Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til nýrra laga um vátryggingastarfsemi. Frumvarpið byggir á Solvency II tilskipun Evrópusambandsins. Solvency II er ein af fjölmörgum tilskipunum sem hafa verið innleiddar á evrópskum fjármálamarkaði á undanförnum árum sem er ætlað að treysta stöðu neytenda og efla fjármálastöðugleika. Eins og nafn tilskipunarinnar gefur til kynna felur hún í sér endurskoðun á reglum um gjaldþol vátryggingafélaga og er markmiðið að gera þær áhættumiðaðari. Önnur markmið tilskipunarinnar eru að samræma lagaumhverfi vátryggingafélaga á Evrópska efnahagssvæðinu, bæta neytendavernd og tryggja fjárhagslegan stöðugleika. Evrópulönd og Evrópusambandið hafa verið leiðandi í heiminum í að þróun vátryggingaeftirlits og regluverk íslensks vátryggingamarkaðar byggir á þeim grunni.
Gjaldþol er það fjármagn sem vátryggingafélag þarf að hafa tiltækt til að mæta óvæntum áföllum sem ekki er gert ráð fyrir í vátryggingaskuld þess. Gjaldþol er í raun allt það eigið fé sem uppfyllir ákveðin skilyrði um aðgengileika. Áhættumiðaðar gjaldþolskröfur fela í sér að áhættusækni og áhættustýring vátryggingafélaga endurspeglast í gjaldþolskröfunni.
Með breyttri löggjöf mun gjaldþolskrafa vátryggingafélaga taka til fleiri þátta en áður. Þetta mun leiða til töluverðrar hækkunar á gjaldþolskröfu vátryggingafélaga. Til að bregðast við því munu þau þurfa að binda meira eigið fé í reksturinn. Íslensku vátryggingafélögin eru vel í stakk búin til að takast á við þetta enda eiginfjárstaða þeirra góð og gjaldþolshlutfall þeirra sterkt. Ekki er þó hægt að mæta öllum mögulegum áföllum með auknu fjármagni og því er í löggjöfinni einnig lögð áhersla á bætta og traustari stjórnarhætti og áhættustýringu, og aukna upplýsingagjöf til eftirlitsaðila og fjárfesta.
Í umræðu um Solvency II hefur komið fram gagnrýni á það að vátryggingaskuld félaganna muni lækka vegna breytinganna og hefur oft verið vísað til hugtaksins „bótasjóðs“ í því samhengi. Rétt er að taka það fram að bótasjóðir hafa ekki verið til í vátryggingarekstri frá árinu 1994. Þá var með lagabreytingu hugtakinu skipt út fyrir hugtakið vátryggingaskuld. Í einhverjum tilvikum getur vátryggingaskuld félaga lækkað með nýju reglunum, en á sama tíma eru kröfur til gjaldþols hertar til muna. Hefur FME m.a. birt töflu sem sýnir hvernig lögboðnar kröfur aukast við innleiðingu Solvency II.
Í stuttu máli er vátryggingaskuld félags skuldbindingar vátryggingafélags vegna vátryggingasamninga og eru aðferðir við útreikning á vátryggingaskuld samræmdar á EES-svæðinu og í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla. Solvency II felur í sér íhaldssamari nálgun en áður á því hvernig tryggingafélög leggja til hliðar eignir og eigið fé til þess að geta staðið í skilum á vátryggingaskuld. Reglur og leiðbeiningar Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar (EIOPA) á Solvency II-reglunum eru með þeim hætti að ógjörningur er fyrir vátryggingafélög að greiða út arð ef það stenst ekki reglur tilskipunarinnar um lágmarksfjármagnsþörf.
Helsta gagnrýnin sem tilskipunin hefur fengið á sig lýtur að því hvaða áhrif hún kann að hafa á virkni annarra fjármálamarkaða meðal annars vegna þess að reglurnar kunni að ofmeta áhættuna af langtímafjárfestingum tryggingafélaga. Einnig má í þessu samhengi benda á umfjöllun Evrópska seðlabankans um tilskipunina en í skýrslu hans má meðal annars finna umfjöllun um áhrif innleiðingar hennar á fjármálageirann í heild sinni. Þrátt fyrir að skýrslan telji áhrif af Solvency II vera jákvæð í það heila er bent á að innleiðing tilskipunarinnar geti haft neikvæð áhrif í einhverjum tilfellum. Þannig er nefnt að tilskipunin gæti leitt til þess að tryggingafélög hverfi af vettvangi sem hefðbundinn mótaðili banka í viðskiptum sem gæti svo aukið áhættu á fjármálamörkuðum. Þá gæti Solvency II að mati sérfræðinga ECB aukið kerfislæga áhættu leiði tilskipunin til aukinna krosseignatengsla á fjármálagerningum útgefnum af tryggingafélögum annars vegar og bönkum annars vegar.