Skip to content

Varað við fölskum gylliboðum á Facebook

CERT-IS, netöryggissveit íslenskra stjórnvalda, hefur vakið athygli á svikaauglýsingum á Facebook sem vísa á falskar vefverslanir sem þykjast selja tísku- og merkjavörur á allt að 90% afslætti. Um svikasíður er að ræða sem fólki er eindregið ráðlagt að forðast.

CERT-IS hefur vísbendingar um að svindlararnir séu fljótir að setja upp nýjar svindlsíður í nafni nýrra aðila og birta auglýsingar um það á Facebook.

Í tilkynningu á vef CERT-IS er einnig bent á að fórnarlömb svikanna fái kvittanir í tölvupósti eftir ætluð viðskipti þar sem segi að færsla í kortayfirliti berist frá öðrum söluaðila en búast megi við. Það veldur því að fórnarlömb svikanna tilkynni ekki svikin strax til síns viðskiptabanka eða kortafyrirtækis.

Því er fólk hvatt til að vera gagnrýnið á auglýsingar sem það rekst á á netinu og skoða vel færsluyfirlit greiðslukorta sinna og hafa samband við sinn viðskiptabanka eða kortafyrirtæki sjái það grunsamlegar færslur.

Nánar á vef CERT-IS

Deila færslu