV. kafla laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007. Greiðsluskjól felur þannig í sér hættu á að kröfur fyrnist. Því er nauðsynlegt að kveða í frumvarpinu á um breytingu á lögum nr. 150/2007 sem kemur í veg fyrir þetta, t.d. þess efnis að fyrningarfrestur framlengist á meðan á greiðsluskjóli stendur.

6. Samverkan fjárhagslegrar endurskipulagningar og viðbótar- og stuðningslána
Í 6. og 16. gr. er fjallað um réttaráhrif annars vegar þess að send er beiðni um heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar (6. gr.) og hins vegar vegna heimildar til endurskipulagningar, m.a. að því er varðar innheimtu- og fullnustuaðgerðir. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að innheimtuaðgerðir stöðvist á meðan greiðsluskjól varir, sbr. einnig 16. gr. frumvarpsins. Ekki er ljóst hvort þetta nær til birtingar stefnu í innheimtumáli, en við það tímamark miðast virkjun ríkisábyrgðar á viðbótarlán (og væntanlega einnig á stuðningslán). Ríkisábyrgðir vegna þessara lána eru einfaldar ábyrgðir. Nauðsynlegt er að fá fram skýrar reglur um samspil þessara úrræða (þ.e. fjárhagslegrar endurskipulagningar annars vegar og viðbótarlána og stuðningslána hins vegar) til þess að koma í veg fyrir að ríkisábyrgðin falli niður en hún er tímabundin a.m.k. hvað viðbótarlánin áhrærir. Þá verður ekki gert árangurslaust fjárnám á meðan greiðsluskjól varir, en við það tímamark miðast einnig virkjun á greiðsluskyldu skv. ríkisábyrgðinni.

• SFF telja því mikilvægt að skýra stöðu lána með einfalda ríkisábyrgð í því ferli sem gert er ráð fyrir
með frumvarpinu.

Þá er fyrirséð að lán sem lánastofnun hefur veitt með ríkisábyrgð myndi falla undir nauðasamning. Nauðasamningur gæti, að öðru óbreyttu, kveðið á um önnur skilyrði um endurgreiðslutíma en heimilt er fyrir stuðningslán (30 mánuðir, sbr. 13. gr. laga um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru) og fyrir viðbótarlán (30 mánaða ríkisábyrgð, skv. samningum lánastofnana við Seðlabanka Íslands).

7. Um einfaldan nauðasamning skv. 20. gr.
Einfaldari gerð nauðasamnings skv. 20. gr. frumvarpsins getur tekið til niðurfellingar dráttarvaxta og innheimtukostnaðar, gjaldfrests eða frestun á gjalddaga skulda (í allt að 3 ár), brottfalls eftirstæðra krafna, sem og breytinga á gjalddögum veðkrafna. Ekki þarf meira til að koma en samþykki skipaðs umsjónarmanns og staðfesting héraðsdóms þar sem ekki er gert ráð fyrir atkvæðagreiðslu kröfuhafa um frumvarp til nauðasamnings. Í kjölfarið verður skuldari að krefjast staðfestingar á slíkum nauðasamningi fyrir héraðsdómi eftir almennum reglum gjaldþrotaskiptalaga. Engin sérstök rök eru fram færð fyrir því að kröfuhafar hafi ekki heimild til þess að taka afstöðu, með atkvæðagreiðslu, til frumvarps um nauðasamning
samkvæmt þessari grein. Ólíklegt er að slík atkvæðagreiðsla yrði til þess að tefja ferlið verulega auk þess sem lokamálsliður greinarinnar tryggir að greiðsluskjól helst þangað til héraðsdómur hefur fjallað um frumvarpið. Hætt er við að sjónarmið og hagsmunir kröfuhafa verði annars fyrir borð bornir í þessu ferli þar sem ekki er krafist atkvæðagreiðslu.

• Að mati SFF þarf að útfæra leið fyrir kröfuhafa til að koma með skýrari hætti að þessu ferli og hafa áhrif á samþykki einfalds nauðasamnings. Slíkt gæti jafnframt orðið til þess að létta álagið á dómstólum við staðfestingu nauðasamnings sem er annars eina leiðin fyrir kröfuhafa til að koma á framfæri mótmælum við samningi.

Heimildin skv. 20. gr. felur m.a. í sér möguleika til að fresta greiðslum í allt að 3 ár. Þessi heimild, sem nær m.a. til krafna sem tryggðar eru með veði eða öðrum tryggingarréttingum, er án aðkomu og án samþykkis lánadrottna. Tryggingar geta verið í veltufjármunum, birgðum, kröfum, lausafé eða bifreiðum, sem þola ekki 3 ára frestun greiðslna, þar sem veðið rýrnar hratt í verði. Bílaleigur gætu t.d. fallið undir gildissvið laganna þar sem ekkert svigrúm er til þess að fresta greiðslum í 3 ár. Þetta getur leitt til skerðingar á eignarréttindum kröfuhafa.

• Ef ætlunin er að binda þessa heimild við lán tryggð með fasteignaveði þarf það að koma fram með skýrari hætti.

Ekki er ljóst við hvern er átt þegar rætt eru um umsjónarmann í 2. mgr. 18. greinar.

Til greina kemur að áskilja að aðstoðarmaður komi að öllum frjálsum nauðasamningum, ekki einungis þegar aðilar óska þess sérstaklega. Þá er tryggt að aðstoðarmaður hafi ávallt greinargóðar upplýsingarum framvindu slíkra samninga.

8. Varanlegar breytingar á gjaldþrotaskiptalögum
Í 24. gr. eru lagðar til mjög afdrifaríkar breytingar á lögum nr. 21/1991 varðandi nauðasamninga. Tillaga að nýrri 31. gr. a. felur í sér heimild til að kveða á um í nauðasamningi að greiðslum af skuldum með samningsveði megi fresta í allt að 3 ár að hluta eða öllu leyti. Samkvæmt tillögu að nýrri 5. mgr. 33. gr. fer lánadrottinn ekki með atkvæðarétt um nauðasamning nema að hann afsali sér tryggingaréttindum vegna kröfu sinnar.

Með 20. gr. og 24. gr. frumvarpsins eru veðhafar settir í þá stöðu að fjármagna nauðasamning til hagsbóta fyrir almenna kröfuhafa. Hér er hart gengið að eignarrétti kröfuhafa. Mótstaða Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og krafa sjóðsins um að veðhafar fái a.m.k. að kjósa um nauðasamninginn á enn við hvað þetta varðar. Nauðsynlegt er að íhuga vandlega hvort gera eigi þessar breytingar í ljósi eignarréttar kröfuhafa og hvort slíkar breytingar samræmist stjórnarskrá.

Í kafla 3.2 í greinargerð með frumvarpinu er vísað til þess að frestun greiðslna muni aðeins hafa ,,tímabundin áhrif á veðkröfu og myndi hvorki rýra veðtryggingu né skerða fjárhæð kröfu“. Hér virðast fyrst og fremst höfð í huga fasteignaveð. Þetta gildir ekki um margvísleg önnur veð svo sem vörubirgðir, lausafjármuni eða útistandandi kröfur sem geta rýrnað hratt í virði á stuttum tíma. Verulegar líkur eru á að slík veð muni rýrna og jafnvel ónýtast ef greiðslum verður frestað í samræmi við tillögur frumvarpsins. Ekki verður annað séð en að ákvæðið sé ósamrýmanlegt eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og verði frumvarpið að lögum er viðbúið að samningsveðhafar muni láta reyna á stjórnskipulegt gildi laganna hvað þetta varðar.

Þá virðist gengið út frá því að kröfuhafar hafi almennt bolmagn til þess að veita allt 3 ára gjaldfrest á veðkröfum sem þeir eiga. Þó slíkt eigi að einhverju marki við um viðskiptabanka sem aðgang hafa að lánsfé frá Seðlabanka Íslands á það alls ekki við um fjölmarga aðra veðkröfuhafa t.d. einstaklinga, fyrirtæki, kortafyrirtæki, verðbréfasjóði og lífeyrissjóði. Þetta ákvæði er líklegt að leiða til þess að greiðsluerfiðleikar smitist frá einu fyrirtæki til annars.

Þá virðist heldur ekki fyllilega hugsað til annarra aðila á markaði. Má hér t.d. nefna sjóði sem eru oftar en ekki lánveitendur. Þeir eru flestir með fyrirfram skilgreindan líftíma og því búið að ákveða hvenær þeim skuli slitið. Á eignahlið veðskuldabréfasjóða er að finna veðið og á skuldahliðinni er að finna skuldabréf sem á að endurspegla greiðsluflæðið. Ef líftími eignarhliðarinnar lengist umfram líftíma skuldahliðarinnar skapar þar mikinn vanda gagnvart sjóðunum sjálfum og einnig gagnvart hlutdeildarskírteinishöfum.

Þá er rétt að benda á að lánveitendur sitja ekki allir við sama borð þegar kemur að aðgengi að lausafé frá Seðlabanka Íslands og dæmi um að lánafyrirtæki fá lítið sem ekkert lánsfé frá Seðlabankanum. Í 4. mgr. 60. gr. gjaldþrotaskiptalaganna segir: „ Að því leyti sem lánardrottinn, sem hefur samningsveð fyrir kröfu sinni í eign skuldarans, hefur ekki afsalað sér tryggingarréttindunum skv. 2. mgr. 28. gr. getur lánardrottinn á engu stigi eftir staðfestingu nauðasamnings leitað fullnustu fyrir kröfunni gagnvart
skuldaranum á annan hátt en með því að ganga að þeirri eign.“

Það er ekki að sjá annað en að þessi áhrif myndu eiga við um veðkröfur eftir greiðslufrest skv. nauðasamningi og lengingu lánstíma.

Samningsveðkröfuhafar eru þannig þvingaðir í það að gefa gjaldfrest og lengja lánstíma, en á sama tíma glata þeir kröfuréttindum umfram veðréttinn. Á meðan greiðslufrestinum varir er svo hætta og líkur á því að tryggingin geti rýrnað í verði sé um annað en fasteignir að ræða. Það getur varla dulist að með þessu er harðlega gengið að eignarétti kröfuhafa.

Að mati SFF er ástæðulaust að gera ofangreindar breytingar að þessu sinni og full ástæða til þess að gefa sér lengri tíma til að skoða þetta mál. Með 1. og 2. mgr. 20. gr. er veitt tímabundin heimild til þess að fresta greiðslum skulda í allt að 3 ár, þar með töldum skuldum með samningsveði. Með því er reynt að bregðast við þeim vanda sem nú blasir við vegna heimsfaraldursins. Skoða þarf mun betur hvaða áhrif þessar breytingar muni hafa ef þær verða gerðar varanlegar, m.a. hvaða áhrif þær muni hafa á greiðsluhegðun, vexti á veðlánum, og hvernig fyrirkomulag þessara álitaefna er í nágrannalöndum, ekki síst á Norðurlöndum.

Að mati SFF fer því fjarri að þær tímabundnu aðstæður sem nú eru uppi í íslensku atvinnulífi kalli á jafn róttækar og afdrifaríkar breytingar á stöðu og réttindum kröfuhafa í tengslum við nauðasamninga og gerðar eru með 24. gr. frumvarpsins. Ekkert tilefni er til varanlegra breytinga á stöðu og réttindum veðkröfuhafa nú. Það er varhugavert að leggjast í slíkar breytingar án þess að framkvæma nákvæma greiningu á þörfum fyrir slíka lagasetningu og afleiðingum hennar. Þannig þyrfti t.d. að greina veðsöfn fjármálafyrirtækja m.t.t. rýrnunar og setja í samhengi við tímalengd úrræða. Af fyrirliggjandi frumvarpi er ljóst að slík vinna hefur ekki farið fram, heldur virðist fremur gengið út frá því að allir samningsveðhafar njóti veðs í fasteignum skuldara.

Að auki verður að setja fyrirhugaða lagasetningu í samhengi við önnur úrræði vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Að mati SFF er það hlutverk löggjafans og stjórnvalda að stefna að fyrirframskilgreindum, afmörkuðum markmiðum sem fela í sér bein viðbrögð við efnahagslegum afleiðingum heimsfaraldurs kórónuveiru. Skattalagabreytingar, viðbótarlán, stuðningslán minni fyrirtækja og tímabundið greiðsluskjól eru dæmi um aðgerðir sem rúmast innan slíks ramma, en að mati SFF falla varanlegar breytingar á stöðu samningsveðhafa við nauðasamning, sem áhöld eru um hvort standist 72. gr. stjórnarskrárinnar, utan slíks ramma.

Virðingarfyllst,
f.h. Samtaka fjármálafyrirtækja,
Yngvi Örn Kristinsson

Athugasemdir við frumvarp til laga um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar
endurskipulagningar atvinnufyrirtækja, mál 814, 150. löggjafarþing

Deila