SFF fagna því að frumvarp til nýrra laga um greiðsluþjónustu hefur verið lagt fram á Alþingi sem ætlað er að innleiða í íslenskan rétt svokallaða PSD2 tilskipun ESB. Samtökin fagna tillögum frumvarpsins um opnun greiðsluþjónustumarkaðarins sem ætlað er að treysta neytendavernd og skapa tækifæri til aukinnar nýsköpunar, vöruþróunar og samkeppni í greiðsluþjónustu. Mikilvægt er að innlendur greiðsluþjónustumarkaður starfi eftir alþjóðlega viðurkenndri umgjörð sem er sem líkust því sem gerist í Evrópu. Það gerir íslensk fyrirtæki samkeppnisfærari, getur opnað fyrir aðgang þeirra að stærri mörkuðum í nágrannalöndunum og einnig greitt fyrir aðgengi erlendra þátttakenda á íslenskum markaði. Á sama tíma þarf að leggja sérstaka áherslu á öryggismál, upplýsingavernd og áhættuvarnir. Tæknileg aðlögun að kröfum laganna hjá viðskiptabönkum, sparisjóðum, lánastofnunum og öðrum greiðsluþjónustuveitendum, þ.m.t. nýjum tegundum greiðsluþjónustuveitenda, þarf að taka mið af þessu. Sama er að segja um opinbert eftirlit. Jafnframt er mikilvægt að skapa réttarvissu um tiltekin atriði sem frumvarpið kveður á um. Þá þarf að leggja traustari lagagrundvöll fyrir nýtingu á nýjum stafrænum lausnum og samskiptaleiðum við veitingu fjármálaþjónustu svo auðvelda megi aðgengi að og nýtingu á þjónustunni.