Skip to content

Umsögn um frumvarp um rafrænar skuldaviðurkenninga

Sérstakt fagnaðarefni er að frumvarp um rafrænar skuldaviðurkenningar hefur verið lagt fram á Alþingi. Með frumvarpinu er lagt til að settar verði lagareglur um nýtt lánaform, svokallaðar rafrænar skuldaviðurkenningar, sem veitir sambærilegt réttarfarshagræði og skuldabréf. Frumvarpið miðar að því að auka skilvirkni í viðskiptum, einfalda lánaumsýslu, hafa jákvæð umhverfisáhrif og skapa hagræði fyrir almenning, lánveitendur og opinbera aðila. Frumvarpið mun hafa í för með sér að lánveitingar og þinglýsingar geta orðið algerlega pappírslausar. Í því felst verulegt hagræði fyrir lánastofnanir og lántaka. Samhliða eru lagðar til afmarkaðar breytingar á fleiri lögum svo sem þinglýsingalögum, lögum um aðför, lögum um nauðungarsölu og lögum um sértryggð skuldabréf.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að fram til 31. desember 2025 verði einungis heimilt að gefa út rafrænar skuldaviðurkenningar vegna fasteignalána til neytenda og neytendalána til fjármögnunar kaupa á ökutæki. Þessi takmörkun er rökstudd í greinargerð með því að þar sem um nýtt lánaform sé að ræða sé nauðsynlegt að gefa öllum aðilum tíma til aðlögunar m.a. í því skyni að fínpússa framkvæmdina auk þess sem þessar lánategundir hafi mesta þýðingu fyrir almenning. Að mati SFF felur ákvæðið í sér full mikla takmörkun á notkun lánaforma. Æskilegt væri að fella öll neytendalán samkvæmt lögum um neytendalán undir gildissvið laganna frá upphafi. Að öðrum kosti geta fjármálafyrirtæki ekki nýtt þetta nýja lánaform fyrir rafrænar skuldaviðurkenningar sem ekki þarf að þinglýsa.

Þá væri afar mikið hagræði af því að lán til fyrirtækja til fjármögnunar kaupa á ökutækjum féllu undir lögin strax frá upphafi. Lán til fjármögnunar kaupa á ökutækjum eru að miklu leyti sambærileg óháð því hvort um neytendur eða lögaðila er að ræða. Að öðrum kosti getur orðið mismunur í framkvæmd rafrænna lánveitinga til fjármögnunar kaupa á ökutækjum eftir  því hvort lántaki er einstaklingur eða lögaðili, þó um efnislega sambærilegar skuldbindingar væri að ræða.

Nálgast má umsögn SFF um frumvarpið hér. 

Deila