SFF fagna því að framangreint frumvarp er komið fram á Alþingi en frumvarpinu er ætlað að innleiða reglugerð ESB nr. 9009/2014 um bætt verðbréfauppgjör og verðbréfamiðstöðvar (CSDR) í lög hér á landi. SFF telja að með reglugerðinni verði tímamót á sviði löggjafar um uppgjörsferli verðbréfaviðskipta hér á landi. Nýjar reglur staðla og aga vinnubrögð í uppgjörsferlinu með stöðluðum rafrænum samskiptum á milli markaðsaðila, hvort sem þeir eru innlendir eða erlendir. SFF leggja ríka áherslu á að íslenskur fjármálamarkaður vinni eftir sömu reglum og gilda í Evrópu en leggja jafnframt áherslu á að ekki séu innleiddar hér á landi séríslenskar reglur nema brýna nauðsyn beri til.
Hér á eftir eru athugasemdir SFF við einstök atriði frumvarpsins:
Þóknun reikningsstofnunar
Í 5. mgr. 8. gr. segir að reikningsstofnun sé skylt að án tafar að framkvæma skráningu í kerfi verðbréfamiðstöðvar, enda framvísi viðkomandi aðili viðhlítandi gögnum um grundvöll beiðninnar. Þá er tekið fram að fyrir það er henni heimilt ákvarða hæfilega þóknun sem birt skal í gjaldskrá á vefsvæði reikningsstofnunar. Í athugasemdum við ákvæðið er hæfileg þóknun útskýrð sem sanngjörn og hófleg. Að mati samtakanna skýtur skökku við að löggjafinn festi í lög ákvæði sem ætlað er að setja óljósan mælikvarða um verðlagningu á þjónustu fyrirtækja sem eru í samkeppnisrekstri. Ekki er ljóst af ákvæðinu hvað telst hæfileg/sanngjörn og hófleg þóknun og hvaða mælikvarða reikningsstofnun er ætlað að leggja til grundvallar. Því er lagt til að orðið „hæfileg“ verði fellt brott úr ákvæðinu. Hér er mikilvægt að hafa í huga það markmið samkeppnislaga að samkeppni í viðskiptum sé bæði æskileg og nauðsynleg. Samkeppni getur bæði stuðlað að auknu og betra vöruframboði auk betri þjónustu hjá fjármálafyrirtækjum sem sérhæfa sig á þessu tiltekna sviði. Það er því afar mikilvægt að fjármálafyrirtæki geti keppt í viðskiptum bæði hvað varðar vöruframboð og verð. Að mati SFF er ekki heppilegt að löggjafinn setji í lög reglur sem skerða frjálsa samkeppni nema brýnir almannahagsmunir mæli með því. Ekki verður séð að svo sé í þessu tilviki.
Aðgangur hlutafélaga að upplýsingum í verðbréfamiðstöð
Ákvæði 15. gr. mælir fyrir um að verðbréfamiðstöð skuli veita hlutafélögum aðgang að upplýsingum í verðbréfamiðstöð um skráða eigendur hlutabréfa í viðkomandi hlutafélagi sem þar er eignarskráð. Hið sama gildir um aðgang rekstrarfélaga verðbréfasjóða að upplýsingum um eigendur hlutdeildarskírteina og hluta í sjóðum í rekstri þeirra. SFF telja mikið hagræði af þessu ákvæði í frumvarpinu. Í þessu samhengi óska SFF eftir því að þingið taki til skoðunar hvort veita eigi útgefendum rafrænt skráðra fjármálagerninga viðlíka lagaheimild til að afla upplýsinga um eigendur slíkra fjármálagerninga hjá verðbréfamiðstöð. Upp geta komið aðstæður hjá útgefendum rafrænt skráðra fjármálagerninga þar sem nauðsynlegt er að þeir hafi samband við eigendur, svo sem vegna skilmálabreytinga eða í tengslum við greiðslur. Í framkvæmd hefur það til dæmis aukist að rafrænt skráð skuldabréf innihaldi skilmála þar sem eigendur gefa útgefanda heimild til að afla upplýsinga hjá verðbréfamiðstöð um skráða skuldabréfaeigendur á hverjum tíma. Þetta vill stundum gleymast hjá útgefendum og af því geta hlotist ýmis vandræði. Við slíkar aðstæður hafa útgefendur t.d. haft samband við reikningsstofnanir og óskað hafa milligöngu þeirra um að reyna að hafa samband við skuldabréfaeigendur með misjöfnum árangri. Með slíkri lagaheimild felst viðskiptahagræði og aukið gagnsæi á markaði.
Hlutlæg skaðabótaábyrgð
Í 21. og 22. gr. er mælt fyrir um hlutlæga ábyrgð verðbréfamiðstöðvar og reikningsstofnunar á tjóni. Í greinargerð segir að hlutlæg ábyrgð sé að norskri og sænskri fyrirmynd. Eftir því sem SFF komast næst er þetta ekki rétt. Í greinargerð með norsku frumvarpi til innleiðingar á CSDR á bls. 172 kemur fram að með innleiðingu CSDR í Noregi verði eldri ákvæði norskra laga um hlutlæga skaðabótaábyrgð verðbréfamiðstöðvar og reikningsstofnunar felld niður þar sem almennar skaðabótareglur er taldar nægilegar til að vernda hagsmuni mögulegra tjónþola gegn tjóni sem þeir kunna að verða fyrir. Orðrétt segir í greinargerðinni: “Arbeidsgruppen har dessuten foreslått at någjeldende verdipapirregisterlov § 9-1 annet ledd ikke videreføres i den nye loven. Bestemmelsen fastsetter at verdipapirregisteret er ansvarlig for annet økonomisk tap dersom det skyldes uaktsomhet fra registerets side eller hos noen registeret svarer for. Arbeidsgruppen har vist til at etter norsk rett gjelder det et strengt, ulovfestet uaktsomhetsansvar for profesjonsutøvere. Videre hefter dessuten verdipapirregisteret og kontoførere for feil begått av deres arbeidstakere og kontraktshjelpere etter bakgrunnsretten. Arbeidsgruppen mener at det foreslåtte kontrollansvaret, sett i sammenheng med bakgrunnsretten, vil være tilstrekkelig til å sikre eventuelle skadelidtes interesser.” SFF sjá ekki nein rök fyrir því að hér á landi gildi strangari reglur um þetta atriði en í Noregi og leggja því til að ákvæði VII. kafla frumvarpsins verði felld brott.
Viðurlög
Í 30. gr.er mælt fyrir um að það varði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við brotinu samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn ákvæðum CSDR. Það vekur athygli að refsirammi ákvæðisins er allt að tveggja ára fangelsi. Til samanburðar má nefna að refsirammi norsku laganna er sektir eða fangelsi allt að einu ári. Ekki verður séð að sérstök rök liggi fyrir tvöfalt þyngri refsingum hér á landi en í Noregi. Því SFF telja eðlilegt að refsiramminn verði lækkaður til samræmis við norsku lögin.
Umsögn til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis
Unnið af Jónu Björk Guðnadóttur, yfirlögfræðingi SFF.