Skip to content

VEL SÓTTUR FUNDUR UM UMFERÐARÖRYGGI OG SAMFÉLAGSLEGAN ÁBYRGÐ

Um 100 manns sóttu sameiginlegan morgunverðarfund Samtaka fjármálafyrirtækja og Samtaka ferðaþjónustunnar í morgun um ástand vegakerfisins, umferðaröryggi og samfélagslega ábyrgð. Tilgangur fundarins var að efla umræðu um mikilvægi fjárfestingar í innviðum vegakerfisins til að tryggja umferðaröryggi á tímum vaxandi umferðarþunga meðal annars vegna fjölgunar ferðamanna hér á landi.

Katrín Júlíusdóttir framkvæmdastjóri SFF setti fundinn. Katrín sagði að ljóst væri að kostnaður vegna skorts á fjárfestingu í vegakerfinu væri orðinn tilfinnanlegur og yrði meiri ef ekkert verður að gert. Það væri ástæðan fyrir að SFF og SAF vinni saman að þessum málum og að nauðsynlegt væri að fleiri kæmu að málum til að vinna að úrbótum.

Jón Gunnarsson, samgönguráðherra ávarpaði fundinn, en fram kom i hans máli að mikil þörf væri á að efla fjárfestingu í vegakerfinu. Nefndi hann sérstaklega samgönguæðar til og frá höfuðborgarsvæðinu í þeim efnum og viðraði hugmyndir að ef slíkar framkvæmdir væru fjármagnaðar með sérstöku gjaldi gæti skapast aukið svigrúm til þess að ráðast í  frekari uppbyggingu á landsbyggðinni.

Gunnar Geir Gunnarsson, deildarstjóri öryggis- og fræðsludeildar Samgöngustofu, gerði svo grein fyrir tölfræði yfir umferðarslys í umferðinni í fyrra. Fram kom hjá Gunnari að töluverð aukning hafi orðið á alvarlegum slysum erlendra ferðamanna í fyrra en þá slösuðust 47 ferðamenn alvarlega en 26 alvarleg óhöpp voru skráð árið 2015. Tveir erlendir ferðamenn létust í umferðinni í fyrra, samanborið við fimm árið áður.

Samkvæmt gögnunum sem Gunnar kynnti áttu flest slysin sér stað á Vesturlandi en næstflest á Suðurlandi. Flestir þeirra erlendu ferðamanna sem lentu í umferðarslysum hér á landi í fyrra voru Kínverjar, næstir komu Bandaríkjamenn og svo Frakkar. Útafakstur eða bílvelta var langalgengasta tegund umferðarslysa meðal erlendra ferðamanna.

Víðir Reyn­is­son verk­efnastjóri hjá Lög­regl­unni á Suður­landi og full­trúi Al­manna­varna, sagði meðal annars að stórauka þyrfti fræðslu til erlendra ferðamanna um umferðaröryggi og þyrfti sú fræðsla að vera viðvarandi en ekki í formi túnabundins átaks. Hann sagði enn fremur að nauðsynlegt væri að stórauka umferðareftirliti á þjóðvegum enda væri hringvegurinn stærsta slysagildran.

Deila færslu