Skip to content

Umsögn um frumvarp til fjáraukalaga

Vísað er til óskar nefndarinnar um umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja um ofangreint mál.
Umsögn SFF lýtur eingöngu að því ákvæði frumvarpsins sem heimilar ríkissjóði „að leita samninga við
Seðlabanka Íslands um að bankinn veiti fyrirgreiðslu til að auðvelda viðbótarlán lánastofnana til fyrirtækja,
sem orðið hafa fyrir verulegu tekjutapi vegna heimsfaraldurs kórónaveiru“ eins segir í frumvarpinu.
Tilgangur þessa er eins og kemur fram greinargerð með frumvarpinu að „auka möguleika fyrirtækja í
tímabundnum vanda til að afla sér tímabundins lausafjár með því móti að ríkissjóður ábyrgist helming
slíkrar viðbótarlántöku“.Samtök fjármálafyrirtækja eru fylgjandi samþykkt þessara ákvæða.

SFF vilja vekja athygli nefndarinnar á nokkrum atriðum sem hún ætti að skoða nánar áður málð er afgreitt frá Alþingi.

1. Samkvæmt frumvarpinu getur hámarkshlutfall ábyrgðar Seðlabanka Íslands verið 50% af
viðbótarrekstrarláni til fyrirtækis. Nágrannalönd okkar hafa verið að bregðast við sama vanda þó
útfærslur séu mismunandi. Flestar þær útfærslur eru þó með hærri hlutdeild ríkisábyrgðar á
viðbótarrekstrarlánum en hér er gert ráð fyrir. Þannig miðar Noregur við 70% og mörg ríki eru
með enn hærra hlutfall, t.d. Frakkland 90%. Í sumum löndum eru viðbótarrekstrarlán alfarið á
vegum ríkisaðila. Aðstæður hér á landi, ekki síst dómaframkvæmd varðandi umboðssvik, gerir það
að verkum að lánastofnanir hér á landi þurfa að vera varfærnari í lánveitingum en lánastofnanir í
nágrannalöndum. Aðalatriðið er að viðbótarrekstrarlán séu almennt veitt til fyrirtækja sem eru í
tímabundnum lausafjárvanda vegna heimsfaraldursins. Skoða þarf hvort 50% þátttaka ríkis
(Seðlabanka) á ábyrgð rekstrarláns tryggi að svo sé.

2. Í frumvarpinu er lagt til grundvallar að tekjumissir fyrirtækja milli ára sé 40% eða meira til þess að
Seðlabanka sé heimilt að ábyrgjast viðbótarekstrarlán. Afgreiðsla viðbótarrekstrarlána mun hefjast
strax á næstu vikum. Á þeim tímapunkti mun ekki liggja fyrir hver verður tekjumissir milli áranna
2019 og 2020. Engin leið er til þess að leggja hlutlægt eða öruggt mat á það í flestum tilvikum hver
verður tekjumissir fyrirtækja. Einfaldara virðist að miða hvert tekjufall á næstum mánuðum verður
í samanburði sömu mánuði á árinu 2019. Nærtækara er að hægt sé að áætla það. Hugsanlega
mætti nota sömu eða hliðstæð viðmið um tekjufall og notuð eru í „bandormi“ þegar verið er að
ákvarða hvort fyrirtæki uppfylli skilyrði til frestunar á greiðslum opinberra gjalda. Þá myndi einnig
vera ráðlegt að miða við sama hlutfall tekjumissis í báðum frumvörpum (33%). Erfitt gæti reynst
að skýra fyrir fyrirtækjum af hverju þessi viðmið eru mismunandi.

Umsögn send fjárlaganefnd Alþingis af Yngva Erni Kristinssyni, hagfræðingi SFF

Deila