Skip to content

Umsögn um frumvarp til laga um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda

SFF hafa sent Alþingi umsögn um frumvarp til laga um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir þeirri meginreglu að stjórnvöld sendi gögn til einstaklinga og lögaðila með stafrænum hætti. Réttaráhrif birtingar í pósthólfinu myndi þá jafngilda birtingu með bréfpósti. SFF fagna þessum áformum sem munu án efa hafa umhverfisvæn áhrif með minni pappírsnotkun og leiða til annarrar hagræðingar, hvort tveggja fyrir þá sem birta upplýsingarnar og þá sem móttaka þær.

Í frumvarpinu er áformað að ráðherra geti með reglugerð ákveðið að einkaaðilum verði heimilt að birta gögn í pósthólfinu. Í greinargerð er nefnt sem dæmi „..lögmenn í tengslum við mál sem falla undir réttarfarslög sem og aðrir einkaaðilar sem birta ýmsar tilkynningar sem byggja á lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum“. Fjármálafyrirtæki og vátryggingafélög gætu fallið undir þetta. Þeim ber samkvæmt ýmsum sérlögum að birta viðskiptavinum (neytendum) margs konar tilkynningar og upplýsingar, yfirleitt á pappír eða öðrum varanlegum miðli. Hugtakið varanlegur miðill er yfirleitt skilgreint sem sérhver miðill sem gerir viðskiptavini fjármálafyrirtækis (neytanda) kleift að geyma upplýsingar, sem beint er til hans persónulega, á þann hátt að þær séu aðgengilegar til samanburðar síðar og eins lengi og nægir miðað við tilgang upplýsinganna, og gerir kleift að afrita upplýsingarnar, sem þar eru geymdar, óbreyttar. Hugtakið varanlegur miðill snýr þannig að miðlinum sem geymir upplýsingarnar, ekki bara að birtingunni. Frumvarpið kveður ekki sérstaklega á um að birting í pósthólfinu uppfylli kröfur um að vera birting á varanlegum miðli. Til þess að taka af allan vafa um það leggja SFF til að skerpt verði á ákvæðum frumvarpsins hvað þetta varðar þannig að fjármálafyrirtæki og vátryggingafélög fái skýran valkost  að nota pósthólfið sem eina leið af fleirum til að birta viðskiptavinum upplýsingar á varanlegum miðli.

Umsögnina í heild sinni má lesa hér

Deila