Um 160 manns sóttu fund SFF, Nasdaq Iceland og fjármála- og efnahagsráðuneytisins um úrbætur á verðbréfa- og fjármálamarkaði sem fram fór í morgun. Efnt var til fundarins til þess að fjalla um þær úrbætur sem gerðar hafa verið á umgjörð verðbréfamarkaðarins á undanförnum árum og hvaða frekari breytinga er þörf.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, setti fundinn og fjallaði um það sem stjórnvöld hafa gert til þess að efla verðbréfamarkaðinn á undanförnum árum og ræddi meðal annars nýsköpunarfyrirtæki og skattafslátt vegna fjárfestinga í þeim. En ríkisstjórnin lagði fram frumvarp um þau mál í síðasta mánuði. Einnig fjallaði hann um aðrar áherslur og mál sem ríkisstjórnin hefur unnið og varða verðbréfamarkaðinn.
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, fjallaði um tillögur að úrbótum að verðbréfamarkaði sem starfsmenn hennar hafi unnið að umbótum síðustu ár. Meðal þeirra vandamála sem Páll sagði verðbréfamarkaðinn standa frammi fyrir er að skortur sé á vaxtarfjármagni fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Það vandamál varði ekki eingöngu verðbréfamarkaðinn heldur hagkerfið allt. Nefndi hann sem dæmi að þetta dragi úr sköpun vel launaðra og áhugaverðra starfa og leiði til þess að vaxtarfyrirtæki flytjist frá landinu. Meðal þeirra lausna sem Páll sagði vera við þessum vanda sé að víkka út fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða og rýmka undanþágur frá gerð skráningarlýsinga í smærri útboðum.
Auk þess að fjalla um tillögur verðbréfahóps SFF að úrbótum á markaðnum fjallaði Hannes Frímann Hrólfsson, forstjóri Virðingar, um frumvarp sem Alþingi hefur til umfjöllunar um breytingu á lögum skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Í frumvarpinu er ekki gerð breyting á reglum um að lífeyrissjóðir megi einungis eiga 15% af af hlutafé, hlutdeildarskírteinum og hlutum sjóða um sameiginlega fjárfestingu. Hannes sagði að ef lög um 15% hámarkshlutdeild verði viðvarandi leiði það til þess að erfitt verður að fjármagna verkefni og færri verkefni komist á koppinn. Jafnframt sé líklegt að gerðar verði hærri arðsemiskröfur til þeirra verkefna sem tekst að fjármagna. Þetta gæti leitt til minni umsvifa í hagkerfinu til lengri tíma, minni hagvaxtar og þar af leiðandi lakari lífskjara. Í ljósi þessa þyrfti að hækka þetta hlutverk. Þá sagði Hannes að taka ætti til skoðunar að setja reglur sem auki upplýsingagjöf um veðsetningu hlutabréfa sem skráð eru í Kauphöllinni.