Drögin að frumvarpi til breytinga á lögum um skráningu og mat fasteigna snúast um að byggja frekar undir tilvist nýrrar mannvirkjaskrár hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Verkefnið er hluti af stærra viðfangsefni sem lýtur að því að til verði áreiðanlegar rauntímaupplýsingar um mannvirkjagerð, tegundir fasteigna, notkunarsvið og stöðuna á húsnæðismarkaði með rekstri nútímalegra gagnagrunna. Um leið og SFF fagna því að fyrsta skref hefur verið tekið í þróun mannvirkjaskrár og þakka fyrir að fá tækifæri til að koma að verkefninu vilja samtökin benda á að frekari lagabreytinga er þörf í tengslum við mannvirki, fasteignir og „húseignir“ eins og þær eru kallaðar skv. lögum um brunatryggingar nr. 48/1994. Með umsögninni minna samtökin á að þörf er á endurskoðun laga um brunatryggingar samhliða annarri löggjöf sem snýr að þróun og uppbyggingu mannvirkjaskrár.