Skip to content

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (staðgreiðsla, álagning o.fl.)

SFF hafa tekið framangreint frumvarp til skoðunar. Af því tilefni vilja samtökin koma eftirfarandi sjónarmiðum á framfæri við efnahags- og viðskiptanefnd í tengslum við 14. og 15. gr. frumvarpsins. SFF fagna þessari tillögu og telja hana til þess fallna að greiða fyrir viðskiptum með íslensk hlutabréf. Hins vegar telja samtökin að það þurfi að breyta lögum enn frekar til þess að ná þessu markmiði. 

Staðgreiðslu af söluhagnaði af íslenskum hlutabréfum og stofnbréfum 

Í 14. og 15. gr. frumvarpsins er  lögð til breyting á orðalagi 6. tölul. 5. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, þannig að greiðslur til aðila sem bera takmarkaða skattskyldu sæti ekki staðgreiðslu af söluhagnaði af íslenskum hlutabréfum og stofnbréfum.  

Í þessu sambandi þarf að hafa í huga að það eru alþjóðleg greiðslumiðlunarfyrirtæki sem sjá um greiðslumiðlun í tengslum við viðskipti með hlutabréf íslenskra útgefenda fyrir hönd  milligönguaðila. Í dag eru tvö greiðslumiðlunarfyrirtæki leiðandi á þessum markaði í Evrópu, þ.e. Clearstream og Euroclear. Til þess að hlutabréf séu seljanleg á alþjóðamarkaði verða þau að vera til umsýslu hjá alþjóðlegu greiðslumiðlunarfyrirtæki. Bæði Íslendingar og aðilar með takmarkaða skattskyldu geta átt viðskipti með íslensk hlutabréf sem skráð eru í erlendar kauphallir og hafa þessi alþjóðlegu greiðslumiðlunarfyrirtæki haft milligöngu um uppgjör á þessum bréfum. Hafni þessi fyrirtæki að annast umsýslu bréfanna lokast aðgangur hlutafélaganna að erlendum hlutabréfamörkuðum. Borið hefur á því að þau hafi hafnað að taka íslensk hlutabréf í vörslu fyrir íslensk fjármálafyrirtæki þar sem þau telja ómögulegt að uppfylla skilyrði 2. mgr. 92. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt um upplýsinga– og skýrslugjöf um söluhagnað. Ástæða þess er m.a. uppsetning vörslureikninga hjá erlendum vörsluaðilum (svokallaðir Omnibus reikningar) að margir eigendur eru skráðir á sama vörslureikninginn og ekki er hægt að sundurgreina verðbréfasafnið eftir eigendum.   

SFF  benda á að í dag er markaðurinn þannig, að annars vegar eru íslensk félög sem gefa eingöngu út hlutabréf í íslenskri kauphöll, eins og t.d. Icelandair Group hf., og hins vegar eru íslensk félög sem gefa út hlutabréf í íslenskri og erlendri kauphöll, eins og t.d. Marel hf. og Arion banki hf. Í dag er framkvæmdin þannig að ef viðskipti innlendra og erlendra aðila með bréf sem eingöngu eru gefin út í innlendri verðbréfamiðstöð (t.d. Icelandair Group hf.) fara fram í gegnum íslenskt fjármálafyrirtæki (uppgjör fer fram á Íslandi) þá dregur íslenska fjármálafyrirtækið af staðgreiðslu af söluhagnaði í tilviki erlendu aðilanna og skilar upplýsingum um viðskiptin til skattyfirvalda 

Ef um er að ræða viðskipti innlendra og erlendra aðila með bréf sem gefin eru út í innlendri og erlendri verðbréfamiðstöð (t.d. Marel hf. í EUR) og þau viðskipti fara fram í gegnum íslenskt fjármálafyrirtæki (uppgjör fer fram á Íslandi) þá dregur íslenska fjármálafyrirtækið af staðgreiðslu af söluhagnaði í tilviki erlendu aðilanna og skilar upplýsingum um viðskiptin til skattyfirvalda. 

Ef hins vegar viðskipti  innlendu og erlendu aðilanna fara fram í gegnum erlendan banka (uppgjör fer fram erlendis bæði t.d. Icelandair hf. og Marel hf.sem varslar þau svo hjá hinum alþjóðlegu greiðslumiðlunarfyrirtækjum þá er hætta á, samkvæmt áliti Clearstream í umsögn um þetta lagafrumvarp, að bæði afdráttur staðgreiðslu og upplýsingarskyldu til skattyfirvalda sé ekki sinnt þar sem alþjóðlegu greiðslumiðlunarfyrirtækjunum er bæði ómögulegt að draga af skattinn og skila réttum upplýsingum þar sem þau hafa ekki nægilegar upplýsingar hjá sér. Rétt er að benda á að íslensk hlutabréf (bæði t.d. Icelandair hf. og Marel hf.) eru læst í dag þegar þau eru í vörslu t.d. Clearstream, m.ö.o. eigendur eru fastir með bréfin vegna framangreinds ómöguleika. 

Ljóst er að þó svo staðgreiðsluskyldan verði felld niður þá hvílir enn skylda á alþjóðlegu greiðslumiðlunarfyrirtækjunum að skila upplýsingum um viðskipti með íslensk hlutabréf til ríkisskattstjóra til forskráningar á skattframtöl samkvæmt 2. mgr. 92. gr. tekjuskattslaganna. Eins og rakið hefur verið búa fyrirtækin ekki yfir þessum upplýsingum. Það eru einungis íslensku fjármálafyrirtækin sem hafa þessar upplýsingar og er því lagt til að  upplýsingaskyldan verði látin hvíla á þeim í þeim tilvikum þegar erlendu fyrirtækin taka að sér vörslu hlutabréfa fyrir íslenskan vörsluaðila (t.d. íslenskan banka).  

Staðgreiðsla skatta af vöxtum sem greiddir eru erlendum viðtakanda 

Í framsöguræðu fjármála- og efnahagsráðherra í tengslum við 14. og 15. gr. frumvarpsins kom fram áhugi ráðherra á að efnahags- og viðskiptanefnd skoði í samvinnu við ráðuneytið hvort ástæða sé til að útvíkka undanþáguna og fella undir hana vaxtagreiðslur af skuldabréfum. Tók ráðherra fram í ræðu sinni að staðgreiðsluskyldan geti komið í veg fyrir möguleika íslenskra aðila til að fá fjármögnun erlendis frá. 

SFF fagna þessari umræðu og hvetja eindregið til þess að staðgreiðsla skatta af vaxtagreiðslum til aðila með takmarkaða skattskyldu á Íslandi verði afnumin. Óhætt er að fullyrða að staðgreiðsla skatta af söluhagnaði íslenskra hlutabréfa og af vaxtagreiðslum skuldabréfa sé viðskiptahindrun hvað varðar fjárfestingu erlendra aðila í íslensku efnahagslífi. Ísland er lítill markaður og skattheimta þessi gerir það að verkum að fjárfesting hér á landi er lítið aðlaðandi fyrir erlenda fjárfesta. Fyrirkomulag skattheimtu er eitt það fyrsta sem fjárfestar skoða við mat á fýsileika fjárfestingar og hefur þetta séríslenska fyrirkomulag fælandi áhrif, enda kostnaðarsamt og íþyngjandi ferli, bæði fyrir fjárfesta og vörsluaðila hér á landi. Tillaga frumvarpsins um afnám staðgreiðslu skatta af söluhagnaði íslenskra hlutabréfa er því mjög ánægjuleg fyrir íslensk viðskiptalíf.  

Forsaga staðgreiðsluskyldu á vöxtum sem greiddir eru til erlendra aðila er sú að árið 2009 voru samþykkt á Alþingi lög nr. 70/2009, um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Með lögunum urðu vaxtagreiðslur til erlendra aðila skattskyldar hér á landi en fram til þess tíma höfðu slíkar vaxtagreiðslur ekki verið skattlagðar. Jafnframt hvílir skylda samkvæmt íslenskum lögum til að halda eftir í staðgreiðslu skatti af vöxtum greiddum úr landi á greiðanda vaxtanna. Skiptir þar engu máli hvort viðtakandi vaxtanna eigi rétt á endurgreiðslu samkvæmt tvísköttunarsamningi milli Íslands og heimalands viðtakanda. Annist milligönguaðili greiðslu vaxtanna skal hann gegna skyldum greiðanda, óháð því hvort að milligönguaðilinn er innlendur eða erlendur 

Þessi löggjöf hefur leitt til þess að vaxtaberandi skuldabréf, sem gefin eru út af íslenskum fyrirtækjum (að undanskildum skuldabréfum fjármálafyrirtækja og orkufyrirtækja), eru ekki tæk til viðskipta á skipulögðum verðbréfamörkuðum erlendis. Ástæðan er sú sama og nefnd var hér að framan þ.e. að alþjóðleg greiðslumiðlunarfyrirtæki hafna því að taka að sér greiðslumiðlun í tengslum við viðskipti með skuldabréf sem gefin eru út af íslenskum aðilum.  Í dag eru tvö greiðslumiðlunarfyrirtæki leiðandi á þessum markaði í Evrópu, þ.e. Clearstream og Euroclear. Til þess að skuldabréf séu seljanleg á alþjóðamarkaði verða þau að vera til umsýslu, hjá a.m.k. öðru en helst báðum fyrirtækjunum. Þessi fyrirtæki neita að annast umsýslu bréfanna sem þannig hefur lokað aðgangi íslenskra fyrirtækja,  að erlendri lánsfjármögnun með útgáfu skuldabréfa.  

Þess má geta að vextir af skuldabréfaútgáfum sem ríkið, Seðlabanki, fjármálafyrirtæki og orkufyrirtæki greiða eru sérstaklega undanþegnir og er ekki skylt að halda eftir skatti vegna vaxtagreiðslna af skuldabréfaútgáfum þessara aðila. Hins vegar kallar þessi undanþága á að sækja þarf um staðfestingu á undanþágunni frá embætti Skattsins við hverja einustu útgáfu, eða nokkrum sinnum á ári í tilviki hvers fjármálafyrirtækis. Má auðveldlega færa rök fyrir því að um íþyngjandi skriffinnsku sé að ræða sem auðvelt ætti að vera að binda endi á.  

Þá má minna á að í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið er á bls. 199-200 fjallað um mikilvægi erlendrar fjárfestingar hér á landi sem mótvægi við erlenda fjárfestingu íslenskra lífeyrissjóða. Jafnframt er bent á að erlend fjárfesting sé nauðsynleg til að tryggja samkeppni og fjölbreytni á fjármagnsmarkaði. Breyting á skattareglum í þessa veru væri mikilvægt skref í að færa íslenskt fjárfestingarumhverfi nær því sem alþjóðlegir fjárfestar þekkja frá öðrum ríkjum og þannig greiða fyrir aukinni fjárfestingu erlendis frá. 

Með hliðsjón af framangreindu má færa sterk rök fyrir því að full ástæða er til að ganga lengra eins og ráðherra kom inn á í framsöguræðu sinni og afnema einnig staðgreiðslu af vaxtagreiðslum skuldabréfa.  

Afdráttarskylda skatts við útgreiðslu arðs 

Loks vilja SFF benda á við þetta tækifæri að það yrði til mikilla bóta á hlutabréfamarkaði  að færa afdráttarskyldu skatts við útgreiðslu arðs frá útgefendum til vörsluaðila (fjármálafyrirtækja). Það væri til samræmis við að vörsluaðilar draga staðgreiðsluskatt af vaxtagreiðslum við meðhöndlun afborgana af skuldabréfumSFF taka undir umsögn Marel um frumvarpið að þessu leyti.  

Umsögn send efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis af Jónu Björk Guðnadóttur, yfirlögfræðingi SFF

Deila